BlómadroparáðgjöfMeðferðir

Blómadropar

Blómadropar – grein unnin upp úr viðtali við Írisi Sigurðardóttur sem birtist í Nýju lífi, árið 1999. Viðtalið tók Jónína Leósdóttir.

Ertu undir miklu álagi þessa dagana? Ertu kvíðin(n), döpur(dapur), áhyggjufull(ur), útbrunnin(n) eða í uppnámi? Þá gætu blómadropar kannski komið ró á tilfinningalíf þitt og gert þér auðveldara að takast á við vandann sem að baki liggur.

Tilurð dropanna

Segja má að breskur læknir, dr. Edward Bach (1886 – 1936) hafi ,,fundið upp” blómadropana. Hann studdist hins vegar við margra alda gömul fræði og vinnsluaðferðir sem meðal annars má sjá á teikningum frá 15. öld. Menn höfðu lengi talið að daggadropar blóma innihéldu kraft úr jurtunum – ekki síst ef sólin hefði vermt döggina í dögun. Bach safnaði þó ekki daggardropum í glös heldur tíndi blóm, lagði þau í bleyti í tæru vatni og lét ílátin standa úti í sólskini í u.þ.b. þrjár klukkustundir. Hann þróaði 38 tegundir af ,,blómakrafti” sem hann blandaði út í vínanda svo hann yrði geymsluhæfur. Kenning læknisins var sú að blómadroparnir kæmu jafnvægi á tilfinningalífið. Hann taldi að flesta sjúkdóma mætti rekja til andlegs ójafnvægis og vildi ráðast að rótum vandans. Þótt droparnir virki á tilfinningalega líðan okkar er inntaka þeirra þannig í raun og veru forvarnaraðgerð gegn líkamlegum veikindum. Til eru margar bækur með lýsingum á því hvaða dropa sé best að nota við hvaða líðan. Grunntegundirnar 38 eru enn í góðu gildi en einnig hafa ótal nýjar tegundir verið settar á markað eftir lát dr. Bachs.

Við hverju gagnast blómadropar

Enginn kemst í gegnum lífið án þess að þurfa einhvern tíma að glíma við erfiðar tilfinningar. Fyrr eða síðar stöndum við frammi fyrir aðstæðum sem setja okkur úr jafnvægi – ástvinamissi, skilnaði, ástarsorg, veikindum, prófskrekk, atvinnuleysi, strembnu námi, búferlaflutningum, fjárhagskröggum eða öðru sem kemur róti á tilfinningalífið. Við slíkar aðstæður er gott að eiga trausta fjölskyldu og trygga vini. Svo getum við líka leitað til fagfólks ef okkur gengur illa að ná okkur á strik aftur – bæði til lækna og sálfræðinga. Fólk hefur einnig notað blómadropa til að ,,jafnvægisstilla” tilfinningarnar og auka andlegan styrk sinn. Þetta gerir fólk í fyrsta lagi til að losna við vanlíðan sína hér og nú og í öðru lagi til að koma í veg fyrir að tilfinningalega álagið leiði til líkamlegra sjúkdóma.

Blómadropar (,,flower essences” eða ,,flower remedies” á ensku) eru seldir í ýmsum heilsubúðum og lyfjaverslunum. Vert er að leggja á það áherslu að blómadroparnir lækna ekki líkamlega sjúkdóma heldur virka þeir á svokallaðan orkuhjúp líkamans. Krafturinn úr dropunum er hins vegar talinn geta fyrirbyggt sjúkdóma sem rekja má til tilfinningalegs álags og langvarandi spennuástands. Með því að bæta andlegt ástand fólks er sem sagt verið að koma í veg fyrir að vanlíðanin skaði líkama þess.

Blómadroparáðgjafar útbúa mismunandi blöndur fyrir hvern og einn einstakling, allt eftir því hvað viðkomandi er að takast á við. Ef við tökum dæmi af einstaklingi sem þjáist af ótta, þá þarf að finna út hvað viðkomandi óttast. Sumir eru kannski lofthræddir eða hræddir við kóngulær en aðrir geta verið haldnir almennum kvíða sem ekki tengist sérstökum aðstæðum. Mismunandi blómadropar eru gefnir við hverju tilfelli. Að sama skapi eru til dropar sem virka vel á depurð á ýmsum stigum og einnig er hægt að hjálpa fólki að vinna bug á neikvæðni, eilífum áhyggjum af öðrum, prófskrekk og svona má lengi telja.

Til er sérstök blanda sem kallast ,,rescue remedy” eða bráðaremedía (þýð.höf.) sem mörgum finnst gott að grípa til ef þeir verða fyrir einhverskonar áfalli. Þessi blanda er frábær sem skyndihjálp þegar áfall hefur dunið yfir. Það skiptir ekki máli af hvaða toga áfallið er. Það er m.a.s. hægt að fá dropa til að vinna úr margra ára gömlum áföllum. Blómadropar geta einnig hjálpað börnum. Oft gengur sérstaklega vel að vinna með börn og blómadropa þar sem börnin eru ekki komin með jafnmiklar varnir og þeir fullorðnu. Árangurinn kemur þess vegna oft fyrr í ljós.

Notkun blómadropa

Frumkvöðullinn, dr. Edward Bach, ætlaðist til þess að fólk blandaði dropunum út í vatn og dreypti á blöndunni af og til. Þessi aðferð er í fullu gildi enn í dag en blómadroparnir gera ekki síður gagn ef þeir eru bornir á húðina. Nuddarar hafa notað blómadropa í sinni meðferð með góðum árangri. Einnig hafa droparnir verið notaðir á nálastungu- eða þrýstinuddspunkta og hefur það reynst mjög vel. Algengt er að blómadropar séu notaðir samhliða annarri meðferð.Íris Sigurðardóttir er starfandi blómadroparáðgjafi.

Previous post

FES blómadropar

Next post

Ilmkjarnaolíur

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *