Skammtafræði (Quantum Physics)
Margir hafa verið að horfa á myndina “The Secret” upp á síðkastið og langar mig til að reyna að útskýra fyrir ykkur á hvaða vísindum hún byggir. Myndin byggir á kenningum um skammtafræði sem er grein innan eðlisfræðinnar.
En myndin á þó meira skylt við heimspeki og trúfræði þar sem ekki liggja fyrir almennar vísindafræðilegar rannsóknir að baki hennar. Þó eru til rannsóknir sem hægt er að styðjast við en þær eru komnar allt of skammt til að hægt sé að tala um eiginleg vísindi.
Ég ætla sem leikmaður að reyna að útskýra fyrir ykkur út á hvað þetta gengur allt saman.
Þegar skammtafræðin kom fram í eðlisfræði fór mikil gróska af stað bæði í heimspeki og trúfræði. Þarna var komið fram eitthvað sem virtist ekki eiga algild svör og endanlegar mælingar.
Skammtafræðin snýst um minnstu einingar sem við þekkjum og hegðun þeirra, eins og róteindir og rafeindir eða jafnvel eindir sem mynda róteindir og nifteindir í kjarnanum á atómi. Það virðist sem að þessar smæstu einingar hegði sér á einhvern annan hátt heldur en eðlisfræði stærri hluta segir til um.
Það virðist sem að þessar agnir hegði sér ekki allar eins þó að sama orsökin sé fyrir hreyfingu þeirra. Þannig að þarna er eitthvað fyrir hendi sem hin klassíska eðlisfræði getur ekki skýrt, þarna á ekki við að ef eitthvað ákveðið gerist þá sé hægt að spá nákvæmlega til um útkomuna.
Eðlisfræðin hefur ekki getað komið með neina ákveðna, algilda skýringu á þessu fyrirbæri og ekki er hægt að finna formúlu til að reikna nákvæma útkomu á hegðun þessara agna.
Margir og þá flestir utan eðlisfræðinnar, vilja meina að þarna sé komin skýringin á því sem við köllum Guð. Til dæmis hefur komið fram kenning í guðfræði sem kallast Process-guðfræði en hún gengur út á að Guð er ekki einhver utanað komandi vera í mannsmynd sem fylgist með heiminum frá hliðarlínunni heldur umleikur hann veröldina. Og samkvæmt þessari kenningu stjórnar Guð ekki heiminum með harðri hendi, heldur hefur eingöngu áhrif á hann og á sama hátt getur heimurinn haft áhrif á Guð.
Í skammtafræðinni hafa komið fram rannsóknir sem sýna að rannsakandinn sjálfur geti haft áhrif á hegðun agnanna og þá ekki með gjörðum sínum heldur eingöngu með líðan sinni. Þannig að tilfinningalegt ástand rannsakandans virðist geta haft áhrif á niðurstöðu rannsóknarinnar.
Þetta hefur leitt af sér kenningar um að hugsun og tilfinningar geti haft áhrif á efnið. Margir hafa horft á myndirnar “What the bleep do we know” og “The Secret” sem ég nefndi hér á undan, en þær fjalla um þessar kenningar. Þessar myndir eiga þó meira skylt við trú heldur en vísindi þar sem þær eru ekki hlutlausar og ganga út á að sýna okkur fram á ákveðinn sannleika.
En það kemur ekki að sök hjá mér þar sem þessar myndir falla vel að minni trú um lífið og tilveruna.
Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum í október 2006
No Comment