Magaspik og hrörnun hugans
Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á, að þeir sem eru með mikla fitusöfnun á maganum eru talsvert líklegir til að þjást af sykursýki, hjartasjúkdómum og vitglöpum eins og Alzheimer, síðar á lífsleiðinni.
Fólk er misjafnlega vaxið. Sumir safna fitu á rass og læri, aðrir jafnt um líkamann og enn aðrir á magann. Síðastnefndi hópurinn er í áhættu á að þjást af ofangreindum sjúkdómum. Oft er talað um að þeir sem safna fitu fyrst og fremst á magann séu í laginu eins og epli en þeir sem safna fitu á rass og læri séu perulaga.
Þeir sem eru með mikla fitusöfnun á maganum eru komnir með feit innyfli. Það er einmitt það sem er hættulegt og þrátt fyrir að fólk sé innan kjörþyngdar, er fitusöfnun á maga áhættuþáttur. Fólk innan kjörþyngdar sem þó er með talsverða fitu á maga, reynist um 90% líklegra til að þjást af andlegri hrörnun síðar meir, en þeir sem eru innan kjörþyngdar og safna lítilli fitu á magann.
Fitufrumur eru virkir hlutar líkamans og þjóna margskonar hlutverkum. Þær framleiða hormón sem hafa áhrif um allan líkama, jafnvel á heilann. Séu fitufrumurnar óeðlilega margar er hætta á að áhrif þeirra fari úr jafnvægi og ýmsir sjúkdómar geri vart við sig.
Ein besta aðferðin til að losna við fitu á innyflum er að þjálfa líkamann og koma sér í form. Það lækkar insúlínstig blóðsins sem er ein aðalorsök innyflafitu. Eðlilegt er að þetta taki nokkra mánuði og allt upp í ár og mataræði skiptir að sjálfsögðu miklu máli.
Það er til mikils að vinna. Hvern dreymir ekki um að hafa magaummálið hóflegt og halda huganum skýrum fram eftir öllum aldri?
No Comment