FjölskyldanHeimiliðMeðganga og fæðing

Hæsta fæðingarþyngd á Íslandi

Sagt var frá því í fréttum í gær að barn hafði fæðst í Síberíu sem vó 7,75 kíló eða 31 merkur. Þetta var 12 barn foreldranna og öll eldri börnin vógu yfir 5 kílógrömm við fæðingu.

Sagt var frá því í Blaðinu fyrir viku síðan, að meðalfæðingarþyngd barna á Íslandi væri sú hæsta sem gerist í heiminum. Þyngsta barnið sem hefur fæðst á Íslandi vó 6,4 kílógrömm en meðalfæðingarþyngd íslenskra barna er nú 3,8 kg. og fer hækkandi.

Á síðasta ári fæddust 4.415 börn á landinu og þar af voru 34 yfir 5 kíló, 239 voru á milli 4,5 til 5 kíló og 903 börn voru 4 til 4,5 kílógrömm.

Víða á Vesturlöndum er miðað við að börn sem eru yfir 4,5 kíló séu of þung og hlutfall þessara barna er mjög hátt hér á landi, miðað við önnur lönd.

Hlutfall of þungra og of feitra mæðra hefur aukist verulega og eru nú um 20% mæðra í þessum flokki. Offita mæðra eykur áhættu bæði hjá móður og barni. Börnin geta fengið langtíma áverka við fæðinguna og þurft að glíma við offitu og sykursýki síðar á ævinni.

Hluti of þungra mæðra fær efnaskiptatruflun sem kölluð er meðgöngusykursýki og er afleiðingin af henni sú, að börnin fá meiri næringu en ella og stækka óhóflega.

Börn yfir 5 kílóum lenda frekar í erfiðleikum í fæðingu. Þau geta fest í fæðingarveginum, hætta er á viðbeinsbroti og jafnframt getur komið fyrir að börnin fái áverka á taugar í hálsi sem liggja út í handlegg. Auk þess er þessum mæðrum hættara við að lenda í bráðakeisaraskurði.

Það er algengt að konur fari fyrst að huga að mataræði og hollari lífsháttum, eftir að þær hafa eignast barn. Oft byrja þær að huga að þessum þáttum gagnvart því sem beinist að barninu og fara svo að huga að sjálfum sér í framhaldinu. Ofangreindar tölur sýna að konur þurfa að fara að huga að hollustu og heilbrigði, áður en þær huga að barneignum.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir, greinin birtist fyrst í september 2007

Previous post

C-vítamínskortur getur orsakað fyrirburafæðingar

Next post

Brjóstagjöf og andleg líðan

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *