MataræðiVítamín

Fjölvítamín

Fjöldi fólks tekur fjölvítamín daglega í góðri trú um að með því fái það öll helstu bætiefni sem líkaminn þarfnast. Fjölvítamín er hins vegar ekki endilega það sem allir þurfa að taka inn.

Það hefur nefnilega komið í ljós að mikil neysla ákveðinna vítamína eins og til dæmis fólínsýru, getur jafnvel aukið líkur á krabbameini í endaþarmi, blöðruhálskirtli og brjóstum. Fólínsýra vinnur hins vegar gegn mænuskaða á fósturstigi og þar sem þungaðar konur eru hvattar til að taka hana inn sérstaklega, hefur slíkum tilfellum fækkað mjög.

Neysla hollrar og góðrar fæðu gefur líkamanum þau vítamín sem hann þarfnast. Sé stór uppistaða fæðunnar lítið elduð (t.d. ávextir og grænmeti), varðveitast vítamínin og steinefnin frekar og þá þarf síður að taka inn viðbótarvítamín. Líkaminn vinnur mun betur úr þeim vítamínum sem koma úr fæðu heldur en úr töfluformi. Það þurfa því ekki allir sem neyta fjölbreyttrar og hollrar fæðu að taka inn viðbótarvítamín.

Fjöldi fólks nær þó ekki að fá æskilegan dagskammt af vítamínum í gegnum fæðuna. Í þeim tilfellum er gagnlegt að taka inn tilbúin vítamín. Þá ber að vanda valið á því sem tekið er inn. Eðlilegt er að skoða innihaldslýsinguna, sjá hvort vítamínið sé gæðavottað, hvort það samræmist Evrópustöðlum um vítamín, spyrjast fyrir úr hverskonar hráefnum það sé unnið o.s.frv. Það er nokkuð um að innihaldslýsingar á ódýrum, fjöldaframleiddum vítamínum séu ekki samkvæmar innihaldsmælingum eða að innihaldið er unnið úr lélegu hráefni. En eins og með annað sem fólk lætur ofan í sig, þá er mikilvægt að vanda valið.

Previous post

Að breyta um áherslur í mataræði

Next post

Mikilvægi D-vítamíns

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *