Að þvo grænmeti og ávexti
Gríðarlega mikilvægt er að þvo alla ávexti og allt grænmeti áður en við neytum þess.
Eiturefni sem leyfð eru til að sprauta á grænmeti og ávexti, til að halda frá skordýrum, illgresi og sjúkdómum skipta hundruðum, ef ekki þúsundum.
The World Health Organisation (WHO) hefur birt lista yfir 2.000 efni sem eru leyfð til að nota gegn ágangi skordýra í heiminum.
Hver ávöxtur getur hafa verið spreyjaður margsinnis með hundruðum ólíkra efna, áður en hann kemst inn á borð til okkar og þetta eru efni sem við viljum ekki inn fyrir okkar varir. Til eru staðlar hér á landi yfir hversu mikið af þessum efnum megi vera til staðar án þess að þau séu yfir hættumörkum. Huga þarf hins vegar af því að þessi efni hreinsast ekki alltaf út úr kerfinu og geta safnast fyrir í líkamanum og þannig haft neikvæð áhrif á heilsu okkar.
Dæmi um ávexti sem eru gríðarlega mikið spreyjaðir eru vínber. Gott er að setja klasa af vínberjum í skál með vatni og skipta um vatn nokkrum sinnum þar til vatnið hættir að vera gruggugt. Til þess að ná vatninu tæru þarf oft að skipta um vatn fjórum til fimm sinnum.
Athugið að þvo einnig ávexti sem þið takið utan af. Ef þið kannist við að fá vont bragð á varirnar og jafnvel sviða eftir að borða appelsínu í bátum, þá er það að öllum líkindum vegna sterkra efna sem ekki hafa verið þrifin af berkinum. Þvoið ykkur einnig um hendurnar eftir að taka utan af appelsínum og mandarínum, áður en þið tínið bátana upp í ykkur.
Eiturefni eru ekki notuð í lífrænni ræktun og er því best að velja lífrænt ræktaða ávexti og grænmeti til að sneiða hjá megninu af eiturefnunum. En þó er einnig mikilvægt að þvo lífrænu vöruna til að losna við óhreinindi, auk þess sem við ekki vitum hvar varan hefur verið og hvað hún hefur komist í snertingu við.
Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir
No Comment