Heilsa

Konur og hjartasjúkdómar

Margir vilja álíta að hjartasjúkdómar leggist aðallega á karlmenn. Þetta er alls ekki rétt. Konur fá þó að meðaltali hjartasjúkdóma tíu árum á eftir körlum en batahorfur þeirra eru þá lakari en karla.

Áhættumat hjá konum er einnig oft vandasamara heldur en hjá körlum, þar sem einkenni þeirra eru oft ekki eins dæmigerð og hjá körlum.

Í Bretlandi eru hjartasjúkdómar algengasta dánarorsök meðal kvenna. Um 25% kvenna deyja vegna afleiðinga af hjartasjúkdómum. Konur sem fá hjartaáfall eru ólíklegri en karlar til að lifa það af og ef þær lifa hjartaáfallið af eru þær líklegri til að andast innan árs en karlarnir.

Þannig að það er full ástæða fyrir konur að þekkja vel til aðal áhættuþátta og forvarnarþátta hjartasjúkdóma.

Aðaláhættuþættirnir eru:

  • Reykingar – Það borgar sig aldrei að byrja og það er aldrei of seint að hætta.
  • Getnaðarvarnarpillan – Ef kona reykir og tekur pilluna eru 30 sinnum meiri líkur á að hún fái hjartasjúkdóm. Báðir þessir þættir auka áhættuna einir og sér og áhættan margfaldast ef báðir þessir þættir eru til staðar.
  • Breytingaskeiðið – Estrogen hormónið spilar stóra rullu í að halda hjarta og æðum heilbrigðum. Eftir breytingaskeiðið dregur verulega úr framleiðslu á þessu hormóni og tíðni hjartasjúkdóma rýkur upp.
  • Offita og skortur á hreyfingu
  • Sykursýki – Áhættan á hjartasjúkdómum er sjö til tíu sinnum hærri meðal kvenna með sykursýki
  • Hátt kólesterólhlutfall – Eykur líkurnar á hjartasjúkdómum hjá konum og sérstaklega eftir fimmtugt.

Samkvæmt Hjartavernd er hjartvænn lífsstíll það að reykja ekki, stunda reglulega hreyfingu og gæta að mataræðinu.

Rannsóknir hafa sýnt að hálftíma hreyfing á dag, fimm daga vikunnar eða oftar, dregur verulega úr líkum á hjartasjúkdómum. Hreyfingin styrkir hjartavöðvann, eykur þol, lækkar blóðþrýsting, hefur jákvæð áhrif á blóðfitu og þá sérstaklega á góða kólesterólið, og auðveldar fólki að halda kjörþyngd.

Varðandi mataræðið þarf að hafa EMMin þrjú í huga – rétt Máltíðarmynstur, rétt Magn og réttan Mat. Borða skal reglulega yfir daginn og sleppa ekki máltíðum. Borða skal 4 – 5 sinnum á dag. Þegar kemur að magninu er gott að hafa í huga að fá sér eingöngu einu sinni á diskinn, borða sig ekki saddan og borða ekki eftir klukkan 8 á kvöldin. Og að lokum þarf að huga að góðu mataræði og þar skal huga að fjölbreyttu fæði úr öllum fæðuflokkum, varast óþarfa fitu og þá sérstaklega slæma fitu og óþarfa sykurneyslu.

Hægt er að fara í áhættumat hjá Hjartarannsókn en hún er staðsett í húsnæði Hjartaverndar í Holtasmára 1 í Kópavogi. Áhættumatið stendur öllum opið og kostar það 23.900 krónur. Mörg séttarfélög taka þátt í kostnaðinum. Nánari upplýsingar er að finna á http://www.hjartarannsokn.is/

Previous post

Kalk og D-vítamín gegn beinþynningu

Next post

Góð ráð við kvefi

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *