Heilsa

Hár blóðþrýstingur og mataræði

Þegar hjartað dælir blóði um líkamann, þrýstist blóðið út í veggi æðanna. Hjá fólki sem þjáist af of háum blóðþrýstingi er þessi þrýstingur óeðlilega hár.

Blóðþrýstingur er mældur og skráður með tveimur gildum. Annars vegar efri mörk sem standa fyrir slagbilsþrýsting (systolic pressure) og hins vegar neðri mörk sem standa fyrir lágbilsþrýsting (diastolic pressure).

Efri mörkin eru mæld þegar hjartað dregst saman og dælir blóði út í æðarnar, við þetta hækkar þrýstingurinn í slagæðum líkamans og nær hámarki við lok hjartasamdráttarins. Neðri mörkin eru tekin þegar hjartað hvílist milli samdrátta, blóðið rennur út eftir slagæðakerfinu og við það lækkar slagæðaþrýstingurinn sem nær lágmarki rétt áður en hjartað dregst saman aftur.

Ef hækkun er á blóðþrýstingi þarf hjartað að hafa meira fyrir því að dæla nægjanlegu magni blóðs til allra vefja líkamans. Afleiðingar háþrýstings geta leitt til nýrnabilunar, hjartabilunar og hjartaáfalls, auk þess sem hann eykur líkurnar á heilablæðingum og veldur hann æðakölkun, vítt og breitt um líkamann.

Hár blóðþrýstingur getur farið hljótt og oft finnur fólk ekki fyrir neinum einkennum fyrr en aðrir fylgikvillar fara að gera vart við sig. Þess vegna hefur háþrýstingur oft verið kallaður “Hljóður morðingi”. Algengustu einkenni eru hins vegar höfuðverkir, svitaköst, hraður púls, andnauð, svimi og sjóntruflanir.

Eðlilegur blóðþrýstingur er ef efri mörk eru undir 130 og neðri mörk undir 85. Ef blóðþrýstingurinn mælist hærri en 140/90 í hvíld er um að ræða háþrýsting.

Orsök háþrýstings er óþekkt en nokkra áhættuþætti er þó vitað um. Þeir eru m.a. tóbaksreykingar, streita, hreyfingaleysi offita, lyfjaneysla og mikil neysla salts. Einnig leika erfðir stóra rullu þegar kemur að háþrýstingi. Aðrir áhættuþættir sem snúa að mataræði eru lítil neysla á trefjum, of mikil neysla sykurs, neysla slæmrar fitu og lítil neysla góðrar fitu (sjá Enga fitufælni – takk) og mataræði sem inniheldur lítið af kalki, magnesíum og C-vítamíni.

Sumir sjúkdómar geta leitt til háþrýstings og er þá talað um annarrar gráðu háþrýsting. Þessir sjúkdómar eru ójafnvægi í hormónabúskap, nýrnasjúkdómar, æxli og þrenging í æðum.

Mataræði:

Það sem skiptir mestu máli varðandi gildi mataræðis er að koma sér í kjörþyngd þar sem offita getur verið stór áhættuþáttur.

Auka skal neyslu á grænmeti, ávöxtum, baunum, korni, hnetum og fræjum. Grænmetisætur eru almennt með lægri blóðþrýsting en aðrir og þjást sjaldnar af háþrýstingi og öðrum hjartasjúkdómum. Þessi munur liggur þó ekki í minni neyslu á salti heldur frekar er mataræði þeirra sem eru grænmetisætur, ríkara af kalíum, flóknum kolvetnum, góðum fitusýrum, trefjum, kalki, magnesíum og C-vítamíni.

Tegundir sem fólk með háþrýsting ætti að leggja sérstaklega áherslu á að hafa í mataræði sínu eru: Sellerý, hvítlaukur, laukur, hnetur og fræ, feitur fiskur, grænt laufgrænmeti, heilkorn og baunir og tegundir sem eru ríkar af C-vítamíni eins og spergilkál og sítrusávextir.

Rannsóknir hafa sýnt að sellerý hefur töluverð áhrif til lækkunar á blóðþrýstingi. Dæmi er um mann sem náði að lækka blóðþrýsting sinn úr 158/96 niður í 118/82 eftir að hafa borðað 150 grömm af sellerýi á dag í eina viku. Það er allavega þess virði að prófa.

Hreinsa skal allt salt úr fæðunni. Skoðið innihaldslýsingar og forðist allt sem stendur á “salt”, “soda”, “sodium” eða “Na”. Forðist einnig allar vörur sem innihalda MSG, bökunarsóda, niðursuðuvörur sem ekki eru merktar salt- eða sodium lausar og notið ekki sojasósu.

Útbúið ykkur ferska grænmetis- og ávaxtasafa (sjá Hreinir djúsar). Sérstaklega er mælt með rauðrófum, gulrótum, sellerýi, sólberjum, trönuberjum, sítrusávöxtum, steinselju, spínati og vatnsmelónu.

Mælt er með að teknar séu inn 2 msk. af hörfræolíu daglega.

Sneiðið hjá dýrafitu. Sækið frekar prótein í plönturíkið, úr korni og baunum.

Forðist með öllu áfengi, koffein og tóbak.

Annað sem gott er að hafa í huga:  Stundið reglulega líkamsþjálfun, eins og t.d. 30 mínútna göngu, þrisvar í viku. Passið upp á að fá nægan svefn. Forðist streituástand eins og mögulegt er.

Previous post

Hálsbólga

Next post

Hárið

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *