Greinar um hreyfinguHreyfing

Að setja sér “rétt” markmið

Framhald greinarinnar: Mikilvægi markmiða þegar kemur að ástundun líkamsræktar

Í fyrri greininni var talað um hversu mikilvægt væri að setja sér markmið þegar við stundum líkamsrækt og hvernig við förum að því. Hér er ætlunin að skoða hvernig við setjum okkur markmið sem virka fyrir okkur.

Það eru nokkur atriði sem er nauðsynlegt að hafa í huga áður en þú sest niður og byrjar að setja þér markmið. Þetta eru atriði sem við þurfum flest að glíma við og geta hjálpað okkur að vera raunsærri og nákvæmari varðandi markmið okkar.

 

Hvað mun hvetja mig til að stunda líkamsrækt?

Hvatning er ekki bara spurning um viljastyrk, því viljastyrkur fylgir skammtímaáætluninni, (,,ég ætla ekki að reykja þessa sígarettu”…. ,,Ég ætla ekki að borða þetta súkkulaði”… ,,Ég ætla í göngutúr núna”) Hvatning er langtímaaðferð til að öðlast eitthvað sem hugurinn girnist. Viljastyrknum getum við kveikt og slökkt á eins og ljósrofa en raunveruleg og sönn hvatning er eilífur logi sem aldrei deyr.

Áður en þú byrjar á ferð þinni að heilsusamlegra líferni þá verður þú fyrst að ákveða hver þín persónulega hvatning er.

Það þarf kjark til að líta í eiginn barm og spyrja sjálfan sig hver getur verið sú sterka hvatning sem hjálpar þér að framkvæma erfiðar breytingar, til að öðlast betra líf. Þú munt sennilega upplifa einhverja vanlíðan, því það eru jú oftast veikleikar okkar sem við horfumst í augu við, en þú verður að taka á þessu með jákvæðu hugarfari. Þessi innri hvatning mun koma djúpt innan frá undirmeðvitund þinni og styðja þig í gegnum erfiðu stundirnar.

 

Ekki nota yfirborðskenndar ástæður.

Eins og ,,ég vil léttast” eða ,,ég vil vera unglegri”. Með þvi að leita dýpra áttarðu þig e.t.v á að svarið er frekar að þú vilt ekki fá hjartasjúkdóm um aldur fram, ekki sykursýki, of háan blóðþrysting eða æðasjúkdóma. Kannski er þetta spurning um sjálfstraust eða vanlíðan í þínum eigin líkama.

Hver svo sem ástæðan er verður hún að vekja svo sterkar tilfinningar hjá þér að allt daglegt amstur og óvæntar uppákomur, koma ekki í veg fyrir áætlanir þínar um bætta heilsu.
Til að ná toppárangri er nauðsynlegt að setja sér raunhæf markmið, bæði til langs tíma og styttri markmiði sem koma þér að lokum að langtímamarkmiði þínu. Þessi markmið skaltu skrifa niður, en passaðu þig á því að vera með markmið sem standast og er mögulegt að ná.

Ekki ætla þér að missa 20 kíló á tveimur mánuðum eða hætta að borða nammi fyrir lífstíð. Þetta eru óraunhæf markmið sem munu að öllum líkindum enda með að þú verður mjög vonsvikin(n) og enn verr sett(ur) líkamlega og andlega en áður en þú hófst átakið.

 

Þú verður að horfast í augu við sannleikann.

Vænlegt er að takast á við utanaðkomandi áhrif sem geta komið í veg fyrir að þú getir bætt heilsu þína. Þau geta verið börnin/makinn eða vinirnir sem koma í veg fyrir að þú komist á æfingu, borða nammi eða sætabrauð fyrir framan þig og láta þig finna fyrir sektarkennd þegar þú getur ekki varið tíma með þeim o.s.frv.

Já, þú verður að vera örlítið sjálfselsk(ur), en til lengri tíma litið munu allir hagnast á þessari sjálfselsku þinni því það er engum til gagns ef heilsu þinni hrakar stöðugt og lífsgæði þín minnka? Að láta eftir sér einstaka sinnum að borða fituríkan mat eða taka 20 mínútna æfingu í stað 30 mínútna er í góðu lagi, en þú verður að setja þér reglur og forgangsröð sem skilar þér í átt að markmiðum þínum með sem minnstum skakkaföllum.

Í raun mælum við með því að fólk taki sér einstaka ,,nammidag” á milli því lífið er til þess að njóta þess og við vorum ekki sett á þessa jörð til að lifa eingöngu á rískökum og gulrótum.

Ert þú virkilega tilbúin(n)? Já, værirðu nokkuð að lesa þetta annars?

Rétti tíminn til að taka skrefið í átt að heilbrigðara líferni, er NÚNA. Að bregðast strax við og gera eitthvað í þínum málum er það sem þú átt að gera núna. Frestaðu því ekki að láta þér líða betur en þér hefur nokkurn tíma liðið áður. Það gerist ekkert að sjálfu sér, gríptu tækifærið þegar þú finnur að þú ert virkilega tilbúin(n), því á morgun gæti þér fundist það vera of seint og þú byrjar að bíða eftir næsta ,,fullkomna augnabliki” til að gera eitthvað. Byrjaðu núna!

Höfundur: Kristján Jónsson – Þjálfun.is

Previous post

Mikilvægi markmiða þegar kemur að ástundun líkamsræktar

Next post

Hugurinn ber þig hálfa leið þegar kemur að áhrifum æfinganna

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *