Þáttur trefja í lífi án sjúkdóma
Öll vonumst við til að lifa lífinu hraust og án sjúkdóma og verkja. En hvað er það sem að við getum gert til að sleppa svo vel. Valdið er í þínum höndum. Þitt er valið, hvernig þú vilt lifa lífinu og meðhöndla líkama þinn.
Það að borða reglulega er mjög mikilvægur þáttur, eins að velja vel hvað það er sem að við setjum ofan í okkur. Að borða trefjaríkan mat er skynsamur kostur og hjálpa trefjarnar líkamanum mikið til við að halda sem bestri heilsu.
Fæstir borða nægar trefjar daglega og forðast jafnvel sumir að borða þær og hræðast uppþembu og gasmyndun ef þeir borða mikið af þeim. En kostirnir við að borða trefjarnar daglega ættu að yfirvinna alla slíka hræðslu.
Meltingarvandamál – óuppleysanlegar trefjar hjálpa meltingunni, bæta í fyrirferð hægðanna og hraða leið þeirra í gegnum þarmana. Þannig draga þær úr vandamálum vegna hægðatregðu og óþægindum sem að koma samhliða henni eins og uppþembu og magakvölum. Trefjarnar hjálpa einnig við að minnka líkur á Þarmatotubólgum. Það er ástand sem að lýsir sér þannig, að þarmatoturnar á ristilveggnum bólgna og geta því ekki sinnt sínu starfi, sem felst í því að sjúga næringu úr hægðamaukinu.
Séu nægar trefjar borðaðar daglega er hægt að koma í veg fyrir harðlífi, niðurgang, magaverki, uppþembu, slím og blóð í hægðum.
Krabbamein – rannsókn sem gerð var á vegum EPIC, sem að skoðaði tengsl á milli daglegrar inntöku af trefjum og tilfellum ristilkrabbameins hjá 519.978 einstaklingum frá 10 Evrópulöndum, gaf til kynna að með því að bæta trefjaneyslu hjá þeim þjóðum sem að meðaltali neyttu lítilla trefja daglega, dró verulega úr áhættunni á ristilkrabbameini eða um allt að 40%.
Sykursýki – uppleysanlegar trefjar hindra kolvetni í að hægja á meltingu og upptöku næringarefna. Þetta getur komið í veg fyrir blóðsykurssveiflur. Einnig kemur fram í nýlegri könnun frá “Harvard School of Public Health” að mataræði sem er lágt í trefjahlutfalli og hefur hátt hlutfall sykurs, meira en tvöfaldi áhættu kvenna á Sykursýki 2.
Hjartasjúkdómar – uppleysanlegar trefjar fara í gegnum meltingarveginn og bindast kólestróli og hjálpa líkamanum til að losa sig við það. Það leiðir til lægra kólestrólmagns í blóði og dregur úr að það setjist inná æðaveggina. Nýlegar niðurstöður tveggja langtíma rannsókna sýna að karlmenn sem að höfðu lengi borðað trefjaríka fæðu, þ.e. neyttu að meðaltali 35 gr daglega, voru í þriðjungs minni áhættu á að fá hjartaáfall, en þeir sem að höfðu lifað á trefjalítilli fæðu, þ.e. neyttu að meðaltali 15 gr daglega.
Offita – vegna þess að óuppleysanlegar trefjar eru ómeltanlegar og fara í gegnum meltingarveginn nánast heilar, innihalda þær einnig sama og engar hitaeiningar. Og vegna þess að meltingarfærin geta aðeins innihaldið visst magn af hægðum í einu, þá gefur það auga leið að trefjaríkt fæði fyllir betur uppí þau og því er líklegt að viðkomandi borði minna.
Að auka trefjahlutfall í daglegu mataræði getur því verið svar við mörgum af lífsstílskvillum nútímans. Aukum trefjarnar og lifum hraustari.
No Comment