Lithimnugreining
Lithimnugreining er eins og nafnið gefur til kynna greiningartæki en ekki meðferð sem slík. Lithimna augans er skoðuð og út frá henni má sjá hvaða líffæri eða líkamskerfi eru í ójafnvægi. Lithimnan er það svæði augans sem liggur utan um augasteininn.
Lithimnugreining getur sagt til um hvaða líffæri eða líkamskerfi eru viðkvæmust fyrir hrönrnun og álagi hjá viðkomandi einstaklingi. Meðal annars má sjá ástand líffæra, uppsöfnun eiturefna, sýrustig líkamans og bólgumyndanir.
Með lithimnugreiningunni er hægt að gera sér grein fyrir heildarmynd líkamans og þannig er betur hægt að átta sig á hvaða meðferðir gætu hentað best í hverju tilfelli.
Lithimnugreining eða augnlestur er sú list og þau vísindi að skoða litu- og hvítu augans. Með lithimnugreiningu er hægt að læra margt um eigin heilsu; veikleika og styrkleika líffæra og líffærakerfa og ójafnvægi á öllum sviðum þ.e.a.s. bæði líkamlegum og andlegum. Lithimnugreining er ekki sjúkdómsgreining eða spádómur, frekar er litið á sjúkdóma sem afleiðingu af óheillaþróun og reynt að finna leiðir til að koma á jafnvægi og styrkja veik svið eða líkamskerfi.
Farida Sharan náttúrulæknir og stofnandi the School of Natural Medicine í Boulder Colorado (með útibú í Englandi, Ástarlíu, Thailandi og Íslandi), notar lithimnugreiningu sem kjarna í náttúrulækningum sínum. Þeir lithimnufræðingar á Íslandi sem eru félagar í Bandalagi Íslenskra græðara (BIG) hafa allir numið við skóla Faridu Sharan. Farida þróaði sitt eigið kerfi í lithimnugreiningu sem er mjög vel sett fram í bók hennar: “Herbs of Grace; Becoming Independently Healthy”. Kerfið hennar tekur mið af þeirri heildarspeglun sem grunnmynstur augans gefur. Í bókinni má einnig fræðast um athyglisveðan bakgrunn Faridu; hvernig hún tókst á við brjóstakrabbamein á þrítugsaldri og fór í gegnum heilun með náttúrulegum aðferðum s.s. föstum, jurtum, svæðanuddi og böðum. Þessi reynsla hennar kom henni af stað í nám í náttúrulækningum og síðar lithimnugreiningu sem varð hennar aðaltæki til greiningar á ástandi líkamans.
Augað er líffæri sem þroskast mjög snemma á fósturskeiði, strax á nokkurra vikna gömlu fóstri má sjá augnkúluna myndast útfrá taugaknippi sem myndar stjórnstöðvar og taugakerfi. Þessi staðreynd er vísbending um mikil tengsl augans við öll líkamskerfi í gegnum heilann og taugakerfið.
Helstu grunngerðir lithimnunnar sem Farida fjallar um eru:
Viðvkæmt sogæðakerfi: Einkenni í lithimnunni eru hvítir hnoðrar eða ský sem oftast liggja utarlega í auganu.
Viðkvæmt innkirtlakerfi og tengsl meltingar og tilfinninga: Einkenni hennar eru opin svæði og lauf hér og þar.
Viðkvæmt taugakerfi lýsir sér í fínlegum lithimnutrefjum sem flækjast þegar nær dregur útjaðri litunnar.
Tengsl taugakerfis og meltingar: Sjá má geisla liggja útfrá augsteini stutt eða langt útí lituna og á móti má oftast sjá tauganæmnisbauga liggja þvert á geislana.
Blönduð gerð og flauelsbrún lithimna hafa brúna litinn ráðandi en brúnn og blár eru grunnaugnlitir, aðrir litir eru mismunandi samsetning af þeim.
Stirðnandi flæði er lithimnugerð sem er áunnin (ekki meðfædd). Einkennin eru skeljalitaður baugur sem leggst yfir lithimnuna. Þessi baugur byrjar oftast að myndast í útjaðri litunnar en getur stækkað og þéttst ef ekkert er að gert. Þennan hring má oft sjá í augum eldra fólks en líkamleg einkenni geta verið stirðnun, æðakölkun og minnisleysi. Til að sporna gegn þessari þróun er mikilvægt að minnka álag á lifrina, hreyfa sig og borða mikið af grænmeti, fræjum og heilkorni.
Allar hafa augngerðirnar sína veikleika og styrkleika. Sumir hafa því viðkvæma meltingu og verða að gæta vel að því hvað þeir borða og hvernig, aðrir hafa frekar viðkvæmni í taugakerfinu og eru því næmari fyrir vandamálum tengdum streitu og álagi.
Augað er kortlagt líkt og t.d. ilin og orkubrautir líkamans. Í lithimnukortinu er það meltingarvegurinn sem liggur innst við augasteinin og fyrir utan hann liggja önnur líffæri, yst eru hringrásarkerfi og húðin. Frá miðjunni þ.e. maga, smáþörmum og ristli eru tengsl í gegnum taugakerfið út í öll önnur líffæri og líffærakerfi. Meltingin er því augljóslega miðpunkturinn.
Lithimnufræðingur vinnur gjarnan útfrá þeim hugmyndum að miðjan skipti höfuðmáli og heilsuleysi stafi einkum af því að líkaminn nærist ekki nógu vel, fái ekki rétta næringu eða taki ekki upp næringuna og/eða losi sig ekki nægilega vel við úrgangsefni. Orsakir þessa geta verið fjölmargar og það bitnað mismikið á hinum ýmsu líffærum og líffærakerfum. Ástæðurnar gæti verið að finna á tilfinningasviði eða átt frekar rætur að rekja til efnislegra lifnaðarhátta.
Oft má sjá ýmsa uppsöfnun og liti liggja á maga og ristilsvæði og þetta dregur óneitanlega athygli greinandans að þessum líffærum eins þarf að skoða vel kragann sem liggur umhverfis meltingarlíffærin því hann segir til um tengsl taugakerfisins við næringarbúskapinn. Þar birtist líka ástand ónæmiskerfisins. Útbungandi kragi sem teygir sig út í líffæri gefur lithimnufræðingi vísbendigar um hvar veikleikar í risti geta haft bein áhrif á líffæri sem liggja samhliða í lithimnunni þó svo staðsetning þeirra í líkamanum sjálfum sé ekki svo náin líffræðilega.
Lithimnufræðingur hefur lítið að gera með sjúkdómsgreiningar læknisfræðinnar vegna þess að hann er fyrst og fremst að styðja við manneskjuna í heild en ekki einkenni og það getur verið manneskjum til trafala að hafa sjúkdómsstimpil á sér. Alveg sama hver sjúkdómurinn er, hann er oftast ferill ójafnvægis og á sama hátt getur líkaminn leiðrétt sig og styrkt fái hann réttu tækin til þess og rétta hugarfarið. Sjúkdómsgreiningar leiða stundum til þessa að fólk tekur ekki ábyrgð. Það verður fórnarlamb þess að vera veikt og lyf og plástrar eru “lausnir”, í stað þessa að snúa vörn í sókn og sjá tækifæri í því að geta leiðrétt mistök. Þetta krefst oftar en ekki fórna og umbreytinga. Þetta er síður en svo alltaf auðvelt vegna þess að “sjúkdómar” eru gjarnan afleiðing af lífsstíl þar sem fléttast saman allir þættir þess að vera manneskja. T.d. hvað maður borðar, hvernig maður borðar og hvernig maður nærist, hvernig maður hreyfir sig og hve mikið, hvernig maður skemmtir sér og hvernig maður hvílist og hvernig líkaminn losar sig við úrgangsefni. Þetta á allt við um öll svið, líkamleg, andleg og tilfinningaleg. Þetta snertir venjur okkar og siði og því ræðst árangur oftast af því hve tilbúinn maður er til að takast á við “venjur sínar”.
Það er lithimnufræðingsins að skoða og forgangsraða þeim merkjum sem hann sér í auganu. Til úrbóta eru gefnar ráðleggingar um lífsstíl og getur það snert alla fleti tilverunnar, s.s. fæði, hreyfingu, hvíld og hegðun eins og t.d. það hvort maður er í rétta starfinu. Ef maður er ekki ánægður í vinnunni getur það vissulega farið að setja mark sitt á líkamann. Það er tölfræðilega talað um að aðeins um 25% skjúkdóma megi rekja til beinna líkamlegra þátta, annað er huglægt, andlegt eða tilfinningalegt.
