Grænmeti
Hvernig er best að halda sem mestu af hollustu í grænmetinu sem að við notum til matargerðar? Mismunandi er hve mikið tapast af næringu grænmetisins við eldun, það getur farið eftir tegundum.
Lítið tapast af hollustunni ef að útbúnir eru djúsar úr grænmetinu. (Sjá Hreinir djúsar) Einna mest tapast af trefjunum þar sem að eingöngu er notaður safi grænmetisins. Varast skal, þegar keyptir eru slíkir safar á svokölluðum djúsbörum, að þar er oft bætt í þá sætuefnum eða öðrum bragðbætiefnum, sem að ekki endilega eru heilsuvænleg efni.
Margir heimagerðir djúsar eru lostæti og gaman er að prófa nýjar blöndur. Ótrúlega margar góðar uppskriftir er einnig að finna í bókinni Endalaus orka sem er til sölu hér í Heilsubankanum. Hægt er að miða við að u.þ.b.120 ml. af safa jafnist á við 1 grænmetisskammt af þeim 5-10 dagskömmtum sem æskilegt er að innbyrgða á dag.
Frábært er að nota grænmetið í súpur og sósur. Næring tapast úr grænmetinu við það að hita það, en ef að það er hitað í súpum og sósum losna flest næringarefnin út í súpuna og sósuna, þannig að lítið tapast úr matnum.
Skellið nýju grænmeti á pizzurnar í stað þess að nota alltaf sömu áleggin. Spínat, rukola salat, graslaukur, eggaldin, grófraspaðar gulrætur, tómatar, sveppir, paprikur, laukur, hvítlaukur, lengi má telja, en um að gera að prófa allt grænmeti. Nota það sem að til er í það og það skiptið. Byrjið á því að stefna að því að hafa a.m.k. 50/50 hlutfall á milli grænmetis og kjötáleggs.
Niðurskorið hrátt grænmeti er frábært sem snakk með hummus og pestó. Gulrætur, agúrkur, brokkolí, sellerý, blómkál og litlir tómatar, allt er þetta gómsætt með þessum ídýfum.
Niðurskorið grænmeti með öllum mat gefur diskinum fallegt og litskrúðugt yfirbragð og eykur á girnileika og bragðlaukarnir byrja strax að vinna um leið og litið er á diskinn. Snöggsteiktar gulrætur og grænt kál með kjöti er góð blanda. B-vítamínið og fólinsýran úr grænkálinu er gott fyrir hjartað og C-vítamínið hjálpar líka líkamanum við nýta betur járnið úr kjötinu.
Grænmeti er líka árstíðabundinn matur, t.d. er ætiþistill, aspas og radísur oft nefndar sem vormatur. Maís og tómatar oft nefnt sem sumarmatur, brokkolí, eggaldin og grasker oft nefnd sem haustmatur og rósakál og flest grænt kál oft nefnt sem vetrarmatur. Ekki skal þó festa sig í árstíðunum heldur velja sér það sem að hugurinn og bragðlaukarnir girnast.
Bætum grænmeti í allan mat, í allt sem að okkur dettur í hug að prófa, notum hugmyndaflugið og reynum eitthvað nýtt. Einnig ættum við alltaf að hafa niðurskorðið ferskt grænmeti með á diskinum, t.d. vilja börnin oftar, ferskt óeldað stökkt grænmeti, en eldað og mjúkt. Einnig er góð regla að eiga alltaf til niðurskorið grænmeti í ísskápnum til að grípa í fyrir börnin og okkur sjálf þegar að “mig langar í eitthvað” löngunin kemur yfir mann.
Sjá einnig: Grænmeti er HOLLT, en misbragðgott, Að þvo grænmeti og ávexti, Grænmeti er gott fyrir heilann og Hvernig skal meðhöndla grænmeti
No Comment