Streita
Streita er það sem að hrjáir alltof marga í okkar nútíma þjóðfélagi. Algengt er orðið að menn og konur, hreinlega verða veik og þurfa að leggjast í rúmið vegna stresseinkenna og ofþreytu.
Hér eru nokkur góð atriði til að hafa í huga þegar að vinnan er farin að valda óþægindum.
- Ekki reyna að gera OF mikið. Oft setjum við sjálfum okkur alltof óraunhæfar kröfur. Það setur okkur oft í þá aðstöðu að við finnum fyrir stöðugri pressu og verður fyrir vikið mun minna úr verki. Minnum okkur sjálf á, að það er allt í lagi að vera ekki alltaf fullkomin.
- Forgangsraðaðu. Það fyrsta sem að þú ættir að gera á hverjum morgni, er að útbúa lista yfir þau verk sem NAUÐSYNLEGT er að gera þann daginn. Byrjaðu svo að vinna. Byrjaðu fyrst á því verkefni sem að er mest áríðandi eða þig kvíðir mest fyrir að gera. Vegna þess að þegar það er búið, líður þér svo vel, að öll hin verkefnin klárast eins og hendi væri veifað, allt leikur í höndum þér. Í lok hvers dags skaltu taka frá 10 mínútur til að yfirfara verkefnalistann fyrir næsta dag.
- Lærðu að segja “NEI”. Oft er það þannig að við tökum að okkur verkefni sem að í raun ættu að vera á borði annarra, því að við erum of hrædd við að styggja einhvern með því að segja nei. Það eru takmörk fyrir því hvað þú getur gert mikið og ekkert athugavert við að viðurkenna það. Ef að yfirmaður þinn er að fara fram á allt of mikið framlag frá þér, skaltu útskýra, rólega og yfirvegað að þú getir ekki klárað allt strax, og því sé best að þið ákveðið saman hvaða verk skuli ganga fyrir. Það er líka hans ábyrgð sem yfirmanns að forgangsraða.
- Skipuleggðu þig og umhverfi þitt. Skrifborðið ætti að vera þannig að þú vitir hvar þú gengur að hlutunum ALLTAF. Farðu í gegnum tölvupóstinn þinn og reyndu að afgreiða hvert mál fyrir sig. Þannig að þú sért ekki með sama málið í höndunum aftur og aftur. Reyndu að forðast það að vera sífellt að kanna hvort að þú hafið fengið nýjan tölvupóst – það eitt getur verið mikill tímaþjófur.
- Þegar um stærri verkefni er að ræða, vertu þá viss um loka skilafrestinn og skipuleggðu plan samkvæmt því. Ekki geyma slíkt verkefni fram á síðustu mínútu – það eitt getur skapað mjög mikið ÓÞARFA stress. Skiptu því upp í smærri einingar og kláraðu eina þeirra á hverjum degi. Þetta gerir verkið mun aðgengilegra og þú endar ekki í tímaþröng og stressi.
- Taktu þér pásu reglulega. Farðu ALLTAF í hádegismat og ef að þú getur, farðu þá smástund út fyrir skrifstofuna og fáðu þér ferskt loft. Það hreinsar hugann og hjálpar til við einbeitinguna á verkefnum dagsins. Ef að þú ert vön/vanur því að vinna mjög langa vinnudaga, reyndu þá að bóka þig a.m.k. einu sinni í viku til að gera eitthvað fyrir þig. Farðu í ræktina, í nudd eða bara að hitta góðan vin. Það fær enginn verðlaun fyrir að mæta alltaf fyrstur og fara alltaf síðastur úr vinnunni. Svo framarlega sem að þú skilar góðu vinnuframlagi og klárar þín verkefni, njóttu þess þá að standa upp og fara heim. Þar bíða oft einstaklingar sem að virkilega kunna að meta það og þakka fyrir að þú kemur fyrr heim.
- Að síðustu vertu viss um að þú takir þér fullt frí. Það er enginn ómissandi – fyrirtækið fer EKKI á hausinn þó að þú farir í burtu í einhvern tíma.
Enginn hefur óskað sér þess á dánarbeðinu, að hann hafi eytt meiri tíma á skrifstofunni. Lykillinn er að jafnvægið sé þannig að þú njótir þess að fara í vinnuna, en kvíðir því ekki og að þú kunnir líka að njóta lífsins fyrir utan vinnunna.
Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir
No Comment