JurtirMataræði

Steinselja

Steinselja er meinholl og fjölhæf kryddjurt. Hún er ein algengasta kryddjurtin í Evrópu og má nota hana á margvíslegan hátt.

Steinseljan er uppfull af næringarefnum og þekkt fyrir mikið magn C vítamíns. Hún inniheldur hlutfallslega meira C vítamín en appelsínur. Önnur næringarefni eru kalk, fólínsýra, járn, magnesíum, mangan, fosfór, kalíum, selen, zink og A, B1, B2, B3, B5 og E vítamín, auk C vítamíns. Steinseljan hefur jafnframt háa andoxunarvirkni.

Þar sem steinselja inniheldur svo mikið magn C vítamíns bætir hún ónæmiskerfið og styður líkamann í að vinna upp járn úr fæðunni og er því góð við blóðleysi.

Steinselja örvar starfsemi nýrna, hjálpar við afeitrun líkamans og róar meltingarveginn. Hún léttir þannig á meltingartruflunum, ristilkrampa og vindgangi.

Virk efni í steinselju vinna á móti fjölgun krabbameinsfrumna og getur steinselja þannig verið vörn gegn myndun krabbameins.

Einnig örvar steinselja virkni þvagblöðru, lifrar, lungna, maga og skjaldkirtils.

Steinselja er að auki góð við vökvasöfnun, andremmu, háþrýstingi, offitu og vandamálum í blöðruhálskirtli.

Forðast ætti mikla notkun steinselju á meðgöngu þar sem hún getur örvað vöðva í leginu. Þannig getur hún komið að góðum notum til að auka samdrætti í fæðingu.

Steinselju á að geyma í kæli við 0 – 2 gráður og best er að geyma hana í götuðum plastpoka. Hana má einnig frysta og er hægt að sáldra henni frosinni beint yfir matinn áður en hann er borinn fram.

Steinselju má nota í salat, sósur, súpur og í alls kyns grænmetisrétti, jafnframt er algengt að nota hana í pottrétti og ofnbakaða rétti. Steinseljan fer mjög vel með öðrum kryddjurtum eins og kóríander, fer mjög vel með sítrónu og á sérstaklega vel við ef mikill hvítlaukur er notaður þar sem hún dregur töluvert úr hvítlaukslykt.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Kryddjurtir og gróðursetning þeirra

Next post

Íslensk fjallagrös

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *