Ilmkjarnaolíur
Heilbrigður líkami og hugur er ómetanleg gjöf. Líkaminn er þannig úr garði gerður að hann er þess umkominn að vernda og endurheimta heilbrigði ef honum er gefið tækifæri til þess. Ilmkjarnaolíur geta gert mikið gagn til að viðhalda heilbrigði. Ilmolíur hafa fylgt manninum í gegnum aldirnar til yndisauka og til að bæta andlega og líkamlega heilsu. Ilmlækningar eru meðal elstu lækningaaðferða sem til eru og fundist hefur myndletur allt frá því um 4500 f. Kr. sem staðfestir að Forn-Egyptar notuðu ilmkjarnaolíur til lækninga. Grikkir notuðu kraft úr jurtunum í ilmböð, ilmnudd og til græðslu sára. Litið hefur verið á ilmkjarnaolíur sem ” lyfjaskáp náttúrunnar” og þær notaðar til varnar gegn andlegu og líkamlegu ójafnvægi, ýmist sem ilmur til innöndunar eða sem seyði í nuddolíur og böð. Ilmkjarnaolíumeðferð er góð leið til að njóta þess besta sem sjálf náttúran hefur upp á að bjóða. Segja má að með henni sé komið beint að kjarna málsins hvað varðar náttúrulega aðferð til að efla bæði andlega og líkamalega heilsu. Allar ilmkjarnaolíur eru sótthreinsandi, sumar þeirra vinna gegn veirum, bakteríum og sveppum.
Olían fæst við eimingu á þeim hlutum jurtarinnar er innihalda efnin sem sóst er eftir, t.d. trjám, berki, berjum, fræjum, blöðum, rótum og ávöxtum. Snemma á þessari öld var orðið “ilmþerapía”(aromathérapie) myndað af frönskum snyrtivöruefnafræðingi, prófessor Gottefossé , sem fyrstur manna gerði sér fulla grein fyrir lækningaeiginleikum ilmkjarnaolía. Hann segir frá því hvernig hann hafi af tilviljun, eftir að hafa brennt sig illa á hendinni, hafi stungið henni niður í lavenderolíu og undrast hversu fljótt sársaukinn hvarf og húðin greri án þess að blöðrur mynduðust. Síðar þróuðu dr. Jean Valnet og Marguerite Maury meðferðina og hafa aflað henni viðurkenningar sem læknislist. Nútíma rannsóknir hafa staðfest lækningaeiginleika kjarnaolíu, og nú í dag eru stundaðar vísindalegar rannsóknir á efnum sem ilmkjarna-olíurnar innihalda, og eru þessar rannsóknir stundaðar t. d. í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og víða annar staðar.
Auðvelt er að stunda ilm-meðferð í heimahúsum. Olíu til sjálfshjálpar má anda að sér, nota í bað, og einnig má nota hana sem nuddolíu á húð. Til innöndunar eru olíurnar sérstaklega áhrifaríkar, látnir eru einn til tveir dropar af tiltekinni olíu í skál með rjúkandi heitu vatni. Handklæði er breitt yfir höfuðið og skálina og eimnum andað að sér í u.þ.b. 10 mín. Til notkunar í bað eru látnir 4 – 6 dropar af tiltekinni ilmkjarnaolíu í eina teskeið með rjóma eða hunangi sem síðan er blandað í baðið til að ilmkjarnaolían blandist baðvatninu vel en sitji ekki bara ofaná. Til að nudda á húð, er mjög gott að húðin sé heit og rök þegar olíunni er nuddað á hana. Þegar blönduð er nuddolía eru hlutföllin 50 ml af grunnolíu + 15 dropar af ilmkjarnaolíum. Grunnolíur eru t.d. möndluolía, jarðhnetuolía eða vínberjaolía( grapeseed oil) og síðan eru valdar einhverjar 3- 4 teg. af ilmkjarnaolíum, en aldrei skal setja fleiri en 15 dropa í 50ml grunnolíu. Margar mismunandi blöndur af ilmkjarnaolíum má nota, t.d. rosemary 5 dropa, eucalyptus 4 dropa og lavender 6 dropa í 50 ml af möndluolíu. Þessi blanda er fyrir vöðva og er einnig verkjastillandi.
Ilmkjarnaolíur eru flokkaðar í þrjá flokka, hátóna (top notes), miðtóna (middle notes) og lágtóna (base notes).
Hátóna olíur hafa: örvandi og uppliftandi áhrif.
Miðtóna olíur hafa: áhrif á flest líkamskerfi, og koma á jafnvægi á líkamann.
Lágtóna olíur hafa: slakandi og róandi áhrif.
