Greinar um hreyfinguHreyfing

Mikilvægi markmiða þegar kemur að ástundun líkamsræktar

Grein fengin frá Þjálfun.is 

Aðalmálið með að setja sér markmið þegar kemur að ástundun líkamsræktar, er að þau séu raunhæf, að þú trúir því að þú getir náð þeim og að þau séu mælanleg, t.d. að lækka hjartsláttinn, minnka fituprósentuna, léttast um viss mörg kíló o.s.frv.

Við skiptum markmiðunum okkar í þrjá flokka:

Skammtímamarkmið, en það eru frekar auðveld markmið sem koma okkur á sporið í átt að lokatakmarkinu. Skammtímamarkmiðin veita þér mikla gleði þegar þeim er náð og halda baráttuandanum við á leið þinni að stóra sigrinum. Reyndu að vera nokkuð nákvæm(ur) þegar þú setur þér skammtímamarkmiðin, hafðu þau það erfið að þú þarft að hafa fyrir þeim en ekki þannig að þú gefist upp á þeim. Mundu að þú þarft að sýna ákveðni og viljastyrk, en ef þú gerir það færðu það þúsundfalt til baka. Skammtímamarkmið ættu að ná yfir u.þ.b. 4 – 6 vikur og geta t.d. verið að mæta 1 – 2 sinnum í ræktina, borða hollt alla vega einu sinni á dag eða neita sér um einhverja freistingu.

Miðtímamarkmiðin þín eru framlenging á skammtímamarkmiðunum og eiga að ná yfir 4 – 12 mánuði. Þar herðirðu aðeins á skemmri markmiðum þínum og getur farið enn lengra með þau. Á miðtímanum ertu farinn að sjá virkileg áhrif frá æfingunum og breytta mataræðinu, þú finnur mun á fötum, hvíldarpúlsinn er lægri, þú ert léttari og fituprósenta þín hefur lækkað. Þú finnur jafnvel fyrir skapferlisbreytingum eins og aukinni einbeitingu og þolinmæði og meira sjálfstrausti. Miðtímamarkmiðin þurfa að vera meira krefjandi en skammtímamarkmiðin en þó aldrei svo að þér finnist allt vera kvöð á þér, fyrst og fremst á þetta að vera gaman og þú átt að hlakka til næstu æfingar en ekki kvíða fyrir henni.

Langtímamarkmiðin eru í raun fínpússuð miðtímamarkmið. Þau eiga að ná yfir lágmark eitt ár og helst að endast alla ævi. Langtímamarkmiðin eiga að vera þau að þú sért sáttur við eiginn líkama og heilsu og að þú búir í líkama sem veitir þér sjálfstraust og gleði. Hollt mataræði og regluleg hreyfing eiga að vera orðin hluti af þínu nýja lífi og þú hefur nú þá þekkingu á þínum eiginn líkama að þú veist hversu miklar æfingar og hversu strangt mataræði hann þarf til að virka eins og honum er ætlað.

Þó að allt þetta hljómi vel og virki auðvelt er langt í frá að svo sé. Það munu koma upp hundruð augnablik þar sem þér mun finnast þetta mjög erfitt og það munu koma upp vandamál sem þér finnast jafnvel óyfirstíganleg. Þú munt freistast til að sleppa æfingu og þú munt freistast til að fá þér nammi þegar þú ættir að fá þér epli. Það mikilvægasta er að þú gerir þér grein fyrir þessu öllu frá upphafi og ætlir ekki að fara af stað án þess að falla nokkurn tíma af baki.

Málið er ofur einfalt, Það falla nær allir einhvern tímann á markmiðum sínum, fyrstu vikuna, fyrsta daginn eða jafnvel fyrsta klukkutímann. Það er enginn fullkominn. Að þú sért að gera betur í dag en í gær og betur þessa vikuna en þá seinustu er það sem skiptir máli, aldrei gleyma því.

Sjá einnig: Að setja sér “rétt” markmið

Previous post

Dönsum á okkur fallegan maga

Next post

Að setja sér "rétt" markmið

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *