MataræðiÝmis ráð

Rauðrófur – misskilda grænmetið

Pistill frá Sollu

Fordómar gagnvart rauðrófum

Ég var alin upp í að ég held miklu fordómaleysi, foreldrar mínir eru með víðsýnni og umburðarlyndari manneskjum sem ég þekki. Aldrei hef ég fundið svo mikið sem vott af fordómum í þeirra máli eða fari. En ég verð aðeins að opna mig. Einhversstaðar á leiðinni hef ég náð að næla mér í smá fordóma. Og það gagnvart rauðrófum. Þeir koma ekki frá foreldrum mínum sem hafa ræktað lífrænar rauðrófur með góðum árangri og alveg staðist þá freistingu að pína þessu grænmeti oní okkur systkinin.

 

Yfirmanneskja á handklæðavélinni

Ég held að ef ég færi í smá dáleiðslumeðferð þá kæmi líklega í ljós að þessir fordómar stafa frá Kaupmannahafnar dvöl minni fyrir um 30 árum. Þegar ég var ung kona á uppleið, starfaði í þvottahúsi og var yfirmanneskja á handklæðavélinni. Ég var ekki beint hátekjumanneskja og launin rétt nægðu fyrir húsaleigu og því allra nauðsynlegasta. Það sem var alltaf á tilboði í stórmörkuðunum í þá daga var rúgbrauð, kæfa og niðursoðnar rauðrófur. Stundum var ekki mikið í buddunni og þá var endurtekið efni í matinn, rauðrófur, kæfa rúgbrauð……

Síðan varð ég ófrísk af stóru stelpunni minni og þá þurfti að passa upp á járnið í kroppnum. “Du skal spise masser af rödbeder” sagði ljósmóðirin í móðurlegum tón. Og ég hlýddi. Hvar sem því var við komið bætti ég niðursoðnum rauðrófum á diskinn hjá mér. Ég man enn eftir jarðarbragðinu sem blandaðist við járnbragðið úr kæfunni. Þetta var áður en ég breytti um mataræði og ég hafði nákvæmlega engan áhuga á mat. Líklega hef ég borðað yfir mig af þessari rauðu rót því það liðu meira en tveir áratugir áður en ég gat hugsað mér svo mikið sem að smakka rauðrófur í einhverri mynd.

 

Talaði illa um rauðrófur

Ég meira að segja lagðist svo lágt að ég talaði illa um rauðrófur. Sendi þeim tóninn og gerði lítið úr þeim þegar þær bárust í tal……
En svo kom vel á vonda. Mér var boðið í mat hjá vinkonu minni frá Pakistan. Ég var búin að hlakka alveg ótrúlega til að fara í mat til hennar, ég elskaði indverskan og pakistanskan mat. Hún sagðist ætla að koma mér á óvart og elda alveg dááásamlegan pottrétt. Ég ákvað því að vera skynsöm og var mjög létt á fóðrum allan daginn. Ég mætti með stóran blómvönd, gaulandi garnir og vatn í munninum. Síðan var sest að borðum. Lyktin var guðdómleg. Hún opnaði pottinn og þarna blasti við þessi líka blóðrauða kássa. “This is my family special gourmet dish, we only eat with special guests” sagði hún og brosti sínu breiðasta. Svo koma ræðan um að hún hefði staðið í marga klukkutíma við að elda þessa gersemi. Ég fór næstum því að gráta ég var svo spæld. Rauðrófur. Af öllu grænmeti á jarðarkringlunni þá var þetta það eina sem ég gat ekki hugsað mér. En þar sem ég er ótrúlega vel upp alin þá fékk ég mér smávegis á diskinn. stakk bitanum upp í mig með kvíðahnútinn í maganum.

 

Guðdómlegt bragð

Ég held að lífið hafi aldrei komið mér jafn skemmtilega á óvart. Þetta bragðaðist guðdómlega. Svei mér þá ef ég fékk ekki eins konar andlega vakningu….. og frá þeim deigi höfum við rauðrófan verið eitt. The End.

 

Beta Vulgaris

Rauðrófan hefur verið til eins lengi og elstu menn muna. Latneska heitið er beta vulgaris. Í byrjun voru grænu blöðin á rauðrófunni það sem gerði hana eftirsóttarverða. Þau þykja sérstaklega næringarrík og alveg afbragð í saltöt, djúsa, sósur og grænan uppstúf. Í þá daga var rótin notuð sem meðal eða til lækninga, enda alveg stútfull að alls konar góðri næringu og undraverðum hæfileikum til að gera við ýmislegt sem bilar í kroppnum. Hippókrates sagði: “láttu matinn verða meðalið þitt og meðalið matinn.” Og svo fórum við að nota rauðrófuna hægri vinstri í alls konar rétti, súrsa hana svo hún geymdist betur, sjóða úr henni “borsch” eða rauðrófusúpu sem er jafn þekkt í Úkraínu og kjötsúpan er á Íslandi.

 

Margar leiðir til að nota rauðrófur

Það eru til ótal leiðir til að nota rauðrófur. Það má sjóða hana niður, súrsa hana og mjólkursýra, nota í chutney, pikles, baka og sjóða, steikja og nota hana hráa. Setja hana í pottrétti, buff, súpur, brauð, djúsa og sjeika. Ég nota rauðrófuna aðallega hráa. Ég sker hana í þunnar sneiðar og marinera hana þá gjarnan fyrst í sítrónusafa + ólífuolíu + smá tamarisósu + smá engifersafi/duft. Læt hana liggja í þessu í a.m.k. 30 mín. Þá er hún tilbúin til notkunar. Ég get notað hana sem “ravioli” og fyllt hana með einhverri góðri fylingu. Hráar og marineraðar eru þær flottar í súpur, salöt og sushi. Ótal leiðir til að nota þær.

Þegar þið veljið rauðrófur þá er best að hafa þær stinnar með fallegu skinni. Þær hafa fínt geymsluþol, geymst í um mánuð í kæli ef þær eru settar í plastpoka.
Ég ætla að gefa ykkur nokkrar rauðrófu uppskriftir og hvet ykkur ef þið tengduð við fordómana að gefa þessar dásamlegu rauðu rót sjens. Og ef allt um þrýtur má skera hana í tvennt og nota sem varalit

Gangi ykkur sem allra best – Solla

 

Rauðrófupottréttur

Rauðrófu kokteill

Rauðrófusalat m/fræjum

Previous post

Ungar kókoshnetur - young coconut

Next post

Grunnurinn að líkamlegu heilbrigði

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *