Buteyko aðferð við astma
Buteyko aðferðin er viðurkennd aðferð til lækningar á astma. Aðferðin byggir að miklu leyti á því að stjórna öndun.
Áhrif Buteyko-aðferðarinnar á astmaeinkenni eru fljótvirk og áþreifanleg. Hún hjálpar fólki að anda smám saman minna og að hreyfa sig í samræmi við andardráttinn.
Allir sem eru 3ja ára eða eldri geta lært aðferðina.
Fólk er frætt um mikilvægi réttrar öndunar og líkamsbeytingar. Kynntar eru ástæður stíflaðs nefs, andþrengsla, hósta og hóstakasta, næturastma, áreynsluastma og hvernig má minnka eða losna við þessi einkenni.
Viðurkennd aðferð til lækningar á astma
Í nútímaþjóðfélögum er astmi víðtækt og vaxandi vandamál. Úkraínski læknirinn, prófessor Pavlovich Buteyko vann að umfangsmiklum lífefnafræðirannsóknum á 40 ára tímabili í Novosibirsk, Síberíu. Hann þróaði aðferð til að vinna meðal annars gegn astma með mjög góðum árangri.
Í Rússlandi voru þessar kenningar viðurkenndar árið 1985. Í Ástralíu, Nýja Sjálandi, Bretlandi, Hollandi, Úkraínu, Ísrael og Ameríku er Buteyko aðferðin notuð með mjög góðum árangri. Breska heilbrigðiskerfið hyggst birta kenningar Buteykos í viðmiðunarreglum sem gefnar eru út um meðferð fyrir astmasjúklinga (British guideline on the management of asthma).
Ástæðan fyrir hinni miklu útbreiðslu kenninga Buteykos er einkum góð reynsla meðferðaraðila af þeim. Niðurstöður vísindarannsókna sem birtar hafa verið í vestrænum ritrýndum fagtímaritum benda einnig til að notkun aðferðarinnar minnki verulega þörf astmasjúklinga bæði fyrir berkjuvíkkandi lyf og steralyf.
Aðferð Buteykos kemur mörgum spánskt fyrir sjónir í fyrstu en hún byggir að miklu leyti á því að hægja á önduninni, að djúp öndun geti verið skaðleg.
Margir telja að best sé að anda djúpt til þess að sjá líkamanum fyrir nægu súrefni. En er þetta rétt?
Vitað er að kæfisvefn veldur mikilli líkamlegri vanlíðan og getur haft veikindi í för með sér. En það getur oföndun (hyperventilation) einnig gert.
Andardrátturinn er mjög næmur fyrir áreiti. Við getum einungis verið án þess að anda í 2-3 mínútur. Til samanburðar getum við verið án þess að drekka í 3 daga og án þess að borða í 3 vikur! Öndun er því mjög viðkvæm efnaskipti milli frumna og umhverfis og hefur það hlutverk í heild sinni að viðhalda eðlilegu magni af súrefni (sem andað er að sér) og koltvíoxíði (sem andað er frá sér) í líkamanum.
Koltvíoxíð myndast í frumunum við brennslu á súrefni og næringarefnum. Til að öndunarferlið fari óhindrað fram þarf að vera ákveðið magn af koltvíoxíði í líkamanum, vegna þess að koltvíoxíð er hvati fyrir losun súrefnis úr blóðinu til frumnanna. (Bohr-áhrifin).
Skortur á koltvíoxíði veldur því að súrefnið kemst verr til frumnanna. Það virðist öfugsnúið en því dýpra sem við öndum, því verr nýtist súrefnið sem innbyrt er. Heilinn upplifir súrefnisskort og gerir boð um meiri öndun. Ferlið viðheldur sjálfu sér og vítahringur myndast.
Koltvíoxíðskorturinn kemur til vegna of mikillar, djúprar (út)öndunar og veldur röskun á efnaskiptum og starfsemi ónæmiskerfisins. Til að vinna á móti þessari röskun gerir líkaminn ráðstafanir: Hann tryggir sér nægt koltvíoxíð með því að loka fyrir útgönguleiðir þess. Buteyko telur að astmi sé mjög áþreifanlegt dæmi um slík verndarviðbrögð og því ekkert annað en eðlileg viðbrögð líkamans við óæskilegum aðstæðum, of djúpri öndun.
Þegar dregið er úr önduninni og hún gerð “eðlileg”, minnka neikvæðu áhrifin og sjúkdómseinkenni hverfa. Prófessor Buteyko hefur eftir ítarlegar rannsóknir þróað mælikvarða á eðlilega öndun, svokallaða”control pause” (CP) aðferð. Með CP mælingu má meta styrk koltvíoxíðs í lungnaberkjum.CP er sá tími sem einstaklingur getur haldið niðri í sér andanum án óþæginda.
Hægt er að mæla öndun sitjandi með lokaðan munn. Andað er létt frá sér, síðan hætt að anda og tíminn mældur. Við fyrstu tilfinningu um loftskort, er andað aftur og tíminn skráður. Ef ekki þarf að anda djúpt eftir mælinguna er hún rétt framkvæmd. Ef CP er 60 sekúndur telst öndunin “eðlileg” og öndunarefnaskiptin óhindruð. Ef mælingin sýnir að CP sé 20 sekúndur er andað þrisvar sinnum meira lofti en “eðlilegt” er.
Áhrif Buteyko-aðferðarinnar á astmaeinkenni eru fljótvirk og áþreifanleg. Hún hjálpar fólki að anda smám saman minna og að hreyfa sig í samræmi við andardráttinn. Allir sem eru 3ja ára eða eldri og hafa góða geðheilsu geta lært aðferðina. Fólk er frætt um mikilvægi þess að anda í gegnum nefið, að vera beint í baki. Kynntar eru ástæður stíflaðs nefs, andþrengsla, hósta og hóstakasta, næturastma, áreynsluastma og hvernig má minnka eða losna við þessi einkenni.
Aðferðin útilokar ekki notkun lyfja, en nýlegar rannsóknir (amerískar, enskar, ástralskar og rússneskar) sýna að um 90% astmasjúklinga geta hætt notkun berkjuvíkkandi lyfja eftir að hafa stundað Buteyko-aðferðina í 6 mánuði með eftirfylgni í 2 ár. Enn fremur geta um 50% sjúklinganna hætt notkun innöndunarstera.
Aðferðin er því ekki einungis gagnleg fyrir sjúklingana sjálfa heldur er hún einnig hagkvæm fyrir þjóðfélagið. Í íslenska heilbrigðiskerfinu eru astmi og aðrir öndunartengdir sjúkdómar meðhöndlaðir á þveröfugan hátt við það sem Buteyko hefur sýnt fram á að virki. Menn hafa ekki áttað sig á tengslunum milli djúprar öndunar og versnandi heilsu.
Sjálf var ég illa haldin af astma og hafði ofnæmi fyrir köttum og heyi en nú er ég laus við astmann og ofnæmið auk allra þeirra lyfja sem ég tók við astmanum. Ég er greinilega orku- og úthaldsmeiri en áður. Í starfi mínu sem sjúkraþjálfari hefur þessi aðferð aukinheldur gefið mjög góða raun.
Eins og svo margt gott í lífinu er Buteyko-aðferðin mjög einföld. Í stað þess “að anda djúpt” þarf “að anda minna” Hún hefur sannað gildi sitt og ástæða er til þess að hvetja sem flesta til að kynna sér hana.
Monique van Oosten
Sjúkraþjálfari og buteyko þjálfari
e-mail: monique@centrum.is
No Comment