MataræðiÝmis ráð

Sleppum aldrei morgunmat

Er það bara gömul lumma eða er nauðsynlegt að borða morgunmat? Svarið er, að morgunmaturinn er svo sannarlega nauðsynlegasta máltíð dagsins!

Ef að við skoðum hvað orðið morgunmatur þýðir á ensku “breakfast”, þá sjáum við mjög eðlilega skýringu. Skiptum orðinu í tvennt “break” og “fast” og beinþýðum yfir á íslensku, “brjóta” og “fasta”. Yfir nóttina slakar líkaminn á meltingu og niðurbroti og efnaskipti líkamans fara í dvala, líkaminn fastar! Um leið og við vöknum og borðum morgunmat, brjótum við föstuna og vekjum upp efnaskiptin og meltingin byrjar að vinna aftur á sinn eðlilega hátt.

Þannig byrjar líkaminn strax að brenna hitaeiningum, því er alls ekki rétt að sleppa morgunmat, ef að einstaklingur vill grenna sig. Margar rannsóknir hafa sýnt að þeir sem að borða morgunmat, grennast mun frekar og halda frekar kjörþyngd, en þeir sem að sleppa morgunmatnum og borða þá oft mun meira í hádegismatnum. Þá er líka viðkomandi mjög svangur og borðar því hraðar, en sá sem gaf sér tíma í hollan og næringaríkan morgunmat. (Sjá einnig: Borðum hægt og minnkum mittismálið)

Ekki er það eingöngu við meltinguna sem líkaminn byrjar að vinna, þegar borðaður er morgunmatur. Heldur byrjar öll heilastarfsemin líka að vinna og einbeiting skerpist. Þeir sem að sleppa morgunmat eru mun lengur að byrja á sínum verkefnum þegar komið er til vinnu eða í skólann. Áhugaleysi og pirringur geta gert vart við sig, vegna þess að í raun er hluti líkamans enn í hvíld, hefur ekki verið ræstur upp á eðlilegan hátt.

Öll starfsemi hugar og líkama verður betri á allan hátt, byrjir þú daginn með hollum og góðum morgunmat. Veldu það að borða næringarríka máltíð sem fyrstu máltíð dagsins, þannig eru mun meiri líkur á að þú finnir ekki fyrir svengd fyrr en að hádegismat kemur. Einnig velur þú mun frekar hádegismat í hollari kantinum ef að þú hefur byrjað daginn á öðru en sætabrauði. Alltaf er líka gott að hafa meðferðis ávöxt, grænmeti eða hnetur til að grípa í ef að svengd segir til sín.

Sem foreldri skaltu ALDREI sleppa morgunmat þannig kennirðu þínum ungum að gera vel við sinn líkama. Hafa skal í huga að börnin læra það sem fyrir þeim er haft og því þurfa foreldrar að sýna gott fordæmi, þannig að börnin fari ekki að halda að morgunmatur skipti ekki jafn miklu máli og hann gerir. Bæði þakkar þinn líkami og hugur þetta fordæmi og ekki síður líkami og hugur barnsins þíns og allir eru betur í stakk búnir til að takast á við verkefni dagsins.

Njótum þess að fylla líkama okkar af næringu áður en haldið er út í daginn.

Previous post

Fæðutegundir ríkar af andoxunarefnum

Next post

Grænmeti

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *