JurtirMataræðiUppskriftir

Íslensk fjallagrös

Fjallagrös (Cetraria islandica) eru algeng um allt land mest á hálendi og á heiðum, en finnast líka á láglendi. Fjallagrös eru fléttur, sem eru sambýli svepps og þörungs. Um er að ræða samvinnu tveggja lífvera sem báðar hagnast á hvor annarri. Sveppurinn sér fyrir vatni og steinefnum, en þörungurinn myndar lífræn efni með hjálp ljóstillífunnar.

Íslendingar notuðu fjallagrös mjög mikið fyrr á öldum til að drýgja kornmeti í brauð og grauta. Litið var á fjallagrös sem hollan og næringarríkan mat, auðugan af steinefnum og trefjaefnum.

Fjallagrös hafa ýmsa góða eiginleika, sem nýtast vel til lækninga. Þau eru talin hafa mýkjandi og græðandi áhrif á slímhúð í öndunarfærum og meltingarvegi og styrkja ónæmiskerfið. Þau eru sýkladrepandi.

Víða annars staðar í heiminum hafa fjallagrös verið nýtt til lækninga öldum saman, sérstaklega vegna sjúkdóma í öndunarfærum og meltingartruflana.

Fjallagrös eru góð í ýmsan mat, t.d. brauð, grauta og te. Í bakstri fara þau vel saman við spelt. Mjög gott er að setja smávegis af fjallagrösum saman við haframjöl í hafragraut og hafa mulin fjallagrös saman við jurtateblöndur.

Þegar að gert er te úr fjallagrösum skal aðeins láta suðuna koma upp í augnablik, við lengri suðu verða grösin römm.

Fjallagrasate

2 tsk fjallagrös

2-3 dl vatn

Hunang, sítróna

Hellið sjóðandi vatni yfir grösin, látið standa undir loki í 10 mínútur. Bragðbætið með hunangi eða sítrónu.

 

Kvöldte með fjallagrösum

Mulin fjallagrös

Þurrmulin elfting

Þurrmöluð birkilauf og sprotar

Kerfilfræ eða þurrmulinn kerfill

Þurrkað blóðberg

Blandið jurtunum saman að jöfnum hlutum. Hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í nokkrar mínútur.

 

Fjallagrasasúpa

1 pakki fjallagrös

½ lítri vatn

½ lítri mjólk

Salt, hunang

Setjið fjallagrösin í vatnið og látið suðuna koma upp. Bætið mjólkinni í. Takið af hellunni þegar sýður og látið standa í nokkrar mínútur. Saltið og bragðbætið með hunangi.

 

Speltbollur með fjallagrösum

½ kg spelt

1 pakki fjallagrös

1 pakki ger

1 egg

2 msk olífuolía eða kókosolía

½ dl vatn

2 dl mjólk

Setjið fjallagrösin í heitt vatn smástund. Blandið gerinu saman við speltið. Hitið mjólkina, bætið vatninu með fjallagrösunum saman við. Blandið saman við speltið og bætið eggi og olíu í. Hnoðið deigið og látið lyfta sér í 20-30 mínútur. Mótið bollur og bakið við 180 gráður.

Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir

Previous post

Steinselja

Next post

Hvítlaukur

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *