Hvað er transfita og afhverju er hún slæm fyrir okkur?
Mikið hefur verið rætt á síðustu dögum um skaðsemi transfitu og í fréttum í vikunni var sagt frá rannsókn sem Sten Stender yfirlæknir á sjúkrahúsi í Danmörku stóð fyrir. Þar kom fram að magn transfitu er margfalt meira í matvöru hér á landi heldur en gerist og gengur í nágrannalöndum okkar.
Tvenns konar transfitusýrur finnast í matvælum. Annars vegar er um að ræða transfitusýrur sem finnast í vömbum jórturdýra og hins vegar eru það transfitusýrur sem myndast þegar fljótandi olía er hert (hér eftir kölluð hert fita).
Magn transfitusýra í kjöt og mjólkurvörum er um 2 – 5% af heildarfitumagni en dæmi eru um að hert fita geti verið allt að 60% af heildarfitumagni annarra matvara. Er það því þessi herta fita sem okkur stafar hætta af og við þurfum að varast.
Ástæðan fyrir því að fljótandi olía er hert er sú að það eykur geymsluþol hennar og hún þránar síður. Olían er hituð og vetni er dælt í gegnum hana. Við þetta herðist hún en um leið missir hún lífræn efni sem í raun gera olíuna holla.
Neysla á hertri fitu eykur líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum og er talin geta stuðlað að sykursýki 2 og offitu. Að auki lækkar hert fita magn góða kólesterólsins og eykur magn þess slæma í blóðinu. Hert fita kemst til barna í gegnum móðurmjólkina og er hún talin mjög skaðleg börnum og ættu mæður með börn á brjósti og verðandi mæður að huga sérstaklega að þessari fitu í fæðu sinni.
Líkur á hjarta- og æðasjúkdómum eru taldar aukast um 25% ef neytt er 5 gramma af hertri fitu á dag. Á Íslandi er auðvelt að fá margfalt það magn hertrar fitu eingöngu í einni máltíð. Ef öll fituneysla kæmi úr hertri fitu myndu líkurnar fimmfaldast.
Herta fitu er helst að finna í kexi, kökum, bakkelsi eins og vínarbrauði og kleinuhringjum, ýmsu sælgæti, tilbúnum salatsósum og þurrvöru, eins og pakkasúpum og kakómalti, djúpsteiktum mat, frönskum kartöflum, kartöfluflögum, örbylgjupoppi og ýmsum tilbúnum réttum.
Listinn yfir vörur sem geta innihaldið herta fitu er langur og þarf fólk að vera duglegt að skoða innihaldslýsingar ef það ætlar að sneiða hjá þessari óhollu (og jafnvel stórhættulegu) fitu.
Á Íslandi eru engar reglur í gildi um leyfilegt magn hertrar fitu í matvælum og engar reglur eru til um merkingar á matvörum um magn þessarar fitu. En til að þið getið glöggvað ykkur á hvort vara innihaldi herta fitu þá þurfið þið að leita eftir nöfnum eins og “hálf hert olía” eða “að hluta til hert olía”. Á ensku væri skrifað “Partially hydrogenated oil”.
Í Bandaríkjunum voru sett lög 1. jan. 2006 um að allar vörur þyrfti að merkja með nákvæmu innihaldi transfitu eða hertrar fitu. Áður en þessi lög voru sett var kannað magn hertrar fitu í matvöru og til að nefna nokkur dæmi var hert fita 0 – 49% í brauði og kökum, 15 – 28% í smjörlíki, 8 – 35% í kexi, 0 – 13% í jurtaolíum og 0 – 2% í morgunverðarkorni.
Í rannsókn Sten Stender í Danmörku kom fram að magn hertrar fitu í frönskum kartöflum á KFC á Íslandi var 26% á meðan það var eingöngu 2% í Danmörku.
Í magni hertrar fitu í örbylgjupoppi áttu Íslendingar vinninginn yfir þau 30 lönd sem voru rannsökuð en heildarmagn hertrar fitu eða transfitu var um 15%.
Í frétt Ríkissjónvarpsins sem Héðinn Halldórsson tók saman kom fram að ef sett væri saman máltíð úr kjúklingabitum, frönskum kartöflum, kexi og poppkorni þá færi maður létt með að innbirgða hátt í 40 grömm af transfitu í einni máltíð. Og takið eftir því sem kemur fram hér á undan að líkur á hjarta- og æðasjúkdómum eykst um 25% ef eingöngu er neytt 5 gramma af hertri fitu á dag!
No Comment