Frekari meðferðirMeðferðir

Starfsleyfi í nálastungum

Ég rakst á grein í Morgunblaðinu, 9. október, þar sem Ríkharður Mar Jósafatsson skrifaði um baráttu Nálastungufélags Íslands fyrir að fá löggildingu á starfsgrein sína.

Þar stendur m.a. að heilbrigðisráðherra sé hlynntur nálastungum og hafi lýst áhuga á að skoða samstarf á milli íslenskra og kínverskra heilbrigðisyfirvalda. Á sama tíma fá félagar í Nálastungufélagi Íslands ekki starfsleyfi á Íslandi.

Ég sló á þráðinn til hans og spurði hann nánar út í þessa baráttu.

Ríkharður segist vera búinn að vera að eltast við kerfið með þessi mál í mörg ár og af fullum þunga frá árinu 2000 eftir að hann fluttist heim frá Bandaríkjunum. Ríkharður útskrifaðist úr námi 1993 frá International Institute of Chinese Medicine sem Doctor of Oriental Medicine í New Mexico fylki í Bandaríkjunum.

Hann kveðst vera ósáttur við að á sama tíma og félagar í Nálastungufélagi Íslands fái ekki starfsleyfi, fái stéttir innan hins hefðbundna heilbrigðiskerfis leyfi til að nota nálar í sínum meðferðum. Þessir aðilar eru oft eingöngu með einhver 2 helgarnámskeið á bak við sig á meðan að Félagar í Nálastungufélaginu eru með að lágmarki 3ja ára menntun í faginu.  

Heilbrigðisstéttir geta fengið leyfi til að stunda nálastungur samkvæmt reglum sem Landlæknisembættið hefur sett. Ríkharður leitaði álits umboðsmanns Alþingis hvað þetta varðar og gaf hann út álit sitt 7. mars 2002. Þar segir m.a.:

Benti umboðsmaður á að hvorki yrði ráðið af ákvæðum laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, né laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, að þar væri að finna heimild fyrir landlækni til að setja reglur um hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að veita nálastungumeðferð

Og á öðrum stað segir:

Var það niðurstaða umboðsmanns að í gildandi lögum væru ekki fullnægjandi valdheimildir fyrir landlækni til að setja reglur um að einungis viðurkenndar heilbrigðisstéttir hefðu heimild til að stunda nálastungumeðferð og að „öllum þeim” sem hygðust stunda slíka meðferð bæri að sækja um leyfi til landlæknis.

Álit umboðsmanns Alþingis má lesa í heild sinni á slóðinni: umbodsmaduralthingis.is

Þetta álit umboðsmanns var eins og fyrr segir gefið út á árinu 2002 en engu og síður er landlæknir enn að veita þessi leyfi.

Ég hafði einnig samband við sjúkraþjálfara sem notast við nálar í sinni meðferð og tjáði hann mér að hann hefði fengið leyfi frá Landlæknisembættinu. Í leyfinu kemur fram að viðkomandi er eingöngu heimilt að nota nálar í meðferð við stoðkerfisvandamálum.

Ég spurði Ríkharð hvar heilbrigðisstéttir fengju þessa kennslu í notkun nála og vissi hann af því að Magnús Ólason, læknir á Reykjalundi hefði meðal annars verið með námskeið í nálastungum.

Ég fann grein eftir Magnús á vef Reykjalundar þar sem hann er að skrifa um gagnsemi nálastungumeðferðar: reykjalundur.is

Í greininni segir m.a.:

Dauðsföll hafa orðið í kjölfar nálastungumeðferðar í höndum leikmanna á Vesturlöndum. Stungið hefur verið í innri líffæri og einnig eru dæmi um blóðsýkingu sem leitt hefur mikið veikt fólk til dauða. Einnig hafa aðrar misalvarlegar afleiðingar rangrar meðferðar eða rangra ábendinga verið skráðar. Því hefur verið lögð á það rík áhersla að þeir sem stunda nálastungumeðferð hafi grunnþekkingu í líffærafræði, smitvörnum og sjúkdómsgreiningu svo forðast megi alvarleg óhöpp. Sá sem stundar nálastungur verður að vita vel um takmarkanir meðferðarinnar og hafa þekkingu til að greina milli sjúkdóma sem geta gefið svipuð einkenni. Hann má heldur ekki gleyma öðrum lækningaaðferðum sem kunna að eiga betur við eða geta jafnvel skipt sköpum fyrir hinn sjúka. Af þessum ástæðum hafa heilbrigðisyfirvöld mælt með því að nálastungur séu einungis stundaðar af læknum (og tannlæknum) sem hafa aflað sér sérþekkingar á þessu sviði. Í sumum löndum, m.a. í Svíþjóð, hefur í einstaka tilvikum verið veitt undanþága til hjúkrunarfræðinga og sjúkraþjálfara til að beita þessari lækningaaðferð eftir sérstakt nám, enda starfi þessir aðilar þá í náinni samvinnu við lækni.

Og á öðrum stað segir Magnús:

Á ráðstefnu um óhefðbundnar lækningar sem haldin var í Róm í október 1990 rakti fulltrúi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) stefnu stofnunarinnar varðandi nálastungumeðferð (4). Í máli hans kom fram að stofnunin viðurkennir nálastungumeðferð og hvetur til frekari rannsókna á áhrifum hennar. Á ráðstefnunni kom fram að í Evrópu legðu 88.000 einstaklingar stund á nálastungumeðferð, þar af væru 70% með læknismenntun. Var niðurstaða ráðstefnunar sú að nálastungulækningar gætu ekki lengur kallast óhefðbundnar.

 Nálastungufélag Íslands lagði inn formlega umsókn um starfsleyfi til Heilsbrigðisráðuneytisins í júní síðastliðinn og enn hafa ekki borist nein svör.

Previous post

Sólhattur

Next post

Stuttir lúrar eru góðir fyrir hjartað

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *