MataræðiÝmis ráð

Hvar á að byrja?

Breytt og bætt mataræði

Grein eftir Ingu Kristjánsdóttur, næringarþerapista 

Hvernig væri að byrja á einföldu hlutunum?

Margir halda að það sé stórkostlega flókið og óyfirstíganlegt vandamál að bæta og breyta mataræði sínu og lífsstíl.

Ég er búin að vera að flytja fyrirlesturinn “Einfalda leiðin”nú í haust, um land allt og setti ég hann saman einmitt til að sýna fólki fram á að þetta þarf alls ekki að vera svo flókið.

Í dag eru heilsubúðir á öðru hverju götuhorni og stórmarkaðirnir keppast við að auka hillupláss fyrir heilsuvörur.

Aðgengi og úrval lífrænna matvæla er einnig orðið gott og hægt er að fá lífrænar vörur úr flestum vöruflokkum.

Það að skipta yfir í hollari matvöru og þá jafnvel lífræna þarf alls ekki að vera neitt meinlætalíf.

Það er jafnvel hægt að fá kex, kökur og kartöfluflögur úr lífrænt ræktuðu hráefni, án aukaefna, skaðlegra fitusýra og án hvíts sykurs.

En á hverju er þá best að byrja, þegar söðlað er um og hugað er að hollustunni?

Ég mæli með að fólk byrji á því sem auðveldast er að breyta.

Prófið að skipta hvítu hrísgrjónunum út fyrir híðishrísgrjón, hvíta pastanu fyrir gróft heilkornapasta og froðubrauðinu (þessu venjulega úr bakaríinu) fyrir gróft brauð og þá helst það sem er gerlaust og laust við sykur, mjólk og aukaefni.

Þetta er auðvelt og allir geta gert þetta án fyrirhafnar.

Næst má telja sykurinn.

Ég ráðlegg öllum að reyna að minnka sykurneysluna.

Þegar þið viljið fá ykkur eitthvað sætt, baka eitthvað gott eða gera ykkur dagamun, þá skiptir máli hvernig sykur þið notið.

Ef þið eigið enn hvítan sykur í eldhússkápnum, þá endilega losið ykkur við hann. Hvernig þið farið að því er ykkar mál, en ég mæli með því að hann fari bara í ruslið :o) Enginn þarf á honum að halda lengur.

Það er í öllum tilfellum hægt að nota hrásykur í stað þess hvíta. Hrásykurinn inniheldur næringu, þ.e.a.s. vítamín, steinefni og snefilefni, en þau er búið að hreinsa algjörlega úr hvíta sykrinum. Þar af leiðandi nýtir líkaminn hrásykurinn betur.

Þið getið líka gengið skrefinu lengra og notað hunang eða gott sýróp í stað sykurs. Margir hafa komist upp á lag með það og vilja ekki sjá annað í bakstur og matargerð.

Þeir sem svo vilja ganga alla leið geta notað þurrkaða og ferska ávexti í stað sykurs. Ávextirnir innihalda jú mikla sætu eða ávaxtasykurinn, sem bragðast dásamlega og líkaminn er sáttur við.

Svo er það hveitið. Hvítt hveiti er nú dálítið lummó finnst mér. Dálítið úrelt :o)

Það er hægt að nota margar aðrar skemmtilegar korntegundir í bakstur. Fyrst má þá telja spelt, sem margir þekkja. Það er í lang flestum tilfellum hægt að nota spelt í bakstur, í stað venjulegs hveitis. Speltið er betra að því leyti að það hefur ekki verið ofnotað af manninum eins og venjulega hveitið og þar af leiðandi þola margir það betur.

Það eru til fleiri mjöltegundir eins og bókhveiti, hrísgrjónamjöl, maismjöl og fl. Þessar tegundir eru glútenlausar og lyfta sér því ekki eins vel og speltið. Þær henta þó vel í allskonar pönnubrauð, lummur, klatta og kökur.

Ég á fjöldann allann af uppskriftum af brauði og kökum úr glútenfríu mjöli og þið getið skrifað mér á eig@heima.is og ég skal senda ykkur eitthvað úr safninu. Eins kem ég til með að setja einhverjar uppskriftir inn á síður Heilsubankans.

Nú er mál að opna hugann og gera breytingar.

Hleypa nýjum hlutum inn og njóta þess að gera eitthvað nýtt og spennandi.

Hver og einn gerir þetta á sínum hraða og gerir sitt besta :o)

Ef þið viljið svo gera enn meiri breytingar og ganga lengra, þá er kannski sniðugt að leita sér hjálpar næringarþerapista og stytta sér leiðina.

Hafið það gott og njótið augnabliksins.

Með heilsukveðju,
Inga Kristjánsdóttir,
næringarþerapisti.

Previous post

Er fiskur hollur eða ekki?

Next post

Valhnetur

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *