Lífssýn Hildar

Hverjum myndi detta í hug að fasta á aðventunni?

Í dag er vika liðin af desember og flestir farnir að huga að jólum, gera og græja, auk þess að gera sitt besta í að halda í hefðir eins og jólahlaðborð, jólaglögg, jólasmörrebröð og hvað það allt heitir sem fólk keppist við að merkja við á dagatalinu, allavega í venjulegu árferði.

Ég tel að okkur gangi ágætlega að draga úr kröfunum sem mæður okkar settu á sig á aðventunni, eins og að þvo öll loft, inn í alla skápa, þvo allar gardínum og baka 20 sortir af smákökum.

En þess í stað hefur tilhneigingin verið að fylla tímann með öllu þessu sem á að vera svo notalegt, skemmtilegt og afslappað, en skapar samt gjarnan streitu og kapphlaup við tímann. Fyrir utan allt þetta sem ég taldi upp hér fyrir ofan, þá þarf líka að baka laufabrauð, baka og skreyta piparkökur með börnunum, gera fallegar skreytingar og skreyta allt hátt og lágt, eiga gæðastundir með börnunum sem er dásamlegt, en líka með öllum vinunum, nánustu fjölskyldu og auðvitað má ekki gleyma allri gleðinni sem þarf að gerast á aðventunni í vinnunni eða með samstarfsfólki og svo þarf jú að versla jólin.

Stóra ábyrgð í þessu kapphlaupi öllu saman bera verslunareigendur og rekstraraðilar veitingahúsa.  Nú „byrjar“ aðventan helst í byrjun október þegar farið er að skreyta í verslunum, svo eru jólahlaðborðin farin af stað í byrjun nóvember, „jóla“tilboðsdögunum rignir yfir okkur og það er enginn maður með mönnum sem er ekki kominn langt með allan undirbúning, búinn að fara á jólahlaðborð og farinn að gúffa í sig smákökunum áður en hin eiginlega aðventa hefst. Jú eðlilega þá hagnast fyrirtækin meira ef við lengjum í þessum tíma sem okkur finnst eðlilegt að gera vel við okkur í mat og drykk, versla meira en venjulega og keyra þessa gleði af stað sífellt fyrr.

Ég er þessa dagana að fasta með fólkinu á framhaldsnámskeiðinu mínu.  Sumir myndu halda að við værum alveg galin að velja þennan árstíma fyrir föstu.  En ég tel að það sé frábært mótvægi við alla þessa neyslu og þrýsting frá samfélaginu, að gíra sig frekar niður, koma sér í jafnvægi og fara hægt inn í gleðina.

Og það er líka áhugavert að huga að því hvað aðventan þýðir og fyrir hvað hún stendur.  Áður en við fórum að kalla þessar fjórar vikur fyrir jól aðventu, þá kallaðist þessi tími jólafasta.  Upphaflegi tilgangurinn með aðventunni var að halda í við sig í mat, á sama hátt og við þekkjum fyrir það sem tíðkaðist fyrir páskana.

Þróunin hefur því farið alveg í hina áttina og það sér ekki fyrir endann á því.

Það er kannski allt í lagi að „leyfa sér“ yfir jólin, en þegar þetta er orðin 2ja mánaða veisla, þá vill fólki reynast erfitt að takast á við líðan sína þegar nýtt ár rennur í garð. Tveir mánuðir eru jú nær því 20% af árinu. Það er því gott að huga að því, sérstaklega á þessum árstíma, hvað við veljum að setja í okkur, með það í huga hvernig okkur langar að líða á líkama og sál. Og það má ekki gleyma því að það er hægt að gera vel við sig í mat, án þess að það sé uppfullt af sykri, hveiti og rjóma, auk þess sem áfengið þarf ekki að vera með í hverri gleðistund 😉  Veljum vel fyrir okkur, bæði í mat og gæðastundum og reynum að fara í gegnum þennan tíma án streitu – förum þetta á gleðinni ☺

Með aðventukveðjum,
Hildur.

Previous post

Það er ekki svo einfalt að komast út af örorku

Next post

Var komin með sjálfsvígshugsanir og fannst hún byrði á fjölskyldunni