FæðubótarefniMataræði

Áhrif trefja á brjóstakrabbamein

Trefjaríkt fæði getur minnkað líkur á brjóstakrabbameini hjá ungum konum, um allt að helming. Þetta kemur fram í nýjum rannsóknum frá Háskólanum í Leeds.

Áður gerðar rannsóknir um trefjar og líkur á brjóstakrabbameini hafa ekki sýnt þessar sömu niðurstöður, en ekki hefur heldur verið gerður greinarmunur á áhættu fyrir og eftir breytingaskeið, eins og gert var í þessum rannsóknum. Munurinn var varla greinanlegur hjá konum eftir breytingaskeið, en aftur á móti var þessi munur mjög skýr hjá yngri konum.

Telja rannsakendur að um þrjár meginástæður sé að ræða fyrir þessum áhrifum trefjanna. Í fyrsta lagi hafi trefjarnar hemjandi áhrif á insúlínframleiðslu líkamans. Hátt insúlínmagn hefur sýnt fram á, að meiri líkur séu á krabbameini. Í öðru lagi að trefjaríkur matur er í flestum tilfellum auðugur af nauðsynlegum næringarefnum, auk andoxunarefna. Og í þriðja lagi, sem jafnframt gæti verið mikilvægasti þátturinn, trefjaríkt fæði dregur úr estrogenmagni líkamans, sem að hefur sýnt sig sem einn stærsti áhættuþátturinn þegar kemur að brjóstakrabbameini. Ungar konur hafa mun hærra magn estrogens í líkama sínum, en konur hafa eftir að breytingaskeiði lýkur.

Samkvæmt þessum rannsóknum, sem að birtust í International Journal of Epidemiology, ættu konur að borða a.m.k. 30 grömm af trefjum daglega til að draga úr áhættu á brjóstakrabbameini. Þetta eru 5 grömmum meira, en áður hefur verið talið ráðlagt magn í 2000 hitaeininga dagskammti.

Talið er að 1 af hverjum 11 konum þurfi að glíma við brjóstakrabbamein á einhverju stigi lífsævi sinnar og dánarhlutfall er hátt, kemur næst á eftir lungnakrabbameini.

Previous post

Áhrif rafsviðs í svefnherberginu

Next post

Aloe Vera gel