Dönsum á okkur fallegan maga
Oftar en ekki benda konur á magann þegar að þær eru spurðar um hvað þær vildu helst laga eða breyta á líkama sínum. Því miður er þetta svæði líka oftast það sem að þær eiga erfiðast með að þjálfa upp, sérstaklega eftir að hafa gengið með börn.
Magaæfingar geta mikið hjálpað, en þær geta verið erfiðar þeim konum sem að eiga við einhvers konar mein í baki að stríða. Rope Yoga er mjög góð leið til að þjálfa upp magavöðvana og hjálpa böndin til með að ekki verði óæskilegt álag á bakið.
Einnig er dans tilvalinn til að þjálfa upp magann og hann hjálpar líka við að bæta jafnvægi, liðleika og samhæfingu. Fyrir utan svo skemmtilegheitin og gleðina sem að fylgja því að dansa við hressandi tónlist. Að dansa styrkir hjartavöðvann og brennir hitaeiningum, allt upp í 400-500 hitaeiningar á klukkutíma, fer þó eftir hvers lags dans er framkvæmdur og hve mikla hreyfingu viðkomandi leggur í dansinn.
Vöðvar líkamans vinna í pörum og það verður að þjálfa bæði vöðvapörin til að koma í veg fyrir ójafnvægi. Eins ætti aldrei að leggja ofuráherslu á eitt líkamssvæði því það veldur of miklu álagi á t.d. liði þess líkamssvæðis. Magavöðvarnir eru framhlið baksins og því þarf að styrkja vöðvana í mjóbakinu á móti þjálfun á magavöðvum.
Hinar hefðbundnu magaæfingar, „sit-ups”, styrkja aðallega efri magann og því benda konurnar endalaust á magann og telja svo erfitt að koma honum í fallegt form þrátt fyrir að leggja mikið á sig við æfingar. En við það að dansa eru allir vöðvahópar magans í fullri vinnu og því er tilvalið að nota sér báðar þessar leiðir saman til að gera magann fallegan. Það þarf þó að varast að dansa með slíkum krafti að aðrir líkamspartar verði í hættu. Varlega ætti að fara í fettur og brettur, sérstaklega ef að bakvandamál hafa verið viðloðandi.
Margs konar kennsluefni er til, sem að hægt er að setja í tækið heima og dansa með. Einnig er mikið framboð á danstímum, bæði hefðbundnum og svo meira sérhæfðum. Í Morgunblaðinu um daginn (21.03.07) segir frá Eddu Blöndal og Salsanámskeiðunum hennar. Salsadansinn er sérlega góður til styrkingar bæði á maga- og bakvöðvum og eins á vöðum mjaðmanna. Sífelld en mjúk hreyfing og salsatónlistin kemur öllum í gott skap.
Magadans er annað dansform sem að flestir ættu að prófa, sem að á annað borð hafa gaman af að dansa. Í þeim dansi lærist að stjórna vissum vöðvum í maganum og með æfingunni verður hægt að sjá bylgjuhreyfingar magavöðvanna í vissum danssporum. Magadans er t.d. kenndur í Magadanshúsinu, þar er hægt að fara í almenna tíma og líka er hægt að hafa samband og biðja um tíma fyrir hópa.
Dansinn er skemmtileg leið til að styrkja og móta fallegan líkama og einnig leiðir hann til þess að viðkomandi ber sig vel og gengur um hnarrreistur og fullur sjálfstrausts. Þolinmæði og það að þykja skemmtilegt það sem verið er að fást við, skilar mestum árangri. Því er um að gera að prófa sem flestar aðferðir og að hafa gaman af.
Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir
No Comment