Tedrykkja vinnur á streitu
Það getur hjálpað til við að draga úr streitu að drekka te reglulega. Þetta kemur fram í rannsókn sem birtist í ritinu Psychopharmacology og var framkvæmd af teymi frá University College London (UCL).
Rannsóknin fór fram á 75 karlmönnum sem skipt var í tvo hópa og stóð yfir í 6 vikur. Annar hópurinn fékk svart te með ávaxtabragði, en hinn hópurinn fékk drykk með svipuðum lit og bragði, sem innihélt þó ekki hin eiginlegu efni tesins. Enginn úr hópunum tveimur vissi hvorn drykkinn þeir fengu.
Karlmennirnir sem að drukku svart te fjórum sinnum á dag í sex vikur höfðu minna magn af stresshormóninu cortisol, en þeir sem að fengu gervite í stað venjulegs tes. Þeir sem að drukku teið voru líka meira afslappaðir eftir að hafa leyst streituvaldandi verkefni, en þeir sem að ekki fengu ekta te.
Í ljós kom, að þó að teið kæmi ekki í veg fyrir að streituhormónin jukust við streituvaldandi verkefni, þá virtist það hafa mikið með það að gera hve hratt magn streituhormónanna komst aftur í eðlilegt jafnvægi. Áður hefur verið sýnt fram á, að hægt afturhvarf streituhormóna eftir áreiti auki á áhættu þess að þróa með sér króníska sjúkdóma eins og t.d. hjartasjúkdóma.
Við lok þessara sex vikna voru þátttakendum úthlutuð ýmis verkefni sem öll voru hönnuð með það í huga að auka streitu þeirra, þ.á.m. voru þeim gefnar 5 mínútur til að útbúa kynningu og kynna hana. Við þessi verkefni jukust streituhormónin, blóðþrýstingur hækkaði og hjartsláttur varð örari, svipað mikið hjá öllum þátttakendunum.
Aftur á móti hafði cortisol magnið fallið að jafnaði um 47%, 50 mínútum eftir að verkefnunum var lokið hjá tedrykkjumönnunum, á meðan að fallið var að jafnaði um 27% hjá þeim sem að fengu gerviteið.
Ekki er enn vitað með vissu hvaða efni í teinu hafa þessi áhrif á cortisol magn líkamans og verða því næstu skref að komast að því.
Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir – greinin birtist fyrst á vefnum í mars 2007
No Comment