Enn minnkar fiskneysla
Lýðheilsustöð gaf út nýverið og sendi inn á öll heimili í landinu, bækling með uppskriftum af fiskréttum. Þetta er vel og sérstaklega í ljósi nýrrar könnunar sem sýnir að ungt fólk miklar fyrir sér matreiðslu á fiski og telur sig ekki kunna til verka.
Könnunin sem hér um ræðir var samvinnuverkefni Matís, Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Rannsóknarstofu í næringarfræði á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og fyrirtækisins Icelandic Services.
Skoðaðar voru matarvenjur 17 til 26 ára Íslendinga og borðaði unga fólkið að meðaltali fisk 1,3 sinnum í viku. Lýðheilsustöð mælir með að fólk neyti fisks að lágmarki 2 sinnum í viku.
Aðrar rannsóknir hafa sýnt að fiskneysla á Íslandi dróst saman um 30% frá árinu 1990 til ársins 2002 og eins hafa rannsóknir sýnt að ungar stúlkur borða minnst af fiski eða sem samsvarar einni fiskmáltíð á 10 daga fresti.
Þessi nýja könnun leiðir í ljós að fólk sem er áhugasamt um hollustu og heilsu neytir frekar fisks heldur en aðrir hópar og konur eru frekar í þessum hópi.
Annað sem kemur í ljós er að matarvenjur í æsku hafa mótandi áhrif á fiskneyslu ungs fólks. Samkvæmt þessu þarf að grípa inn í þar sem fólk neytir sífellt minna af fiski og þeim mun líklegra verður að fólk sem flytur úr foreldrahúsum neyti enn minna af fiski.
Fiskur er mjög próteinrík fæða og er hann góð uppspretta hinna mikilvægu ómega 3 fitusýra. Einnig er hann góð uppspretta joðs, selens og fleiri góðra næringarefna.
Ef fólk neytir ekki fisks getur verið flóknara að passa upp á að fá öll nauðsynleg næringarefni sem við þurfum.
Rannsóknir hafa sýnt að fiskneysla minnkar líkur á heilabilun, hún dregur úr líkum á hjartaáfalli og heilablóðfalli og jafnvel getur fiskneysla haft áhrif á greind barna.
Sjá einnig: Er fiskur hollur eða ekki? Fiskneysla á meðgöngu er gagnleg barninu og Getur maturinn sem við borðum, hjálpað okkur að halda góðri sjón?
Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir – greinin birtist fyrst á vefnum í mars 2007
No Comment