Átraskanir
Í könnun síðustu viku hér á vefnum var spurt um hvort viðkomandi þekkti einhvern sem strítt hafði við átröskun. Yfir 60% svarenda svöruðu já við þessari spurningu.
Átröskun er alvarlegur sjúkdómur sem allt of oft er ekki meðhöndlaður eða meðhöndlaður allt of seint. Staðreyndin er sú að í Bandaríkjunum deyja fleiri af völdum Lystarstols (Anorexiu) og Lotugræðgi (Bulimiu) heldur en úr nokkrum öðrum geðsjúkdómum þar í landi.
Átraskanir geta verið margvíslegar og heyra undir þær sjúkdómar þar sem sjúklingurinn er með óeðlileg tengsl við mat og líkamsímynd. Undir átraskanir flokkast lystarstol, lotugræðgi, ofát (Binge eating) og vöðvaröskun (Bigorexia).
Þeir sem þjást af lystarstoli svelta sig og upplifa sig stöðugt of feita þrátt fyrir að vera jafnvel langt undir kjörþyngd. Sjúklingar með lotugræðgi eru á sama hátt sífellt óánægðir með líkamsvöxt sinn og nota uppköst til að vinna gegn því að fitna. Ofát felur í sér að sjúklingur borðar umfram þörf, borðar oft, of stóra skammta og borðar áfram þrátt fyrir að líkaminn sé mettur. Og að lokum er sjúkdómurinn vöðvaröskun sem er vaxandi vandamál. Hann er í raun andstaða lystarstols þar sem sjúklingarnir upplifa sig í raun minni en þeir eru. Þeir sjá sig sem litla og aumingjalega þrátt fyrir að vera með ofsprengda vöðvauppbyggingu og eru jafnvel keppendur í vaxtarækt.
Ástæður átraskana eru margvíslegar en oftast er um að ræða undirliggjandi, tilfinningalega vanlíðan sem sjúklingarnir reyna að hafa áhrif á með atferli sem snýr að mat. Einnig grípa margir til notkunar lyfja ýmis konar, eins og til dæmis hægðarlyfja og steranotkunar.
Ég bendi á grein um átraskanir á Doktor.is eftir Ólaf Bjarnason, geðlækni.
Í nýlegri bandarískri könnun kom fram að meira en helmingur bandarískra unglingsstúlkna og um þriðjungur bandarískra unglingsdrengja notuðust við óheilbrigða hegðun til að hafa áhrif á líkamsþyngd sína. Hér eru tíu atriði sem geta bent til að unglingar eigi í vanda varðandi líkamsímynd og mögulega átröskun:
- Óeðlilega mikið þyngdartap
- Upptekin af hitaeiningafjölda
- Fara oft á vigtina
- Með líkamsþjálfun á heilanum
- Ofát og/eða uppköst eftir máltíð
- Ákveðnar venjur í kringum matmálstíma, taka litla bita, borða ekki ákveðnar fæðutegundir, hræra í matnum og endurraða honum á diskinum
- Borða helst í einrúmi eða forðast máltíðir með öllu
- Nota hægðarlyf, vatnslosandi lyf og/eða megrunarlyf
- Nota reykingar til að draga úr matarlyst
- Tíðrætt um hvað þau eru feit þrátt fyrir að vera að léttast