Pizzur og pizzubotnar
Inga Kristjánsdóttir næringarþerapisti sendi okkur eftirfarandi uppskriftir
Góðan og blessaðan daginn.
Hérna fáið þið tvær uppskriftir af fyrirtaks pizzubotnum. Annar þeirra er glútenfrír en hinn úr spelti.
Allt of margir halda að pizzur þurfi að vera einhver bannvara, en ef við opnum aðeins hugann og prufum nýja hluti þá geta þær svo sannarlega verið bæði hollar og góðar.
Ég mæli alltaf með að nota lífræna pizzusósu, þær eru margar einstaklega ljúffengar. Auðvitað eru svo einhverjir sem búa til sína eigin sósu úr gæða hráefni og auðvitað er það bara frábært.
Ef fólk hefur óþol fyrir tómötum þá má nota einhvers konar pestó í staðinn.
Margir þola ekki venjulegan ost og sumir geta þá nýtt sér soyaost en hann inniheldur þó mjólkurprótein (casein). Það er alls ekkert nauðsynlegt að hafa ost á pizzum!
Ef nóg er af öðru áleggi, olíu og sósu þá saknar maður ekki ostsins :o)
Að öllu þessu venjulega áleggi slepptu, vil ég koma með eftirfarandi hugmyndir:
Afgangar af lambakjöti eða kjúklingi, túnfiskur, rækjur, reyktur lax, tofu, fræ og hnetur (furuhnetur æðislegar), ólífur, spergilkál, kúrbítur, eggaldin, kartöflur, tómatar, sólþurrkaðir tómatar, ætiþistlar, paprika, laukur, hvítlaukur, spínat, klettasalat, kapers, sveppir, epli, bananar, ananas og fleira og fleira.
Þegar ég geri pizzu, þá helli ég alltaf vænum slurk af ólífuolíu yfir pizzuna áður en ég baka hana og nota svo kryddaða olíu (t.d. hvítlauks) til að hella yfir áður en ég borða hana.
Bon apetit!
Kveðja,
Inga.
Pizzubotn úr spelti
- 1 ½ dl. gróft spelt
- 1 ½ dl. fínt spelt (þessum hlutföllum má breyta)
- 3 tsk. vínsteinslyftiduft
- 2 msk. extra virgin ólífuolía
- Krydd að vild, t.d. oregano, salvía, steinselja eða basil.
- Smá salt
- Vatn
Blandið saman spelti, lyftidufti, kryddi og salti.
Bætið olíunni saman við.
Síðast kemur vatnið og það á að vera það mikið að þið náið að hræra deigið saman í passlega blautan massa til að hnoða.
Hnoðið svo deigið, samt eins lítið og mögulegt er.
Fletjið út og setjið á bökunarplötu.
Þessi uppskrift gefur einn stóran botn.
Glútenlaus pizzabotn
- 1 bolli maismjöl
- 1 egg
- 1 msk jómfrúar-ólífuolía
- Krydd eftir smekk (oregano, basil, hvítlaukur )
- ½ tsk salt
- soyamjólk þar til þunnt á við vöffludeig.
Blandið saman í skál, maismjöli, kryddi, olíu og eggi.
Þynnið út með soyamjólk þar til þunnt á við vöffludeig.
Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og hellið deiginu á.
Bakið við 200°c í ca. 3 mín. eða þar til aðeins storknað.
Takið út og raðið áleggi á og bakið svo aftur í ca. 10 mín.
Uppskriftir: Inga Kristjánsdóttir – Næringarþerapisti D.E.T.
No Comment