UmhverfiðUmhverfisvernd

Fair Trade vörur

Oft berast okkur fréttir af börnum eða fólki í þriðja heiminum sem vinnur við hættuleg og ómannúðleg skilyrði, til þess eins að framleiða vörur fyrir hinn vestræna heim. Þessi óhagstæðu skilyrði skapast þegar verið er að ná vöruverði niður og kaupendur eru eingöngu tilbúnir til að greiða algjört lágmarksverð fyrir vöruna. Það gefur augaleið að þegar við í hinum vestræna heimi kaupum vörur á undarlega lágu verði er á einhvern hallað í þeim viðskiptum. Oftast er það fólkið sem vinnur við framleiðsluna.

Á heimasíðu Hjálparstarfs kirkjunnar er dálkur tileinkaður Fair Trade viðskiptabandalaginu. Þar kemur fram að Fair Trade hugtakið gengur út á það að borga bændum og framleiðendum í þriðja heiminum sanngjarnt verð fyrir vörur sínar og er Fair Trade oftast þýtt sem “Sanngjarnir viðskiptahættir”.

Smábændur og smáframleiðendur stofna með sér samvinnufélag þar sem verðið á vöru þeirra er fyrirfram ákveðið og 60% af áætlaðri uppskeru er greitt fyrirfram. Fair Trade samningur gefur smábændunum beinan aðgang að vestrænum mörkuðum og dregur úr milliliðum. Því fer meira af ágóðanum í vasa smábændanna og framleiðendanna og starfsumhverfi þeirra verður mannsæmandi.

Þegar Fair Trade samningur er gerður er alltaf hluti af ágóðanum sem fer í uppbyggingu á samfélagi smábændanna, ströng skilyrði eru sett gegn barnaþrælkun, stutt er við lífræna ræktun og þess er gætt að fólk fái sanngjörn laun fyrir vinnu sína. Fair Trade vinnur gegn fátækt í heiminum en er þó ekki ölmusuhjálp.

Þeir smábændur og framleiðendur sem nú eru aðilar að Fair Trade sambandinu eru um 1,4 milljón talsins. Vestræn fyrirtæki sem skipta við Fair Trade eru um 2000. Salan á Fair Trade vörum jókst um 40% á árinu 2006 miðað við árið 2005 og velta hinna merktu vara var tæplega 16 milljarðar króna.

Í Evrópu eru Fair Trade vörur orðnar nokkuð þekktar og t.d. er um 20% af seldu kaffi í Englandi með slíka merkingu. Í Sviss er tæplega helmingur allra banana merktir Fair Trade, tæplega þriðjungur hveitis og um 10% af sykri. 90% Hollendinga segjast þekkja og kaupa Fair Trade merktar vörur.

Íslendingar eru hins vegar aftarlega á merinni varðandi Fair Trade vöruúrval og þekkingu almennings á hvaða þýðingu það hefur að versla með sanngirni að leiðarljósi. Það er ábyrgð kaupenda að draga úr barnaþrælkun, mannréttindabrotum og fátækt í heiminum, þeir hafa valdið í hendi sér en ekki smábændurnir. Þess utan ber að undirstrika að Fair Trade er ekki góðgerðarstarf heldur sanngirni sem snýst um að borga eðlilegt verð fyrir gæðavöru þannig að allir njóti góðs af.

Það má finna nánast allar framleiddar vörur frá þriðja heiminum með Fair Trade vottun og það einskorðast ekki eingöngu við matvöru.

 

Þær verslanir sem selja Fair Trade vörur á Íslandi eru:

  • Fair Trade búðin
  • Yggdrasill
  • Maður Lifandi
  • Nóatún
  • Krónan
  • Bónus
  • Hagkaup
  • Rúmfatalagerinn

Sjálfsagt eru þessar verslanir fleiri og vonandi fara íslenskir neytendur í auknum mæli að leita eftir Fair Trade gæðavottuninni á vörunum sem þeir versla, með það í huga að styðja við sanngjarna viðskiptahætti.

 

Höfundur: Helga Björt Möller, greinin birtist fyrst á vefnum í apríl 2008

Previous post

Eldsneytisframleiðsla og kjötneysla

Next post

Af hverju fer kaffiverð hækkandi?

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *