Chilli gegn alvarlegum sjúkdómum eins og krabbameini
Capsaicin, efnið sem að gerir chillipiparinn sterkan, getur drepið krabbameinsfrumur, án þess að skerða heilbrigðar frumur í kring og án aukaverkana.
Þetta kemur fram í nýlegum rannsóknum Dr. Timothy Bates og hans rannsóknarteymis í Nottinghamháskólanum í Bretlandi.
Þessar rannsóknir sýndu fram á að capsaicin eyddi lungna og bris krabbameinsfrumum, sem ræktaðar höfðu verið á tilraunastofu skólans.
Þetta eru sérlega jákvæðar og spennandi niðurstöður, sem enn eiga þó langt í land og margar prófanir þarf til, áður en nokkuð er hægt að segja með vissu hver endanleg niðurstaða verður. Einnig hafa að undanförnu verið margar rannsóknir í gangi með sama efnið, capsaicin, gegn HIV veirunni.
Vaknað hafa upp margar spurningar, til dæmis varðandi fólk sem að býr í löndum eins og Mexíkó og Indlandi, þar sem mikil hefð er fyrir þessu efni í almennri matargerð. Þar virðist vera mun lægri tíðni á krabbameini en almennt er í öðrum löndum hins vestræna heims.
“Við virðumst hafa fundið grundvallarveikleika allra krabbameinsfruma. Capsaicin ræðst sérstaklega á krabbameinsfrumurnar, en lætur hinar heilbrigðu frumur vera og því ættu ekki að verða neinar aukaverkanir hjá sjúklingunum” er haft eftir Dr. Bates
Einnig er haft eftir honum að, með tilraunum hans og hans teymis, hafi þeir ekki eingöngu uppgötvað að capsaicin ráðist eingöngu gegn krabbameinsfrumunum og létu þær heilbrigðu vera í kringum æxlin, heldur einnig að þetta magnaða efni hafi sýnt að hægt er að eiga við bæði lungna krabbameinsfrumur og bris krabbameinsfrumur. Það hefur verið sérlega erfitt að eiga við og hafa lífslíkur þeirra, sem hafa átt við krabbamein í brisi að stríða, hingað til, ekki talist góðar.
Áfram verður haldið við þessar rannsóknir og á meðan vonum við vel gangi og að hægt verði að þróa lækningu með þessum hætti sem allra fyrst. Tekið skal þó fram að ekki er nóg að borða ómælt magn af chillipipar og vandamálið sé á bak og burt. En ekki ætti það heldur að vera annað en hollt að bæta honum í matreiðsluna, sérstaklega núna yfir vetrarmánuðina, þar sem að chillipipar er einnig góður sem forvarnarlyf gegn kvefi.
Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir – birtist fyrst á vefnum 21. janúar 2007
No Comment