Olíur er fáanlegar í sumum apótekum og heilsuverslunum. Sérstakrar varúðar skal gætt við kaup á olíum því þær þurfa að vera úr hreinum jurtum og því verður að kaupa þær hjá viðurkenndum söluaðila. Mestu máli skiptir að nota hreinar olíur – gerviefni gefa engan árangur. Ilmkjarnaolíur eru greindar sem líf ( biotic-profile), en gerviefni eru á móti lífi ( anti-biotic/anti-life). Hreinar ilmkjarnaolíur er hægt að nota beint á lifandi vefi án eða með mjög litlum aukaverkunum. Í sumum tilvikum getur mannslíkaminn aðlagast notkun gerviefna, en krefst þá alltaf stærri og stærri skammta. Þetta gerist ekki með notkun ilmkjarnaolía. Sama magn heldur áfram að styrkja og byggja upp lifandi vefi og vinna gegn sýklum.
Ilmkjarnaolíur eru notaðar sem bragðefni í matvælaframleiðslu (peppermint og eucalyptus í sælgætisframleiðslu), í lyfjaframleiðslu (tannkrem, hóstasaft, munnskol o.s.frv.) og til ilmvatnsframleiðslu. Margar þessar olíur eru dýrar þar sem óhemjumagn af jurtum þarf til að framleiða jafnvel lítinn skammt af kjarnaolíu, t.d. til að búa til einn dropa að rosaolíu þarf 80 rósaknúpa. En til sjálfshjálpar þarf olían ekki að vera dýr, þar sem hún er mjög virk og lítið magn dregur langt.
Hér að neðan veiti ég grunn upplýsingar um tíu ilmkjarnaolíur, og megi sú vitneskja verða lesendum gott innlegg til aukinnar vellíðunar og ánægju.
Lavender ( Lavandula angustifolia) Lofnarblóm
Er miðtóna, plöntuhluti; blómið.
Blandast vel með öllum olíum.
Lavender er almennt notuð með í flest allar blöndur vegna þess hve góður jafnvægisstillir hún er.
Lavender er góð gegn; bruna, sólbruna, þurrkablettum, exemi og unglingabólum. Hún er róandi, og virkar gegn kvíða, þunglyndi, svefnleysi, hormónaójafnvægi, mígreni, höfuðverkjum og meltingartruflunum, s.s. niðurgangi.
_______________________________
Rosemary ( Rosmarinus off.ct,cineol) Rosmarín
Er miðtóna, plöntuhluti; blómtoppur og laufblöð.
Blandast vel með lavender og peppermint.
Rosemary er notuð við hverskonar vöðvabólgvandamálum,hún örvar blóðrás, er vatnslosandi, og vinnur gegn appelsínuhúð(cellulitis), bjúg, liðverkjum, gigt, er bólgueyðandi, höfuðverkjum og minnisleysi. Eykur einbeitingu, er gegn þunglyndi, lágum blóðþrýstingi og meltingartruflunum hvers konar, s.s. harðlífi, vindgangi og niðurgangi.
_______________________________
Peppermint (Mentha piperita) Piparminnta
Er miðtóna. Plöntuhluti; blómatoppur og laufblöð.
Blandast vel með rosemary og lemon.
Peppermint er oft kölluð höfuðhreinsir. Hún er notuð þegar flensa er að búa um sig og þá til innöndunar. Fólk sem er með lágan blóðþrýsting ætti ekki að nota peppermint, því hún lækkar blóðþrýsting. Hún er því góð fyrir þá sem hafa háan blóðþrýsting. Peppermint er mikið notuð til að deyfa t.d.vöðvaverki, við höfuðverkjum og mígreni. Einnig er hún notuð við gall- og lifrarvandamálum, gigt og æðahnútum.
_______________________________
Juniper (Juniperus communis) Einir
Er miðtóna. Plöntuhluti; berin sem juniper kjarrið gefur af sér.
Blandast vel með lavender, sandalwood.
Juniper er hreinsandi ( hjálpar til við hreinsun eiturefna úr líkamanum), notuð gegn unglingabólum , kýlum, exemi og appelsínuhúð(cellulitis), er vatnslosandi, styrkir taugakerfið og léttir á kvíða og streitu. Sandalwood og Juniper saman er góð blanda við exemi og þurrki á húð.
_______________________________
Sandalwood (Santalum album) Sandalviður
Er lágtóna. Plöntuhluti; stofninn,olían er inni í trénu.
Blandast vel með lavender, rosemary.
Sandalwood er mikil jafnvægisjurt, notuð við þunglyndi, taugaspennu, streitu, svefnleysi,húðþurrki, psoriasis, magakrampa, niðurgangi, ógleði og hormóna-ójafnvægi. Sandalwood er mjög hreinsandi. Og hún er einnig notuð til slökunar og við íhugun.
_______________________________
Ylang Ylang (Cananga odorata var.genuina)
Er lágtóna. Plöntuhluti; blómið.
Blandast vel með lavender, rose, sandalwood.
Ylang ylang er mikið notuð í ilmvötn. Þessi olía er mjög gagnleg við háum blóðþrýstingi, þunglyndi, spennu, svefnleysi, getuleysi og tíðarvandamálum.
______________________________
Rose (Rose damascena) Rós
Er lágtóna. Plöntuhluti; krónublöðin.
Blandast vel með öllum olíum.
