Eldri árinFjölskyldanHeimilið

Getum við gert betur?

Áframhald af vangaveltum um samveru, samhug og lífsgæði á lengra æviskeiði dagsins í dag. (Sjá fyrri grein: Lengra æviskeið)

Hvar er eldra fólkið í dag? Hvernig hugsum við um foreldra okkar eða afa og ömmur? Gefum við okkur tíma til að skoða þeirra líðan? Vita þau hvernig okkur líður? Er þjóðfélagið að bjóða þeim, það sem að þau eiga skilið? Þetta er jú fólkið sem lagði grunninn að öllum þessum miklu breytingum sem orðið hafa í þjóðfélaginu, erum við þakklát? Eru þau að njóta gæðanna sem að þau stuðluðu að fyrir okkur? Hvað getum við lært af þeim og reynslu þeirra sem að eldri eru? Mín trú er sú að við getum mikið lært og ekki síður hefðum við gott af, að heyra sögurnar sem að þau kunna að segja.

Fyrir allnokkru varð ég þess aðnjótandi að fá til mín í viðtal, gamla konu sem að hreif mig mjög mikið. Frásagnargleði hennar og sögurnar frá hennar uppvexti og lífshlaupi voru yndislegar. Ekki hafði lífið hennar verið dans á rósum, en jákvæðnin og nægjusemin skein úr hverri sögunni af fætur annarri. Eftir að ég kvaddi þessa dásamlegu konu, hugsaði ég mikið um hve börnin okkar væru að fara á mis við og reyndar við líka. Við eigum jú að vera fyrirmyndir barnanna okkar, en er kunnáttan og tíminn til staðar? Erum við góðar fyrirmyndir?

Alltof oft er það þannig í dag að börnin varla þekkja ömmu sína og afa nema þá í stuttum “skylduheimsóknum” og því miður vita fæst börn í dag, hvernig lífið og tilveran var þegar mamma og pabbi voru að alast upp, hvað þá þegar að afi og amma voru að alast upp. En mikið óskaplega hefðum við öll gott af því að hugsa aðeins til baka og heyra af basli forfeðra okkar þegar að við erum sjálf oft að kikkna undan lífsgæðakapphlaupinu. Það er víst að þau eldri tóku mótlæti og vandamálum með öðru hugarfari en við gerum í dag.

Þurfum við ekki að nálgast aðeins ræturnar okkar? Er eitthvað sem að við getum gert til að öllum líði betur, þannig höldum við bestri heilsu, ef að jafnvægi er á líðan okkar. Mín skoðun er sú að við einfaldlega verðum að finna lausnir á samskipta- og tengingaleysi á milli fólks og sér í lagi á milli kynsslóða. Við þurfum að gera betur, fyrir okkur öll.

Of margir eldri borgarar sitja aleinir heima, sumir án heimsókna eða símtals svo dögum skiptir, jafnvel stundum vikum saman. Hægt er að segja að þeir geti sjálfir sér um kennt, þeir geti bara farið út og fundið sér eitthvað að gera, það er jú hellingur í boði fyrir fólk, t.d. á dagdeildum á vegum borga og bæja. En oftar en ekki er það hægara sagt en gert, sumir hverjir þjást af kvíða og hræðslu við þjóðfélagið eins og það er í dag. Eins ef að viðkomandi þarf líka að eiga við langvarandi sjúkdóm, einn eða fleiri, er enn meiri áhætta að hann loki sig af. Og því að sama skapi enn meiri ástæða fyrir okkur hin að fylgjast með og hafa samband.

Eitt af því sem að barnaskólarnir hafa gert sem að mér þótti aðdáunarvert eru heimsóknir barnanna á elliheimilin. Þetta finnst mér eiga að vera fastur liður í skólastarfi, allra skóla, nokkrum sinnum á ári. Annað sem að mætti huga að, er að fá gamla fólkið inn í skólana. Börnin myndu örugglega njóta og hafa gaman af, að fá kennslustund öðru hvoru yfir skólaárið í lífsháttum og sögum frá fyrri tímum. Gamla konan sem að hreif mig svo mjög, hefði náð til barnanna á skemmtilega öðruvísi hátt, en þau eiga að venjast í skólanum. Einnig er ég sannfærð um að eldra fólkinu þætti gaman að sjá hve vel er staðið að skólamálum í dag. Það eru ekki svo margir af eldri kynslóðinni sem að hafa stigið fæti inn í alla nýju skólana sem að hafa risið um allt land.

Alla vega þurfum við öll að hrista aðeins upp í lífsmunstrinu og reyna að kynnast hvort öðru betur og láta okkur meira varða hvort annað. Við eigum ekki að leyfa það í flottu þjófélagi sem Íslenskt þjóðfélag er, að einhverjir séu aleinir og án allra samskipta, til lengri eða skemmri tíma. Finnum leiðir til forvarna, samhugar og samveru. Aðventan er ljómandi góður tími til að vakna og ýta boltanum af stað, svo þarf bara að halda áfram að fylgja honum eftir svo að hann rúlli ekki út á ballarhaf og gleymist aftur í lífsgæðaólgusjó nútímans.

 

Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir

Previous post

Lengra æviskeið

Next post

Frestunarárátta

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *