Gönguskíði
Ástundun á gönguskíðum er frábær hreyfing og góður kostur fyrir nær alla, því íþróttin er þess eðlis að flestir eiga auðvelt með að stunda hana og er hún frábært fjölskyldusport.
Vissulega er ákveðinn stofnkostnaður við að kaupa sér skíði, skó, bindingar og stafi en búnaðurinn er þó mun ódýrari en svigskíðabúnaður og úreldist seint. Vorin eru oft besti tíminn til að fjárfesta í búnaði því þá eru oft tilboð og útsölur á skíðabúnaði.
Norðmenn eru ein helsta gönguskíðaþjóð veraldar. Þar er íþróttin sannkallað fjölskyldusport og eldri meðlimir fjölskyldunar draga þá yngri á eftir sér í svokallaðri púlku. Gönguskíðabrautir eru lagðar á flestum útivistarsvæðum á góðviðrisdögum og allt virðist krökkt af fjölskyldufólki. Til hátíðarbrigða er svo algengt að fara í lengri “hyttuturer” en þá er gengið á milli skála og gist.
En það eru ekki bara Norðmenn sem hafa dálæti á gönguskíðum. Fjölmargir Íslendingar stunda íþróttina og aðstæður til iðkunar hennar verða sífellt betri. Útbúnar eru gönguskíðabrautir í nágrenni skíðasvæðanna í Reykjavík, í Heiðmörk, við Hlíðarfjall á Akureyri, í Kjarnaskógi og víðar um landið. Það er þó alls ekki skilyrði að vera í gönguskíðabraut til að geta stundað gönguskíði og tilvalið að keyra svolítið út fyrir bæjarmörkin og fá sér göngutúr á skíðunum. Í nágrenni Reykjavíkur er algengt að sjá fólk á gönguskíðum uppi á Hellisheiði, Mosfellsheiði og víðar.
Hreyfingin sem fólk fær á gönguskíðum er mjög alhliða. Vissulega reynir íþróttin á fæturna, því meira eftir því sem lengra og hraðar er farið. En hendur, bak og magi fá líka að taka á því. Kosturinn við íþróttina er að auðvelt er að ná tökum á henni, hægt er að stunda hana á sínum hraða, í lengri eða styttri tíma í senn. Hún krefst útiveru og yfirleitt líður fólki dásamlega vel eftir ástundun hennar.
Höfundur: Helga Björt Möller
No Comment