Magahjáveituaðgerðir
Í Morgunblaðinu um helgina var grein um magahjáveituaðgerðir fyrir offitusjúklinga og var rætt við Hjört G. Gíslason skurðlækni, en hann stjórnar magahjáveituaðgerðum á Norðurlöndum.
Í þessari grein í Morgunblaðinu var helst rætt um kosti slíkra aðgerða og mun ég hér fara yfir helstu þætti sem þar voru nefndir. Einnig hef ég sett saman grein þar sem farið er í gegnum helstu fylgikvilla slíkra aðgerða sem lesa má hér.
Magahjáveituaðgerðir hafa verið framkvæmdar á Íslandi í 8 ár og hafa 510 manns farið í slíka aðgerð. Í dag eru þessar aðgerðir um 100 á ári og fer fjölgandi.
Samkvæmt Hirti Gíslasyni duga megrunarkúrar, líkamsþjálfun, lyf eða hugræn atferlismeðferð ekki þeim offitusjúklingum sem eru með þyngdarstuðulinn BMI yfir 40. Aðalsökudólgurinn er sennilega hormónið ghrelin sem er framleitt í maga og efri hluta mjógirnis.
Ghrelin er oft kallað sultarhormónið og er álitið jafnávanabindandi og heróín. Ef fólk léttist hratt þá mælist mjög hátt hlutfall ghrelins í blóði sem skapar svengdartilfinningu og stöðuga löngun í mat. Þetta hormón reynir að viðhalda fyrri þyngd einstaklings og getur tekið upp í 4 – 5 ár að forrita líkamann inn á nýja þyngd.
Í magahjáveituaðgerð er meltingarvegurinn styttur þannig að tengt er framhjá 95% magans, tengt er framhjá skeifugörn og efri hluta mjógirnirsins. Á þennan hátt er tengt framhjá þeim stað sem orsakar framleiðslu á ghrelin hormóninu og helst framleiðsla þess í stað, þrátt fyrir að sjúklingurinn léttist hratt eftir aðgerðina og getur hann misst allt að 60 kíló án þess að magn ghrelins hækki.
Hjörtur segir að 88% þeirra sem fara í magahjáveituaðgerð nái góðum bata en ekki er greint frá því í viðtalinu í hverju hann felst. Hjörtur segir jafnframt að einstaklingarnir nái að meðaltali um 80% af umframþyngd af sér á einu og hálfu ári en ekki er talað um árangur til lengri tíma.
Fylgikvillar offitu minnka og jafnvel hverfa við minnkandi líkamsþyngd, eins og sykursýki II, astmi, mígreni, þunglyndi, of hár blóðþrýstingur og ófrjósemi sem orsakast hefur af offitu.
Lífslíkur þessa fólks aukast að jafnaði um 10 til 11 ár. Líkur á að deyja úr hjartaáfalli minnka um 50% og líkur á að fá hormónatengt krabbamein minnkar jafnframt um 50 – 60%.
Hjörtur segir að nýjar rannsóknir sýna að skurðaðgerð sé vænlegasta leiðin til árangurs við meðferð á sjúklegri offitu. Sjúklingar sem ná langtímaárangri með öðrum aðferðum eru í besta falli um 3% þeirra sem eru með BMI hærri en 40.
Hjörtur nefnir að reglubundið eftirlit sé lykillinn að góðum bata eftir aðgerð. Hann segir þó að margir komi ekki í þetta eftirlit vegna fordóma í samfélaginu. Til að mæta þessum fordómum reynir fólk jafnvel að afneita fyrri offitu.
Hjörtur segir að sjúklingar sem fara í svona aðgerð þurfa að skuldbinda sig til þess að taka inn ákveðin vítamín og steinefni og að vera í ævilöngu eftirliti í formi blóðrannsókna. Ábyrgð á þessum þáttum er hins vegar alfarið í höndum sjúklinganna sjálfra og þurfa þeir að passa upp á þessa þætti. Hjörtur segir að ekki sé hægt að elta fleiri hundruð sjúlinga út um allan heim, en þeir sem mæti í blóðprufurnar og taki inn bætiefnin fái frábæran árangur eftir aðgerðina.
No Comment