JurtirMataræði

Bláber

Það er fátt sem ég veit skemmtilegra, síðsumars, en að sitja úti í guðsgrænni náttúrunni og tína bláber. Þessi iðja nærir mig á sál og líkama.

Hreyfingin og útiveran fyllir mann orku og ég veit varla um betri hugleiðsluaðferð. Hugurinn á mér verður algjörlega kyrr og tómur við tínsluna og ég öðlast djúpa og endurnærandi sálarró.

Og aðalbónusinn er svo hversu meinholl bláberin eru. Bláber eru full af andoxunarefnum sem vinna á móti hrörnun líkamans og einnig hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að bláber geta fyrirbyggt ristilkrabbamein. Bláber eru líka holl hjartanu þar sem þau vinna á slæma kólesterólinu og þau gagnast einnig við þvagfærasýkingum.

Bláberin eru holl meltingunni þar sem þau bæði verka á niðurgang og harðlífi. Þau minnka einnig bólgur í meltingarvegi og vinna gegn bakteríusýkingum.

Bláberin innihalda meira af andoxunarefnum, þeim mun dekkri sem þau eru og ættu því aðalbláberin að vera enn hollari en þau venjulegu. Aðalbláber er helst að finna þar sem snjóþungt er yfir veturinn og eru þau algengust á Norðurlandi.

Best eru auðvitað berin fersk, en þau geymast líka vel fryst. Gott er að lausfrysta þau fyrst, þannig að þau klessist ekki saman. Best er að dreifa þeim á bökunarplötu sem sett er í frystinn og svo þegar berin eru frosin er þeim pakkað í frystipoka eða önnur ílát.

Upplagt er að nota frosnu berin yfir veturinn, útí jógúrt eða í bakstur. Einnig er um að gera að sulta úr frosnum berjum. Ég er steinhætt að sulta fyrir allan veturinn eins og maður gerði áður fyrr, sérstaklega eftir að ég hætti að nota rotvarnarefni. Nú sulta ég bara í tvö til þrjú glös í einu til að eiga alltaf nýlagaða sultu í ísskápnum.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Sjá einnig: Andoxunarefni; Bláber eru góð fyrir ristilinn; Frábær morgunmatur

 

 

Previous post

Góð leið til að geyma kryddjurtir

Next post

Kanill

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *