Psoriasis
Psoriasis eru hrúður- eða hreisturblettir á líkamanum. Það er óalgengt að það komi fram fyrir 15 ára aldur og kemur jafnt hjá konum sem körlum. Húðin endurnýjar sig of hratt, þannig að hún þykknar og myndar hrúðursvæði sem fylgir roði og hiti. Um það bil 1 af hverjum 10 psoriasiseinstaklingum hafa sjúkdómseinkenni í liðum.
Oftast myndast psoriasis á olnbogum og hnjám. Blettirnir geta verið af öllum stærðum og geta haft í för með sér kláða. Yfirborð hrúðursins er hvítt eða silfurlitt og flagnar. Neglur geta þykknað og jafnvel losnað frá naglbeði. Algengt er að einkenni séu einnig í hársverði.
Sumir hafa einungis mjög smáa bletti, aðrir stóra, harða og silfraða bletti og enn aðrir hafa einnig litlar blöðrur sem seytla gulleitum vökva. Einkennin geta versnað við stress, hálsbólgur (streptacoccus) og við ýmsar lyfjameðferðir.
Skipta má psoriasis niður í ýmsa flokka:
- Palmar planta sem birtist yfirleitt einungis í lófum og á iljum.
- Fleka psoriasis sem birtist oft á stórum útvöldum svæðum.
- Dropa psoriasis sem birtist sem litlir blettir víðsvegar um líkamann.
- Oft á tíðum birtist psoriasis einungis í hársverði, í kringum eyru og í hárlínu. Algengt er í þeim tilfellum að 2-3 litlir blettir birtist einnig á olnboga eða hnjám.
- Psoriasis getur einnig sest að innvortis einkum á nýru.
- Psoriasis getur líka birtst undir nöglum. Það birtist þá á öllu því svæði sem nöglin liggur á, nöglin sjálf þykknar og oft endar þetta með því að nöglin spennist frá og afmyndast.
- Psoriasis getur líka sest að í liðum, og kallast þá psoriasisgigt.
Orsök psoriasis er ekki þekkt, en hinsvegar eru ýmsar getgátur þar um. Stundum hefur verið haldið fram að psoriasis sé afleiðing af ófullkominni eða gallaðri nýtingu á fitu og hefur þá verið bent á að psoriasis fyrirfinnst í mjög litlu mæli í löndum þar sem borðað er fitusnautt fæði!
Algengt er að psoriasis gangi í erfðir, það geta komið ættliðir sem eru einkennalausir en eru engu að síður psoriasis berar.
Rannsóknir benda mjög í þá átt að psoriasis sé sjálfsónæmissjúkdómur. Þegar horft er á psoriasis sést að það er 8 sinnum fleiri leitarfrumur en venjulega. Þessar leitarfrumur leita að framandleika og senda skilaboð til T-frumna sem eiga að melta þennan framandleika. Þessi galli veldur því að það verður afar ör húðfrumuskipting á ysta lagi húðar. Venjulega tekur um 28 daga fyrir frumu að þroskast, frá neðsta lagi húðar að ysta lagi, en hjá psoriasis fólki tekur þetta um 8 daga. Þegar horft er á psoriasis frá þessari hlið sést að frumur ráðast á sjálfa sig og uppfyllir þar með í raun eitt aðaleinkenni á sjálfsónæmissjúkdómi.
Út frá þessu er einnig ljóst að ónæmiskerfið hjá psoriasis fólki er ekki að vinna sem skyldi. Hluti af sjúkdómnum eru bólgur í ónæmisfrumum sem geta ekki starfað eðlilega. Það er algengt að fólk byrji að fá psoriasisbletti, eftir að ónæmiskerfið hefur verið bælt niður.
Oftast versnar psoriasis við tilfinningalegt álag, streitu og svefnleysi, sem bendir einnig til að ónæmiskerfið sé ekki nægilega sterkt til að kljást við álagið. Í sumum tilfellum getur psoriasis einnig versnað verulega ef um hormónaójafnvægi er að ræða, þetta er hinsvegar ekki algilt.
Fyrst og fremst þarf að styrkja ónæmiskerfið. Mikilvægt er að taka inn góðar fitusýrur og bæta mataræði. Taka ætti út allt hvítt hveiti, ger og sykur. Ljósaböð eru oft ráðlögð fyrir psoriasissjúklinga. Mælt er sérstaklega með böðum í Bláa Lóninu vegna þess að kísillinn í því er talinn hafa lækningamátt og sólböð eru talin góður kostur fyrir psoriasissjúklinga. Eins hefur hómópatía hjálpað mikið í mörgum tilfellum.
No Comment