Aukning í grænmeti og ávöxtum, sykurinn minnkar
Lýðheilsustöð hefur birt tölur yfir fæðuframboð á Íslandi fyrir síðasta ár. Þessar tölur gefa vissar vísbendingar um neyslumynstur þjóðarinnar, þó þær segi ekki beint til um neysluna sjálfa.
Tölurnar eru reiknaðar í kílóum á hvern íbúa á ári. Þær eru fundnar með því að leggja saman alla framleiðslu og innflutning á matvöru og draga frá útflutning og önnur not á fæðunni, t.d. það sem fer í dýrafóður. Það þarf að hafa í huga að ekki er til dæmis reiknað inn það magn sem við fleygjum en það er áætlað að hver Íslendingur fleygi allt að 82 kílóum af mat á ári.
Það gleðilega í þessum tölum er að neysla á grænmeti og ávöxtum virðist vera að aukast, á sama tíma og magn sykurs minnkar.
Ferskir ávextir aukast um rúm 4 kíló á hvern íbúa og má að stórum hluta rekja þessa aukningu til meiri neyslu á ávaxtasöfum.
Nokkur aukning er í fersku grænmeti eða sem nemur 3 kílóum á hvern íbúa. En þrátt fyrir þessa aukningu eigum við langt í land með að ná markmiðum lýðheilsustöðvar um 5 skammta eða 500 grömm á dag, af grænmeti og ávöxtum.
Sykurinn minnkar um tæp 5 kíló á íbúa milli ára. Þeir tala þó um að það sé full fljótt að hrósa happi því sykur hafi langt geymsluþol og getur því birgðastaða í landinu um áramót, haft talsvert að segja. Sykurmagnið hefur verið nokkuð stöðugt í mörg ár eða í kringum 50 kíló, en það þýðir að meðaltali tæp 140 grömm af hreinum sykri á dag á hverja manneskju.
Sykurneysla hér á landi er mjög mikil í samanburði við nágrannalönd okkar og eiga gosdrykkir drjúgan þátt í þessu mikla magni. Framboðið af gosdrykkjum árið 2005 var 150 lítrar á hvern íbúa. Það er ískyggileg tala, sérstaklega í ljósi þess að það er stór hópur fólks sem drekkur alls ekkert gos.
Magn sælgætis hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og var sælgætismagnið á árinu 2005, 19 kíló á hvern íbúa. Ímyndið ykkur 19 lítra af mjólk stöfluðum upp og sjáið bara fyrir ykkur magnið.
Magn fitu stendur í stað á milli ára en þó er hörð fita enn allt of stór hluti þeirrar fitu sem við notum.
Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir – birtist fyrst á vefnum 11. október 2007
No Comment