EndurvinnslaJólUmhverfið

Mismunandi merkingar á plasti og endurvinnslugildi þess

Plast er eitt algengasta efnið í umhverfi okkar og notkun þess eykst í sífellu. Heilsubankinn hefur fjallað svolítið um plast upp á síðkastið og enn verður framhald á slíkri umfjöllun.

Flestar plasttegundir má endurvinna og samkvæmt upplýsingum Sorpu er tekið við öllu plasti hér á Íslandi, allt frá plastfilmum, skyrdósum og innkaupapokum, til plasttunna, plastbrúsa og heyrúlluplasts. Plastið er svo sent til Svíþjóðar, en þar er það flokkað eftir efnainnihaldi og endurunnið. Þess ber að geta að þeir sem koma með mikið magn af plasti, svo sem bændur með heyrúlluplast, fá greitt fyrir kílóverðið og má finna upplýsingar um það á vefsíðu Sorpu.

Tekið er á móti plasti í endurvinnslustöðvum í Reykjavík og á Akureyri. Í öðrum sveitarfélögum er þjónustan mismunandi, enda undir hverju sveitarfélagi komið, að taka ákvarðanir um sorphirðu og þjónustu við endurvinnslu.

Plast er oftast merkt með endurvinnslutákni, litlum þríhyrningi sem inniheldur númer frá 1 upp í 7, gjarnan á botni plastílátsins. Þessi tákn segja til um hvaða efnasambönd eru í plastinu og hvernig sé hægt að endurvinna það. Hér kemur skýring á þessum plasttegundum:

 

Plast nr 1 – PET eða PETE (polythylene terephthalate)

Notað í: Gos- og vatnsflöskur, munnskolsbrúsa, hnetusmjörsílát, salatsósu- og jurtaolíubrúsa auk plastíláta sem setja má í ofn.

Endurunnið í: Fleeceefni, trefjar, innkaupapoka, húsgögn, mottur og stundum ný ílát.

Það er örlítil hætta á að þessi plastefni leysist upp og blandist matvörum sem þau innihalda.

 

Plast nr 2 – HDPE (þétt polyethylene)

Notað í: Ýmis drykkjarílát, klór-, þvottaefna- og hreingerningabrúsa, shampóbrúsa, rusla- og innkaupapoka, smurolíubrúsa, smjör- og jógúrtílát, innan í morgunkornspakkningar og fleira.

Endurunnið í: Þvottaefnisbrúsa, olíubrúsa, penna, endurunnin ílát, gólfefni, skolprör, garðhúsgögn og fleira.

Þetta efni leysist ekki svo auðveldlega upp og smitast lítið í matvörur sem ílátin innihalda.

 

Plast nr 3 – V (Vinyl) eða PVC

Notað í: Rúðuhreinsi- og þvottaefnisflöskur, shampóbrúsa, jurtaolíubrúsa, glærar matvöruumbúðir, rafmagnskapla, sjúkrahúsílát og pípulagnir.

Endurunnið í: veggklæðningar,

PVC inniheldur klór þannig að ílát úr því geta leyst upp eiturefni í innihaldið. Forðastu að elda með plastáhöldum eða -ílátum sem innihalda PVC, en ef þú gerir það skaltu gæta þess að það brenni ekki því þá losna eiturefnin frekar úr plastinu.

 

Plast nr 4 – LDPE (óþétt polyethylene)

Notað í: Mjúkar plastflöskur, innkaupapoka, innkaupatöskur, fatnað, húsgögn, teppi.

Endurunnið í: Ruslatunnur og -fötur, póstburðarumslög, veggklæðningar, gólfefni og fleira.

Sum endurvinnslufyrirtæki hafa ekki verið að endurvinna þessa gerð plasts.

 

Plast nr 5 – PP (polypropylene)

Notað í: ýmiskonar matarumbúðir, sérstaklega flöskur og brúsa, tappa, sogrör, lyfjaílát.

Endurunnið í: sópa, bursta, rafhlöðuhulstur, tunnur, bakka, garðáhöld og fleira.

Polypropylene er með hátt bráðnunarmark og er oft notað í hluti sem hitna mikið.

 

Plast nr 6 – PS (polystyrene)

Notað í: einnota diska og bolla, kjötpakkningar, bakka, lyfjaumbúðir, geisladiskahulstur og fleira.

Endurunnið í: Einangrun, innstungur, reglustikur, frauðplast og fleira.

Margt bendir til þess að polystyrene smiti eiturefni út í mat en efnið er oft notað í vörur merktar vörumerkinu “Styrofoam”. Umhverfissinnar hafa löngum barist fyrir banni á notkun efnisins, þar sem erfitt er að endurvinna það.

 

Númer 7 – ýmsar tegundir plasts

Notað í: Stórum brúsum, mjög sterkum plastefnum, sólgleraugum, dvd-diskum, iPod, tölvutöskum, upplýsingaskiltum, matarílátum, nyloni.

Endurunnið í: plastklumpa, sérsmíðaðar plastvörur.

Margar plasttegundir sem ekki tilheyra ákveðnum flokki eru merktar nr. 7. Í þessum flokki er harða plastið sem oft er notað í matarstell fyrir börn, pela, drykkjarflöskur og fleira en það kallast bisphenol A. Þetta efni hefur valdið miklu fjaðrafoki þar sem rannsóknir hafa sýnt að plastið getur smitað frá sér efnum sem trufla hormónastarfsemi, sérstaklega kynhormóna.

 

Með þessar upplýsingar í farteskinu ættu allir að fara að flokka og ýta þar með undir að plastefnin fái nýtt hlutverk, í stað þess að verða urðuð í jörðu þar sem þau liggja um ókomna tíð.

Auk þess er hægt að velja úr misaðlaðandi plastefni og vara sig sérstaklega á að plast nr. 1, 3 og 7 komist í snertingu við mat, þar sem hætta er á að þau smiti eiturefnum út í matinn.

Sjá einnig: Bisphenol A – eiturefni í pelum og öðrum plastílátum, Plast í náttúrunni, Skaðleg efni í plasti.

 

Höfundur: Helga Björt Möller

Previous post

Búfé veldur hlýnun andrúmslofts

Next post

Jólapappírinn

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *