FjölskyldanHeimiliðSjálfsrækt

Heildræn nálgun að betra lífi – segjum skyndilausnum stríð á hendur

Í hröðu samfélagi nútímans er tilhneigingin sú að reyna að finna lausnir á vandamálum á sem fljótvirkastan og áreynsluminnstan hátt. Það er ekki þar með sagt að það sé leiðin sem henti mannfólkinu best. Þetta getur verið nauðsynleg nálgun í viðskiptum og á vettvangi stjórnmálanna en þegar kemur að líkama okkar og heilsu þá getur þessi nálgun verið okkur til tjóns.

Þeir sjúkdómar sem ógna heilsu okkar í dag eru langflestir beintengdir lífsmynstri því sem við höfum tileinkað okkur. Það eru sjúkdómar sem eru afleiðing neyslu og/eða streitu. Hraðinn í samfélaginu verður sífellt meiri og það verður stöðugt minni tími til að takast á við þau vandamál sem koma upp í lífi okkar. Þetta veldur ómældri streitu og vanlíðan og vegna tímaleysis erum við farin að svíkja líkama okkar um hollt og fjölbreytt mataræði sem svo grefur undan undirstöðunum sem við höfum til að takast á við það álag sem við lifum og hrærumst í. Þetta hvoru tveggja skapar svo gríðarlegt álag á taugakerfi okkar sem leiðir til sífellt aukinnar vanlíðunar.

Ef skoðað er í lyfjaskáp meðalfjölskyldu má væntanlega finna smækkaða mynd af góðu vöruframboði lyfjaverslunar. Þar er að finna ýmis verkjalyf vegna höfuðverkja, bakverkja og liðverkja, bólgueyðandi lyf vegna vöðvabólgna og þrota í hnjám, öxlum og öðrum liðum, ýmsa áburði vegna útbrota og exema, sýklalyf við eyrnabólgum og öðrum sýkingum, astmalyf, blóðþynningarlyf, þunglyndislyf, svefnlyf, kvíðastillandi lyf og svona má lengi telja. Alla þá kvilla sem liggja til grundvallar þessum lyfjum má laga með breyttum neysluvenjum og lífsháttum. Að auki má gefa sér að í lyfjaskápnum megi finna lyf vegna hegðunarvandamála barna en þessi lyf eru skyndilausn og þau bæla eingöngu einkennin sem ekki er hægt að lækna með lyfjum, en vegna tímaleysis og takmarkaðs upplýsingastreymis er stokkið á þau sem einhverja allsherjar lausn.

Lífsgæðakapphlaupið blómstrar nú sem aldrei fyrr. En um leið erum við að slá enn eitt metið í fjölda árángurslausra fjárnáma. Við höldum áfram að kaupa allt upp á krít og ef maður greiðir með reiðufé fyrir eitthvað sem kostar yfir fimm þúsund krónur er litið á mann eins og eitthvað útdautt fyrirbrigði. Nýju húsnæðislánin hafa valdið enn meiri skuldsetningu hjá fólki. Fólki gafst færi á að endurfjármagna húsnæðið sitt og greiða upp yfirdrættina og kreditkortaskuldirnar sínar. Þetta var góð lausn fyrir fólk sem var mjög skuldsett og hefði átt að vera ný byrjun. En þar sem við lifum alltaf um efni fram var ekki langt að bíða að fólk byrjaði aftur með yfirdráttinn og kortið og hefði þ.a.l. verið betra heima setið en af stað farið. Þessi sífellt vaxandi skuldsetning veldur því að fólk bætir stöðugt á sig vinnu og tímaleysið verður enn meira auk þess sem kvíðinn og áhyggjurnar vaxa að sama skapi.

Er þetta sú leið sem við viljum fara? Hversu dýrmætt er lífið okkur? Ef fólk er spurt á dánarbeði hvað það sjái mest eftir að hafa ekki komið í verk í lífinu nefnir fólk oftast að hafa ekki eytt meiri tíma með ástvinum sínum, hafa aldrei farið í ferðalagið sem það dreymdi alltaf um eða hafa ekki eytt meiri tíma í áhugamálin. Þarna virðast veraldlegu gæðin og starfsframinn skipta litlu máli.Hvernig er forgangsröðunin í okkar lífi, er hún í einhverju samræmi við það sem er okkur dýrmætast?

Oft upplifum við okkur fórnarlömb aðstæðna og það sé í raun ekkert sem við getum gert í stöðunni annað en að berjast áfram. En í raun höfum við alltaf val um hvernig við kjósum að lifa og verja lífi okkar. Við þurfum bara að gefa okkur tíma til að skoða í hvaða skorðum líf okkar er og velta fyrir okkur hvert við viljum stefna. Það er alltaf hægt að ná fram breytingum, það er bara spurning um tíma. Við getum byrjað strax í dag að reisa undirstöðurnar sem við viljum byggja líf okkar á.

Til að okkur geti liðið vel þarf líkamleg, tilfinningaleg og andleg líðan að vera í jafnvægi. Ef eitthvað af þessu er ekki í lagi hefur það áhrif á hina þættina og við lendum í snjóboltaáhrifum ef við ekki stoppum og ráðumst að rót vandans.

Eins og ég kom inná að ofan má losna við flesta líkamlega kvilla með því að huga að mataræði og lífsstíl. Gríðarlega mikill fjöldi fólks stríðir við einhvers konar fæðuóþol og er það afleiðing breyttra neysluvenja síðustu áratuga. Taka verður á skuldasöfnuninni og mynda góða undirstöðu þannig að sem minnst af tíma okkar og orku þurfi að fara í að hugsa um fjármálin. Leysa þarf úr vandamálum sem mynda spennu í lífi okkar og græða þarf gömul sár. Og að síðustu eru til fjölmargar aðferðir til að hjálpa okkur við að ná hugarró, skerpu og aukinni lífsgleði. Fyrir hvern erum við að lifa lífinu? Hlaupum við stöðugt eftir kröfum umhverfisins eða njótum við lífsins á okkar eigin forsendum?

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Litlu atriðin og aukakílóin

Next post

Sannir vinir

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *