Heimagerð páskaegg úr heimagerðu súkkulaði
Pistill frá Sollu
Senn líður að páskum. Þá verða dætur minar alltaf svo kátar, því þá búum við til okkar eigin páskaegg. Þetta er hefð sem byrjaði þegar unglingurinn minn uppgötvaði að páskaegg voru ekki bara máluð hænuegg….. Þetta kom nú til vegna þess að hún var með alls konar óþol t.d. fyrir mjólk og í þá daga var erfitt að fá mjólkurlaus páskaegg.
Ég tók því þá ákvörðun að vera ekkert að flagga páskaeggjum fyrstu árin hennar. Þetta tókst undarlega vel, við versluðum nær eingöngu í heilsubúðum á þessum árum og þar var ekki mikið um páskaegg. Þar að auki höfðum við þá hefð að leigja okkur sumarbústað um páskana og þar var heldur ekki mikið um páskaegg.
Í þá daga áttum við okkur mjög krúttlega hefð. Við “blésum” úr venjulegum hænueggjum og máluðum þau. Þessi egg notuðum við til að skreyta með páskagreinar sem byrjuðu að grænka á ótrúlega skömmum tíma. Við suðum líka hænuegg, kældum þau og máluðum skrautlega. Því næst fór ég út og faldi þau og dóttir mín gat varla beðið eftir að fara út að leyta að eggjunum. Fyrst var samt sögð sagan af páskahéranum, sú saga kom til okkar frá Waldorf leikskólanum sem hún var á. Hún sat graf kyrr, með opinn munninn og gleypti í sig hvert orð sem málaði myndir í litla kollinum hennar líkt og ævintýri gera gjarnan hjá litlum manneskjum.
Ég hafði varla sleppt síðasta orðinu í sögunni þegar lítil stúlka rauk af stað, setti húfuna öfuga á sig, fór í krummafót, greip litlu bastkörfuna og hljóp út í til að leyta að páskaeggjum. Sigri hrósandi kom hún síðan inn með fulla körfu af eggjum og þá biðu hennar nýbakaðar pönnukökur og heitt kakó. Þetta var páskahefðin okkar fyrstu árin hennar.
Eitt árið vorum við að versla í Hagkaup, mig minnir að það hafi verið að hausti til. Dóttir mín hefur verið svona 3ja ára. Allt í einu hrópaði hún hástöfum svo heyrðist yfir alla búðina: “Mamma, mamma, mamma, hér er allt fullt af páskaeggjum.” Mér fannst það soldið dularfullt þar sem hún var stödd í grænmetisdeildinni. “Þau eru rosalega lítil og skrýtin” sagði hún með soldið undrandi rödd. Þegar ég kom til hennar var hún að handfjatla sveppi. Þar sem við borðum hvorki sveppi né egg dags daglega þá átti þetta sér nú sínar skýringar……
En ég man alltaf eftir svipnum á miðaldra konu sem stóð mjög hissa með augu á stærð við undirskálar þegar ég sagði við dóttur mina: “Nei ástin mín, þetta eru ekki páskaegg heldur sveppir.” Dóttir mín var með einn svepp í hendinni, kreisti hann og sagði:” Hann er líka alltof mjúkur til að vera páskaegg.”
Þetta var í síðasta skiptið sem dóttir mín ruglaðist á sveppi og páskaeggi. Hún uppgötvaði hin raunverulegu egg næstu páska. En þá voru góð ráð dýr. Ekki var gert ráð fyrir því að fólk væri með mjólkurofnæmi í þá daga og ekki nein mjólkurlaus páskaegg að fá.
Þannig að maður varð bara að bjarga sér og þá fór ég að gera tilraunir. Sá einmitt form í versluninni Pipar og salt á Klapparstígnum sem ég keypti og fór heim og gerði tilraunir. Þær lukkuðust svona líka ljómandi vel. Ég keypti gott lifrænt mjólkurlaust súkkulaði sem ég bræddi yfir vatnsbaði og föndraði egg. Fyrir nokkrum árum fór ég með þessa páskaeggjagerð upp á nýtt “plan” þegar ég fór að búa til súkkulaðið sjálf…… Það gat ég gert þegar kaldpressaða kókosolían var farin að fást. Besti árangurinn næst ef maður blandar soldið af kakósmjöri saman við kaldpressuðu kókosolíuna því kakósmjörið þolir meiri hita.
Ég hvet ykkur til að vera dugleg og gera tilraunir, endilega leyfið börnunum ykkar að vera með, mínar dætur hreinlega elska að búa til páskaegg enn þann dag í dag.
Gangi ykkur sem allra best
Kær kveðja
Solla
Páskaegg
Uppskrift: 1 meðalstórt egg eða 2 minni
Formin fást í versluninni Pipar og Salt Klapparstíg og eru til í mismunandi stærðum.
Fyrst þarf að búa til eigið súkkulaði:
1 dl lífrænt kakóduft
½ dl kaldpressuð kókosolía
½ dl kakósmjör
½ dl agavesýróp
Setjið kakóduft + kókosolíu (fljótandi) + kakósmjör (fljótandi) + agavesýróp í skál og hrærið þessu saman þar til þetta er alveg kekklaust.
Gott að krydda með smá vanilludufti og/eða örlitlum cayenne pipar
– Til að kókosolían verði fljótandi:
látið renna heitt vatn á kókosolíukrukkuna eða setjið krukkuna í skál með um 50°C vatni
– Til að kakósmjörið (fæst í bökunarvöru heildsölum) verði fljótandi:
setjið það í skál og inn í örbylgju eða bræðið yfir vatnsbaði
– Ef þið fáið ekki kakósmjör getið þið notað 85% súkkulaði (t.d. frá Gepa sem fæst í Maður Lifandi), bræða yfir vatnsbaði og nota með kókosolíunni.
– Ef þið nennið ekki að búa til eigið súkkulaði þá veljið þið bara eitthvað flott súkkulaði sem þið bræðið yfir vatnsbaði og notið.
Takið páskaeggjaform og látið nokkar skeiðar af súkkulaðinu í formið, hallið forminu fram og tilbaka þannig að súkkulaðið renni um formið og þeki það. Setjið bökunarpappír á plötu og snúið formunum á hvolf á plötuna og látið súkkulaðið storkna. Þið farið eins að með fótinn. Þetta tekur um 5 mín, en þið getið flýtt fyrir með því að setja formin inn í frysti/kæli endurtakið a.m.k. 1 sinni – fer allt eftir því hve vel ykkur tekst til að þekja formin og hve þykk súkkulaði skelin er orðin.
Þegar skeljarnar eru tilbúnar þá er um að gera að setja málshátt og fleira spennandi inn í eggið. Egginu er lokað með því að nota fljótandi súkkulaði sem lím, því er smurt á kantinn á annarri skelinni og síðan er eggið “límt” saman. Þar næst setjið þið smá “súkkulaðilím” á fótinn og límið eggið á hann. Til að laga kantana setjið þið súkkulaði í sprautupoka og sprautið því allan hringinn. Svo má skreyta með sælgæti eða palíettum og öllu þar á milli. Að lokum er unginn festur á og eggið er tilbúið.
No Comment