Að tala frammi fyrir hópi fólks
Mörgum finnst algjör pína að standa upp og tala fyrir framan hóp fólks. Þeir leggja sig í líma við að komast hjá slíkri aðstöðu, bjóða sig ekki fram til að vinna að málefnum, taka þátt í nefndum, segja ekki álit sitt eða annað vegna hættu á að þurfa að tala opinberlega.
Svo eru einstaklingar sem finnst hreinlega ekkert mál að tala frammi fyrir öðrum. Reynslan gerir fólk öruggara á slíkum vettvangi og víst er að æfingin hjálpar mikið til.
Þeir eru þó fleiri sem tilheyra hinum hópnum, kvíða því að opna sig fyrir framan áhorfendur, hafa allra augu á sér og mögulega sæta gagnrýni.
Hér koma nokkur ráð til þeirra sem tilheyra þessum fjölmenna hópi og vonandi gera þau tilhugsunina um að standa upp og tala opinberlega aðeins bærilegri.
- Áhorfendur taka ekki eftir því hvað þú ert stressuð/stressaður. Hugsaðu um kvíðann sem þitt eigið leyndarmál og oftast verður það þannig.
- Æfðu þig. Leggðu á minnið hvað þú vilt segja, farðu vel í gegnum efnið og stattu klár á grunnatriðum máls þíns. Það hjálpar svo sannarlega til og gerir þig miklu öruggari.
- Búðu þig undir að mistakast aðeins. Þegar þú gerir þér grein fyrir að það er allt í lagi að mismæla sig, stama eða gleyma einhverju, þá setur það þig síður út af laginu ef það kemur upp.
- Gleymdu ekki húmornum. Það gerir kraftaverk að koma með smá grín ef við á. Þú verður afslappaðri og áhorfendur líka.
- Mundu eftir þögnunum. Áhorfendur þurfa að fá þagnir á milli setninga og þrátt fyrir að þú upplifir þögnina langa gera þeir það ekki. Þú verður rólegri og yfirvegaðri ef þú manst að hafa þagnir í máli þínu, þú virkar líka öruggari.
- Ekki fela þig bakvið glærur eða Powerpoint sýningu. Mundu að þetta eru eingöngu hjálpargögn sem eiga að undirstrika orð þín. Ef þú horfir bara á glærur og lest eingöngu upp af þeim, ertu búin/n að missa sambandið við áhorfendur. Hafðu frekar minna á glærunum og vertu ákveðin/n í hvað þú segir við hverja þeirra.
- Ef þú ert rög/ragur við að tala frammi fyrir hópi folks, þá er um að gera að byrja í smáum skömmtum, t.d. að spyrja spurninga á fyrirlestrum eða eitthvað slíkt. Notaðu tækifærið þegar við á og prófaðu. Það verður auðveldara og auðveldara með hverju skiptinu.
Höfundur: Helga Björt Möller
No Comment