Deildar meiningar um hollustugildi mjólkur
Á þriðjudagskvöldið í síðustu viku, 6. maí 2008, var Jóhanna Vilhjálmsdóttir með góða samantekt á ólíkum sjónarmiðum gagnvart hollustugildi mjólkur, í Kastljósþætti kvöldsins.
Jóhanna ræddi við Laufeyju Steingrímsdóttur prófessor við Landbúnaðarháskólann og við Hallgrím Magnússon lækni. Ég birti hér helstu punktana sem komu fram í þessum viðtölum.
Laufey byrjaði á að árétta að hún væri ekki neinn sérstakur talsmaður kúamjólkur né andstæðingur hennar, heldur væri hún sérfræðingur og vísindamaður á þessu sviði og talaði út frá því. Laufey sagði að mjólkin væri mjög mikilvægur næringargjafi og væri nær að segja að hún væri algjör næringarbomba, þar sem hún er samsett sem eina næring ungviðis í örum vexti, það er fyrir kálfinn. Laufey sagði jafnframt að mjólkin væri ekkert fullkomin fæða fyrir manninn, enda væru engin matvæli hin fullkomna fæða fyrir manninn.
Hallgrímur fór inn á sömu braut en með annarri áherslu. Hann talaði um að mjólk væri góð næring fyrir ungviði sömu tegundar, þ.e. frá móður til afkvæmis. Þannig væri vökvinn stílaður inn á að flytja ákveðin skilaboð frá móður til barns en þessi skilaboð eru ólík milli tegunda. Þannig eru allt önnur skilaboð í mjólkinni frá kúnni til kálfsins, heldur en frá konu til barns.
Kúamjólkin er þannig stuðningur við kálfinn til gríðarlegs vaxtar á fyrstu mánuðum æviskeiðsins en efni í móðurmjólk okkar mannanna eru fyrst og fremst til að þroska taugakerfi barnsins. Þannig inniheldur móðurmjólkin mikið af omega fitusýrum en þær eru ekki að finna í kúamjólkinni.
Jarfnframt sagði Hallgrímur frá því að ungviði hverrar tegundar eru með ákveðna efnasamsetningu í þörmum til að brjóta niður mjólkina frá móðurinni og nýta þannig þau efni sem í henni eru á fyrsta æviskeiðinu. En flest öll dýr og þar á meðal maðurinn, búa ekki lengur yfir því að hafa þessi efni í sér, þegar að aldurinn færist yfir. Eftir 6 til 8 mánaða aldur þá minnka þessi efni mjög mikið í þörmunum, enda eru flest öll dýr hætt á spena á þessum aldri.
Jóhanna innti næst Hallgrím eftir viðbrögðum hans við því að bent væri á að mjólk sé næringarríkasta fæðutegundin sem völ er á.
Hallgrímur svaraði því á þann hátt að til að kúamjólkin sé þessi næringarríka fæðutegund fyrir okkur, þyrftum við að geta brotið hana niður svo við gætum nýtt okkur þessi næringarefni. Hann benti á að kálfurinn væri með fjóra maga og fullt af efnahvötum sem gegna því hlutverki meðal annars að brjóta niður mjólkina. Þegar við mannfólkið drekkum gerilsneydda mjólk, þá fer sýrustigið í maganum hjá okkur úr einum og upp í sex stig, þannig að eini möguleikinn fyrir okkur til að brjóta niður mjólkina er að kalla á einhverjar örverur sem að gerja þá matinn og við náum á þann hátt út úr honum einhverju af hollum efnum. En það sem þetta yfirleitt gerir að verkum, er að líkami okkar verður súr í staðinn, sem er undirstöðu skilyrðin fyrir flestum sjúkdómum.
Einnig benti Hallgrímur á að kúamjólkin er álitin vera einn aðalorsakavaldur fyrir ofnæmi hjá ungum börnum. Svo má ekki gleyma að við fáum fullt af öðrum efnum í mjólkinni sem fara úr kúnum, yfir í mjólkina. Þar má nefna insúlín örvandi hormón sem er talið orsaka að konur fái brjóstakrabbamein og karlmenn fái jafnvel blöðruhálskirtilskrabbamein. Einnig finnast tengsl við aukna tíðni lungnakrabbameins og krabbameins í eggjastokkum, auk fleiri krabbameinstegunda, við neyslu á gerilsneyddum mjólkurvörum.
Laufey talaði um stóru skýrsluna sem nýlega kom út og við höfum lítillega rætt hér á Heilsubankanum, þar sem Alþjóðlega krabbameinsstofnunin, ásamt þeirri bandarísku, settu saman mjög greinargóða samantekt á þessu flókna og mikla sviði sem tengsl krabbameins og lífsstíls er og var þeirra niðurstaða sú að það sé mjög líklegt að mjólk hafi verndandi áhrif gegn ristilkrabbameini og endaþarmskrabbameini, en að sama skapi sé líklegt að mikil mjólkurneysla auki líkurnar á blöðruhálskirtilskrabbameini.
Jóhanna spurði þau Hallgrím og Laufeyju út í þá staðhæfingu að við þyrftum að drekka um 2 glös af mjólk á dag til að fullnægja kalkþörfinni okkar og að mjólkin sé kalkríkasti næringargjafinn sem að völ er á.
