Pottar og pönnur
Úrval potta og panna er stöðugt að aukast og framboðið er gríðarlegt. Verðin hlaupa frá nokkrum þúsundköllum í hundruðir þúsunda. Mikið er um teflonhúðaða potta, potta úr ryðfríu stáli og svo hinu svokallaða skurðlæknastáli. Álpottarnir virðast vera að hverfa af markaði en eitthvað er til af glerhúðuðum járnpottum.
Álpottar voru mikið notaðir á árum áður. Hins vegar kom í ljós að álið tærist auðveldlega og fer út í matvælin sem við síðan neytum. Jafnvel er talið að álið geti safnast fyrir í vefjum taugakerfisins og heilans.
Annað sem er varhugavert við álið er að matur sem er eldaður eða geymdur í álílátum, framleiðir efni sem gerir meltingarsafa líkamans óvirka. Þrátt fyrir að kostir álpottanna séu að þeir hitna hratt, hafa þeir verið á undanhaldi og jafnvel ástæða fyrir þá sem enn elda í slíkum pottum að skipta þeim út.
Teflonhúðaðir pottar eru gríðarlega vinsælir og framboðið mikið, enda frábært að elda á þeim. Fyrir nokkrum árum var mikið talað um skaðsemi teflons en nú heyrist minna í slíkum röddum. Sé Teflon hitað upp í 260 gráður fer það að veikjast og við 350 gráður fer það að brotna niður. Efnin og reykurinn sem þá losna út geta verið skaðleg, nógu skaðleg til að drepa lítinn páfagauk auk þess sem þau geta valdið flensueinkennum í mönnum. Til samanburðar fer að rjúka úr olíum og smjöri við 200 gráður og kjöt er oftast steikt við 230 gráður. Það þarf því óeðlilegan hita til að Teflon fari að leysast upp og svo virðist sem efnið sé undir venjulegum kringstæðum skaðlaust. Þess ber að geta að sé olía í flestum öðrum pottum og pönnum hituð upp í slíkt hitastig losna síst heilsusamlegri gufur.
Teflon er talsvert umdeilt og lögsóknir hafa farið fram á hendur fyrirtækisins DuPoint, aðalframleiðslufyrirtæki Teflons. Lögsóknirnar hafa fyrst og fremst snúist um mengun við framleiðslu efnisins en ekki vegna hættu við notkun þess. Hið umdeilda efni í Teflon heitir perfluorooctanoic acid (PFOA) og er m.a. notað innan í allskonar umbúðir eins og súkkulaðibréf, örbylgjupopppoka, pítsukassa og fleiri umbúðir sem gott er að hryndi frá sér. Efnið er líka notað í Gore-tex öndunarfilmuna í útivistarfatnaði. Sum þekkt útivistarmerki hafa byrjað að sneiða hjá þessu efni í framleiðslu sinni. Enn hefur ekki verið sannað að efnið sé mönnum skaðlegt þegar það er bundið í t.d. Tefloni en þó er ekki mælt með eldunaráhöldum sem húðaðar eru með Tefloni þar sem það flagnar með tímanum og endar á þann hátt í líkamanum.
Ryðfríir stálpottar eru líklega þeir algengustu á markaðnum. Stál leiðir varma síður en ál en til eru stálpottar með annaðhvort olíu eða áli innan í (eins konar samlokupottar) og þeir leiða varma mjög vel. Ókosturinn við stálpottana er að þeir innihalda málma sem geta leyst upp undir ákveðnum kringumstæðum, sérstaklega þegar einhverskonar sýra er sett í þá, t.d. edik eða sítrónusafi. Hins vegar má kaupa potta úr mishörðu stáli og því harðara sem stálið er því minna leysist það upp. Almennt þykja stálpottar frekar heilsusamlegir.
Enameleraðir járnpottar (glerjaðir að utan) eru líka góður kostur. Þetta eru samskonar pottar og ömmur okkar notuðu gjarnan hér áður fyrr. Það gæti þurft að smyrja þá í upphafi með jurtaolíu en nú eru slíkir pottar orðnir svo góðir að þeir hrinda talsvert frá sér án þess að vera húðaðir sérstaklega. Þrátt fyrir glerið að utan er hvorki blý né cadmium sem getur lekið úr þeim.
Sumir keramikpottar eru mjög varhugaverðir því þeir geta innihaldið blý sem mögulegt er að leki úr þeim út í matvælin. Blýeitrun getur valdið fósturskaða og haft mjög slæm áhrif t.d. á ung börn. Þeir sem nota keramikvörur ættu að kynna sér hvort þær innihaldi blý en frekar strangar reglugerðir eru við blýnotkun í innflutningsvörum.
Flestir nota potta og pönnur gríðarlega mikið og gagnlegt er að kynna sér úr hverju eldunarílátin eru. Flestir pottarnir hafa einhverja kosti og galla og því er nauðsynlegt að hver og einn velji það sem honum finnst henta sér helst. En umfram allt er mikilvægt að vita hvaða efni maður hefur í höndunum og hvers þarf að gæta við notkun þeirra.
Höfundar: Hildur M. Jónsdóttir og Helga Björt Möller
No Comment