Þessi olía er mjög dýr en það þarf mjög lítið af henni og þessa olíu má nota á kornabörn. Rose er mjög góð fyrir húðina og einnig fyrir sálina. Sagt er að Roseolía opni hjartað. Ef fólk á erfitt með að tjá sig er gott að setja Rose á efri vör til að auðvelda samskipti. Er notuð við lélegri blóðrás, harðlífi, lifrarvandamálum, magabólgu vegna streytu, þunglyndi, svefnleysi, taugaspennu, höfuðverkjum, kvíða, húðvandamálum, sérstaklega þurrki og viðkvæmri húð og einnig er hún kynörvandi.
_______________________________
Lemon (Citrus limon) Sítróna.
Er hátóna. Plöntuhluti; börkurinn
Blandast vel með lavender, pepparmint, rose.
Lemon er hressandi og endurnærandi olía. Er notuð við lélegri blóðrás, styrkir sogæðakerfið, örvar meltinguna, sótthreinsandi, heldur hrukkum í skefjun, við streytu höfuðverk, hún er vatnslosandi, hún gagnast við skordýrabiti og eykur einbeitingu.
_______________________________
Eucalyptus ( Eucalyptus globulus) blágúmmítré
Er hátóna. Plönthluti; laufblöðin.
Blandast vel með lavender, tea tree, rosemary.
Eucalyptus er sótthreinsandi og bakteríudrepandi, hefur kælandi áhrif á sumrin, en verjandi áhrif á veturna, hún er einnig notuð við bruna, herpes, skordýrabiti, gigt, lús, vöðvabólgu, blöðrubólgu, flensu, lágum blóðþrýstingi og hún er vatnslosandi. Þessi olía er hitalækkandi.
_____________________________
Tea Tree (Melaleuca alternifolia)
Er hátóna. Plöntuhluti; laufblöðin.
Blandast vel með Eucalyptus, lemon.
Tea tree olían er sú besta við hvers konar sýkingum s.s ígerð, fótasvepp, bakteríusýkingu og blöðrubólgu. Einnig er hún notuð við áblæstri(herpes), skordýrabiti, unglingabólum, sólbruna og hrúðri á húð.
_______________________________
Öryggisatriði:
Hver og ein ilmkjarnaolía er kratfmikið náttúruafl. Aðgát skal höfð við notkun þeirra.
Hafa ber eftirfarandi í huga:
Þegar um þungun er að ræða eru nokkrar olíur sem ekki má nota. Þær eru: Aniseed, Basil, Camfor, Clove, Hyssop, Cinnnamon, Lemongrass, Nutmeg, Organum, Parsly seed, Sage, Savory, Tharragon, Thyme, Clary sage og Juniper. Clary sage og Juniper má nota eftir 4 mán. meðgöngu.
1. Ef þú ert þunguð, flogaveik(ur), þjáist af of háum blóðþrýstingi eða einhverjum öðrum sjúkdómi, vinsamlegast ráðfærðu þig við lækni eða ilmþerapista áður en þú notar ilmkjarnaolíur.
2. Ilmkjarnaolíur eru ekki til notkunar innvortis. Forðastu einnig að þær komist í snertingu við augun.
3. Settu aldrei óþynntar ilmkjarnaolíur (nema Lavender og Tea Tree) á húðina, því þær geta valdið ertingu eða ofnæmi.
4. Geymdu þær þar sem börn og húsdýr ná ekki til.
5. Geymdu þær fjarri hita og ljósi, í dökkum glösum og notaðu þær innan eins árs frá opnun. Athugið að Cítrusilmkjarnaolíur þarf að nota innan sex mán. frá opnun umbúða.
6. Eitt ber að hafa í huga. Þetta eru sterk jurtaefni sem eru unnin úr kjarna plöntunnar og segja má að við séum með sál plöntunnar í flösku. Hafið skammtana ekki of sterka.
Samskiptum líkama, huga og sálar er þannig farið, að jákvæð afstaða eins hefur áhrif á annað, þannig að ef tekst að halda hugarfarinu jákvæðu með bjartsýni, þá er líklegra að halda megi heilbrigði og sálarstyrk.
Það er löngu kominn tími til að svifta hulunni af ilmkjarnaolíum. Og geta þeir sem áhugasamir eru auðveldlega notað þær, notið áhrifa þeirra og uppskorið ánægju og vellíðan sem er undirstaða heilbrigðis.
Ég lýk þesari grein með að vitna í Dr. Marguerite Maury.
” En mesta furðu vekja áhrif ilmsins á andlegt og sálrænt ástand einstaklingsins. Skynjunin skýrist og verður næmari, og tilfinning vaknar um að sjón sé orðin næmari og dómgreind því hreinni.”
Sigrún Sól Sólmundsdóttir, Svæða og viðbragðsfræðingur og Aromatherapisti frá Lífsskólanum, nú Aromatherapyskóli Íslands. Kennarar voru Selma Júlíusdóttir, Dr. Erwin Haringer og Margréti Demleitner.
Heimildir:
Practical aromatherapy eftir Shirley Price, The Illustrated encyclopedia of essential oils, eftir Juliu Lawless, Nátturulæknir heimilanna, aðalritstjóri Dr. Andrew Stanwey.
No Comment