Vangaveltur um endurvinnslu
Við Íslendingar erum heppin hve vel er staðið að endurvinnslumöguleikum í sveitarfélögum landsins. Þar sem að ég hef framan af, verið íbúi í Reykjavík þekki ég best til þar og hef verið mjög ánægð, með þá möguleika sem þar eru í boði fyrir íbúa borgarinnar til losunar á endurnýtanlegum úrgangi heimilanna og nýtt mér þá vel.
Endurvinnslugámarnir sem að taka annars vegar við dagblöðum og tímaritum og hins vegar við mjólkurfernum, eru bæði víða og aðgengilegir. Því fer ekki mikill tími í að stoppa við einn slíkan og losa úr pokunum sem að safnað hefur verið í. Sem betur fer eru mjög margir sem að nota þessa gáma og minnka þannig umfang úrgangs heimilis síns um alla vega helming, sennilega þó meira.
Endurvinnslutunnan sem að Hildur talar um í pistli sínum “Endurvinnslutunnan”, frá Gámaþjónustunni hf., ætti að vera tilvalin fyrir þá sem ekki sjá sér fært, að fara að gámunum öðru hvoru. Nú er engin afsökun fyrir því að “nenna” ekki að vera að safna þessu og fara með í gámana. Bara að panta sér tunnu á http://www.gamar.is/. Inn á heimasíðu þeirra, hrósa þeir Hafnfirðingum fyrir bestu viðbrögðin við tunnunni. Ég vil nota tækifærið hér og óska líka Hafnfirðingum til hamingju, með von um að allir íbúar, allra sveitafélaga taki þá sér til fyrirmyndar og fái sér endurvinnslutunnu að sínu húsi, ef að þeir nota ekki gámana.
Svo eru það flöskurnar og dósirnar. Enn eru einhverjir sem að henda þeim í heimilisruslið. Við það eru þeir ekki bara að auka á úrgang síns heimilis, heldur eru þeir hreinlega að henda peningum. Skilagjald fyrir hverja flösku eða dós hjá Endurvinnslunni hf., er kannski ekkert mjög hátt, en safnast þegar saman kemur. Móttökustaðirnir eru víða um land og auðvelt er að finna hvar þeir eru, með því að fara inn á þeirra heimasíðu http://www.endurvinnslan.is/.
Það sem að kom mér til að skrifa þennan pistil er, að ég er nú búsett erlendis og hefur mér algjörlega blöskrað ruslið sem að ég sé á víð og dreif. Aðallega flöskur og dósir af öllum stærðum og gerðum sem að blasa við þegar að laufin falla af trjánum og meira sést af jörðinni sem slíkri. Ekki innheldur ruslið eingöngu flöskur og dósir heldur liggja heilu dekkjaumgangarnir, púströr, rafgeymar, jafnvel fatahrúgur og svo ég tali nú ekki um blaðadraslið. Mér finnst þetta mjög miður að sjá, þar sem að ég geng framhjá þessum skógarhluta nánast daglega. Því hef ég verið að spyrjast fyrir á meðal heimamanna um endurvinnslu hér í landi. Svarið er því miður – engin endurvinnsla er hér. Alla vega vita ekki þeir sem ég spyr, um að slíkt sé einhvers staðar í boði, en það hljóta jú að vera íbúarnir sem að ættu að vita um slíkt, ef á að nota.
Ég er því enn meira ánægð með endurvinnslumöguleika okkar á Íslandi. Það ættu allir, að vita hvar og hvernig, hægt er að nálgast þessa möguleika. Ekki værum við sátt við að keyra eða ganga framhjá ruslahrúgum í borginni okkar eða bæjum, þar sem að ætti að vera fallegur gróður. Við erum kröfuhörð um umhverfi okkar á Íslandi og ættum líka að vera það. En við þurfum ÖLL að taka þátt til að geta haldið þessum kröfum á lofti.
Verum stolt af möguleikum okkar til endurvinnslu á Íslandi og verum dugleg að nota alla möguleikana sem í boði eru, öll, alltaf!
Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum í nóvember 2006
No Comment