Hallgrímur svaraði því til að þessu væri jú haldið fram af þeim sem væru að prómótera mjólkina, en aðrir benda á það, að beljan sem framleiðir þessa kalkmiklu afurð, borði jú eingöngu grænt gras. Við mannfólkið getum alveg eins borðað eitthvað grænt og við sjáum að þegar mælt er hversu mikið við vinnum af kalki úr mjólkinni, þá vinnum við miklu betur kalkið úr grænu grænmeti heldur en úr mjólkinni. Við höfum ekki neina efnahvata eða annað þess háttar til að ná kalkinu úr kasín mólíkúlunum í mjólkinni, og þar af leiðandi þá nýtum við okkur kalkið úr grænmetinu miklu betur og beinin í okkur verða heilbrigðari fyrir vikið.
Laufey var sammála því að það væru til fæðutegundir þar sem við nýtum kalkið mun betur en úr mjólkinni, t.d. úr grænkáli, spergilkáli og blómkáli. Úr þessum fæðutegundum nýtum við kannski 60 – 70% af kalkinu, en eingöngu um 30% úr mjólkinni. En Laufey benti á að ef við lítum á bæði magnið og nýtinguna, þá fáum við út að til að fá sama magn af kalki úr grænmetinu eins og úr einu glasi af mjólk þá þurfum við að borða mismikið magn af grænmetinu. Þannig þurfum við eingöngu að borða um 120 grömm af grænkáli og sagði hún að við mættum öll svo sannarlega borða meira af grænkálinu. En af spergilkáli þurfum við að borða um 350 grömm til að fá sama kalkmagn og um 500 grömm af blómkáli.
Í framhaldi af kalkumræðunni benti Hallgrímur á að í öllum Vestrænum ríkjum sem neyta mikils mjólkurmatar er mikið um beinþynningu, en aftur á móti í Asíu, í ríkjum eins og Kína og Japan, þar sem mjólkurmatur er ekki notaður, þar er beinþynning næstum óþekkt fyrirbæri.
Laufey vildi fara varlegar í alhæfingar varðandi beinþynninguna. Hún sagði að í Asíu væri kannski ekki minna um beinþynningu, heldur hafi verið sýnt fram á að það eru færri brot, t.d. lærleggsbrot, heldur en á Vesturlöndum. Þessi beinbrot eru mun færri í Asíu og Laufey sagði að þetta ylli auðvitað heilabrotum en að hluta til væri væntanlega hægt að útskýra þetta með því að fólkið í Asíu er lágvaxnara og því ekki eins hætt við beinbrotum og sömuleiðis þá væri lærleggshálsinn í Asíubúum öðruvísi en í okkur Vesturlandabúum, hann væri styttri og mjaðmagrindin væri einnig öðruvísi í laginu og það gæti skýrt það að þeim væri ekki eins hætt við brotum eins og okkur.
Hallgrímur hélt áfram með þessa umræðu og benti á niðurstöðu úr stórri rannsókn sem gerð var á 78.000 hjúkrunarfræðingum sem framkvæmd var af Harvard háskóla. Hjúkrunarfræðingarnir voru mældir og fylgst var með þeim í þó nokkuð mörg ár. Niðurstöðurnar sýndu að þær konur sem drukku tvö glös eða meira af mjólk á dag, var miklu hættara á beinbrotum á framhandlegg eða á lærlegg heldur en konunum sem drukku minna en 2 glös af mjólk á dag. Hallgrímur sagði að niðurstöður þessarar rannsóknar hafi verið skýr skilaboð til fólks um það að mjólk veldur þessum tegundum af beinbrotum.
Aftur vildi Laufey túlka niðurstöðurnar á annan og varfærnari hátt. Hún sagði að rannsóknin hefði ekki sýnt að konur sem drykkju mjólk væru útsettari fyrir beinþynningu eða beinbrotum, heldur hafi rannsóknin sýnt eingöngu að mjólkin hefði ekki verndandi áhrif gegn beinbrotum. Laufey benti á að þarna hefði einmitt komið í ljós mikilvægi D-vítamíns. Það hefði verið D vítamínið sem skipti þarna mestu máli. Þær konur sem fengu minnst af D vítamíni, þeim var frekar hættara við beinbrotum, þær fengu frekar lærleggsbrot heldur en hinar.
Að síðustu benti Hallgrímur á að alvarlegast í þessu máli öllu saman væri sá þáttur að öll kúamjólk sem er á boðstólnum er gerilsneydd og benti hann á að ef kálfar eru aldir á gerilsneyddri mjólk eingöngu, þá deyja þeir á 40 til 50 dögum. Laufey svaraði þessu til að það væri enginn að mæla með því að fólk lifði eingöngu á kúamjólk. Mjólkin væri bara hluti af fæðunni. Ef við ættum að lifa eingöngu á einni fæðutegund, eins og til dæmis bara eplum eða lýsi, þá færi illa fyrir okkur. Á þennan hátt er kúamjólkin ekkert öðruvísi þrátt fyrir að hún sé náttúrulega næringarríkari heldur en flest annað, en hún er ekki fullkomin fæða og engan veginn fullkomin fyrir manninn.
Sjá einnig: Mjólkuróþol; Kalk og D vítamín gegn beinþynningu; Fylgni mjólkurneyslu við krabbamein.
Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir
No Comment