Heilsa

Verndaðu tennurnar

Tennurnar eru eitt af því sem hefur mikil áhrif á útlit okkar og líðan. Heilbrigðar og fallegar tennur gera okkur aðlaðandi en illa hirtar og skemmdar tennur hafa þveröfug áhrif. Tannverkur og blæðandi tannhold valda hugarangri og vanlíðan. Það er því mikilvægt að hugsa vel um tennurnar og bursta þær vel og reglulega því þær þurfa að endast okkur ævina.

Gos eyðir glerungnum. Gosdrykkir og aðrir kolsýrðir drykkir hafa skaðleg áhrif á tennurnar því kolsýran eyðir upp glerungi tannanna. Þetta á ekki eingöngu við um sæta drykki. Þeir gosdrykkir sem fara verst með glerunginn eru með sítrus bragðefnum (appelsínu, sítrónu og lime) og að sjálfsögðu sykri. Hjálplegt er að bursta tennurnar eftir neyslu kolsýrðra drykkja.

Jógúrt fyrir tannholdið. Jógúrt, súrmjólk og ab-mjólk innihalda gerla sem gera okkur gott. Munnurinn hefur ákveðna gerlaflóru og neysla þessara mjólkurgerla getur komið henni í jafnvægi rétt eins og gerlaflóru magans. Þetta kann að vera einkar hjálplegt ef þú ert með viðkvæman tanngóm eða tannhold.

Fæða er misgóð fyrir tennurnar. Sé sykurríkrar fæðu neytt er snjallt að fá sér vatns- eða mjólkurglas á eftir ef ekki gefst tækifæri til að tannbursta sig. Matur sem gerir tönnunum ógagn er sykraður og oft klístraður.

Eftirtalið snarl er tönnunum óhollt: sælgæti, kökur, kex, gosdrykkir, sætir drykkir, sykrað hlaup, síróp, flögur og þurrkaðir ávextir (sérstaklega ef þeir límast við tennurnar).

Snarl sem er er hollt tönnununum: ferskir ávextir (síður þeir sem eru mjög sætir og innihalda sýru eins og appelsínur, perur og ananas), ferskt grænmeti, ostur, ósaltaðar hnetur, sykurlitlir ávaxtasafar, popp (ósaltað), harðsoðin egg og baunaídýfur.

Tyggjó stuðlar að hreinsun munnsins. Eftir að hafa borðað sæta eða súra fæðu fer munnvatnið að hreinsa og koma jafnvægi á efnaskiptin í munnholinu. Munnvatnið er einskonar munnskol sem líkaminn framleiðir. Ef ekki gefst kostur á að bursta eða skola munninn er kjörið að fá sér sykurlaust tyggigúmmí. Það eykur munnvatnsframleiðsluna og flýtir fyrir hreinsuninni. Xylitol í tyggjói flýtir fyrir jafnvægi í gerlaflóru munnsins.

Sjá einnig: Fosfórsýra í gosi

Previous post

Verkjalyf

Next post

Ýmsir húðkvillar

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *