Konfekt
Ljúffengur pistill frá Sollu
Heil og sæl öllsömul
Þá styttist óðum í jólin. Það er oft erfitt að bíða eftir að langir og dimmir dagar líði þegar maður er lítil manneskja. Það sem ég hef gert í gegnum tíðina með mínum dömum er að dreifa huganum við konfektkúlugerð. Þetta er ótrúlega einfalt og fljótlegt, ekkert flókið en mikill gleðigjafi….
Himneskar heilsukúlur á aðventunni.
Þegar ég var lítil elskaði ég að fara í heimsókn til ömmu Sollu. Hún kunni nefnilega að búa til það allra besta sælgæti í öllum heiminum. Þetta voru litlar konfekt kúlur sem voru dýrðlegar á bragðið. Ég átti ótrúlega erfitt með mig þegar ég kom í heimsókn til hennar. Helst vildi ég bara hrópa hæ og hlaupa svo beint í kúlukrukkuna. En ég sat á mér og flýtti mér ansi óþolinmóð að svara kurteisislega öllum spurningunum sem amma spurði um heilsufar fjölskyldunnar og skólann. “Jæja litla nafna mín, með kríueggin (það kallaði amma freknurnar mínar), má bjóða þér einhverja hressingu?” spurði amma síðan í sínum bliða tón. “Ég er alveg rosalega svöng í konfektkúlur”. Ég hafði nefnilega lært af reynslunni að það borgaði sig að koma sér beint að efninu því annars þurfti maður að borða alls konar “ekki konfektkúlur” fyrst. Einstaka sinnum datt ég í lukkupottinn. Það var þegar amma var lens og átti engar kúlur. “Eigum við þá bara ekki að drífa okkur í því að búa til soldinn mikinn helling af þeim amma mín fyrst þú ert svona heppin að hafa mig til að hjálpa þér” spurði ég hana þá í alveg engilblíðum og sykursætum tón. Ég elskaði að fá mjúkt og sætt deigið í litlu lófana mina og rúlla kúlur og sleikja putta og fara í eitthvað ólýsanlegt hamingju rúss yfir því hvað lífið væri dásamlegt.
Konfektkúluást erfist
Eitthvað virðist þessi konfektkúluást vera arfgeng því unglingurinn minn elskar að vera með mér í eldhúsinu og búa til konfekt. Það hefur oftast forgang fram yfir msn, að hanga með vinkonunum, kringluferðir og ýmislegt fleira. Og ég verð alltaf jafn hissa. Stundum koma aukaunglingar með heim úr skólanum og eru ótrúlega fyndnir. Þeir koma til mín með undarlega saklausan og blíðan svip og spyrja með englaröddum hvort hægt sé að búa til konfektkúlur. Þetta er soldið önnur rödd en sú sem mér er svarað með þegar ég spyr hvort búið sé að læra eða álíka. Skrýtið, hvað ég kannast eitthvað við þetta…..
Hollt og gott
Um daginn kom unglingurinn heim í matarpásu með 2 vinkonur. Þær voru búnar að vera á fullu að æfa og undirbúa sig fyrir Skrekk keppni kvöldsins. Ég stóð og var að búa til lífræna múslíkonfektið sem þið fáið uppskriftina af hér á eftir. Þær voru alveg að deyja úr hungri. Ég bauð þeim að fá sér múslí og möndlumjólk. “Æ nei, við erum ekki svo svangar” sagði unglingurinn soldið spældur. “Hvað með soldið konfekt elskan” spurði ég þá í umhyggjusömum tón. “Jess, æði, takk sóó möts” var svarið. Svo fengu þær fulla skál af múslíkonfekti. Síðan urðu augun á þeim eins og undirskálar þegar ég bauð þeim ábót og sagði að ekki væri gott að þær færu svangar upp á svið. Þarna fengu þær góða fitu til að gefa þeim orku, hreint kakó til að halda góða skapinu og sjálfstraustinu og síðan trefjarnar og orkuna úr múslíinu. Alveg brill. Enda voru það 3 ótrúlega sætir unglingar sem voru í miklu stuði, saddar og sælar sem hlökkuðu til að fara að hamast og “massa það” upp á sviði.
Virkið litla putta
Allar þessar uppskriftir eru ótrúlega einfaldar. Þær byggja reyndar á því að þið byrjið á að búa til skammt af súkkulaði. (sjá uppskrift hér) Síðan getið þið leikið ykkur út í hið óendanlega með hráefni, bragð, áferð, lögun og fleira. Það sem ég hvet ykkur því til að gera er að leyfa krökkunum ykkar að taka þátt í þessu með ykkur. Ef skammturinn sem búin er til er of stór má alltaf frysta deigið. Allt þetta konfekt er líka hægt að nota sem kökubotn, þjappa því niður í form og frysta. Svo þegar ykkur vantar kökubotn þá kippið botninum úr frystinum og skellið fullt af frosnum ávöxtum oná. Tilbúið. Hér er alltaf búin til slatti og því er frystirinn vel nýttur og fullur af konfektkúlum og botnum. Það er ótrúlegt hvað ein lítil kúla getur gert fyrir mann þegar sykurlöngunin bankar uppá. Ég hvet ykkur til að vera soldið dugleg og fylla frystinn til að eiga á aðventunni,. Það sem mér finnst kannski enn mikilvægara en hollustan í þessu er samveran með dætrum mínum. Það eru sko mörg leyndarmálin, hlátrarsköllin og tárin sem hafa kryddað konfektkúlurnar…..
Gangi ykkur sem allra best.
Solla
Lífrænt múslíkonfekt
Appelsínukonfekt
Möndlu- og sesamkonfekt
http://www.heilsubankinn.is/vefur/index.php?option=com_content&task=view&id=1082&Itemid=99999999
http://www.heilsubankinn.is/vefur/index.php?option=com_content&task=view&id=1008&Itemid=99999999
Greinin birtist fyrst á vefnum 13. desember 2007
No Comment