Eyrnasuð (Tinnitus)
Sæll Kjartan.
Eyrnasuð eða tinnitus virðist vera algengt vandamál og oft ekki gott að átta sig á hvað veldur. Sum lyf, t.d. þunglyndislyf geta valdi þessu en þá hverfur þetta nú yfirleitt þegar notkun þeirra er hætt.
Hvað varðar meðferð við þessu þá er nú ekki um auðugan garð að gresja í heilbrigðiskerfinu.
Þó eru margir sem hafa fengi bót með því að fara í svokallaðan þrýstiklefa. Þetta er klefi sem er til uppi á gamla Borgarspítala og er notaður þegar fólk fær kafaraveiki, lendir í reyk og fl.
Þennan klefa er hægt að komast í og þá held ég að sé best að hafa beint samband við deild E2.
Það eru ítalskir læknar sem vinna þarna en þeir tala ensku.
Hvað varðar næringarþerapíuna þá er ýmislegt hægt að reyna. Mataræðið skiptir máli og einnig er hægt að hjálpa með bætiefnum.
Hvað varðar mataræðið myndi ég ráðleggja að minnka sykur, hveiti og mjólkurneyslu. Stilla neyslu á rauðu kjöti í hóf og borða meiri fisk. Borða vel af grænmeti og góðum olíum. Auka trefjaneyslu með því að borða heilkorn og passa að drekka nóg vatn. Borða hnetur og fræ.
Það gæti verið sniðugt að taka inn eitthvað af eftirfarandi:
- Fjölvítamín
- B-vítamínblöndu
- Hörfræolíu eða fiskiolíu
- Zink
- Magnesíum
- A-vítamín
- E vitamin
- Lesitín
Vona að þetta hjálpi þér eitthvað.
Kær kveðja,
Inga Kristjánsdóttir (næringarþerapisti)
Viðauki: Talið er að flest okkar fái einhvern tíma eyrnasuð en er það ekki nema um 10 – 15% manns sem upplifir það stöðugt eða endurtekið en um 1 – 2% manns upplifa mikil óþægindi tengt eyrnasuði.
Þeir sem byrja að upplifa eyrnasuð ættu að leyta til háls- nef- og eyrnalæknis þar sem margar ástæður geta orsakað það og ef ástæðan finnst hjálpar það oft við hugsanlega meðferð. Einnig er það til að skemmd eða sýkt tönn geti komið af stað eyrnasuði og væri því ráð að bóka einnig tíma hjá tannlækni.
Um 85% af fólki með heyrnarskerðingu þjáist af eyrnasuði. Talið er að það eigi rætur í heilanum, frekar en eyranu sjálfu. Ein kenning er sú að heilinn reyni að bæta upp fyrir heyrnaskerðingu sem hefur átt sér stað í eyranu, með því að senda rafboð sem séu hljóðin sem manneskjan heyri.
Algengasta orsök eyrnasuðs er hávaði en aðrar ástæður geta legið að baki. Þekkst hefur að Aspirín geti komið af stað eyrnasuði og eins sýklalyf. Ættu þeir sem þjást af eyrnasuði að reyna að sneiða hjá þeim lyfjum. Einnig er algengt að fólk greini frá því að koffín auki á eyrnasuð og ætti að forðast alla inntöku þess.
Hómópatía hefur oft gagnast fólki með eyrnasuð.
Jurtalækningar hafa hjálpað fólki en bestu líkur fyrir að bati náist með aðstoð jurtalækninga er að vandinn sé meðhöndlaður innan 6 til 8 vikna frá því hann byrjar.
Ginkgo biloba hefur reynst mörgum vel og hefur fólk jafnvel losnað alveg við eyrnasuð eftir nokkra vikna notkun á bætiefninu. Þó virðist það vera tengt því að eyrnasuðið stafi af blóðrásarvandamáli.
HMJ (Hildur Magnea Jónsdóttir)
No Comment