Í lithimnugreiningu er lithimnan teiknuð upp eða teknar eru ljósmyndir af auganu og í dag hefur stafræn ljósmyndun rutt sér til rúms og úrvinnslan er því fljótleg, myndirnar eru settar í tölvuna samstundis. Þar er hægt að skoða allt niður í minnstu smáatriði en oftast eru það heildarmynstur og litir sem mest er horft til. Við sjáum t.d. gulan lit ef nýrun eru veik og brúnan lit ef álag er á lifrinni, það birtist einnig oft í hvítunni. En ljósmyndir af öllum 4 hliðum hvítunnar gefa einnig ítarlegar upplýsingar. Þar er horft á lit og lögun rauðu æðanna og lit hvítunnar sjálfrar. Hvítan er kortlögð á sama hátt og lithimnan en vísindi hvítufræða eru yngri eins og þau þekkjast í dag, þó að aldagömul kort hafi fundist m.a. í Kína af teikningum manna af hvítunni og þeim æðum sem þar má sjá.
Vísindamenn lithimnufræðanna hafa starfað í flestum heimsálfum síðustu 200 árin en fræðin á okkar tímum hafa þróast mikið á því tímabili. Upphafsmaðurinn sem oftast er nefndur til sögunnar er ungverskur læknir, Ignatz von Peczely, sem 11 ára gamall gómaði fótbrotna uglu. Preczel varð starsýnt á rauða æð sem hann sá myndast í auga uglunnar. Eftir þetta beindist athygli hans að áferð og litum augnanna og hann vann m.a. að þróun augnkorta. Fleiri rannsakendur bættu smátt og smátt upplýsingum á kortin og eitt stærsta nafnið í lithimnufræðum er án efa náttúrulæknirinn Dr. Bernard Jensen (25.03.1908 – 22.03.2001). Í nýjársbréfi sem Dr. Jensen skrifaði á vefsíðu sína aðeins fáum vikum áður en hann lést, þá 92 ára að aldri, segir hann m.a. að það sé í hans huga ekki vafamál, eftir 60 ára farsælan starfsferil, að næringin skiptir mestu máli fyrir heilsuna og að lithimnugreining sé hin skapandi leið sem gefur innsýn í ástandið í gegnum glugga augans og sé þannig fyrirtaks forvarnarleið.
Það hvernig lesið er úr augunum er kannski ekki alltaf einfalt, þó svo svörin “liggi í augum uppi”. Galdurinn er að “sjá” hvað líkaminn er að segja okkur í gegnum lituna og hvítuna og hvernig helst má hjálpa manneskju áfram til að hlúa að sér og lifa heilbrigðu og góðu lífi.
Helstu vísindamenn hvítufræðanna eru í Bandaríkjunum og má án efa nefna Dr. Leonard Mehlmauer, og fyrirtæki hans Grand Medicine, fremstan meðal jafningja.
Dr. Leonard kom hingað til lands síðasta sumar ásamt samkennara sínum Nenitu Sarmiento, með stutt kynningarnámskeið og þau munu í maí verða með fullt námskeið í hvítufræðum. Hvítugreining styður gríðarlega mikið við lithimnufræðin þar sem hún skrásetur það sem er að gerast . Lithimnan segir meira til um meðfædda veikleika og styrkleika. Mikilvægar upplýsingar geta komið fram í hvítunni svo fljótt sem þremur dögum eftir að eitthvað mikilvægt gerist í líkamanum. Í hvítunni birtast m.a. áhrif lyfja og eiturlyfja (líkaminn gerir ekki greinarmun á lyfjaflokkum), þar má sjá tilvist og afleiðingar sníkjudýra, óeðlilegan vefjavöxt og flest önnur óæskileg áhrif á líkamann, ekki aðeins þar sem þau eru heldur hvaðan þau koma. Hvítugreining getur nýst sem sjálfstætt fag og hentar vel sem stuðningur fyrir alla sem vinna við heilsu og forvarnir. Hvítugreining er einfaldur stökkpallur fyrir þá sem vilja feta nýjar brautir. Margir læknar (sérstaklega í Evrópu) hafa tekið sig til og lært hvítufræði vegna þess að hvítan er lifandi skjár sem glugga má í án inngripa eða stórkostlegs kostnaðar. Auðveld, ódýr leið til að kíkja á ástand líkamans. Lilja OddsdóttirHöfundur er lithimnufræðingurog formaður Félags lithimnufræðinga
Heimildir:
Sharan, Farida; “Herbs of Grace; Becoming Independently Healthy” 1994 Farida Sharan Colorado USA www.purehealth.com
Leonard Mehlmauer; Sclerology A New View of An Ancient Art. 2002 Leonard Mehlmauer Nevada USA.
Jensen, Bernard; Iridology simplified. Bernard Jensen. California USA.
Jensen, Bernard; http://www.bernardjensen.org/
No Comment