Frekari meðferðirMeðferðir

Svæða- og viðbragðsmeðferð

Svæða- og viðbragðsmeðferð er nuddmeðferð sem beint er að höndum og fótum.

Svæðameðferð byggist á þeirri kenningu að í fótum og höndum séu viðbragðssvæði sem tengist og samsvari hverjum líkamshluta og hverju líffæri líkamans. Ef þessir líkamshlutar eða líffæri eru veikluð að einhverju leyti vegna álags, þreytu eða sjúkdóma verða viðbragðssvæði þessi aum viðkomu. Með því að þrýstinudda þessi viðbragðssvæði næst fram örvun eða slökun í viðkomandi líkamshluta, orkuflæði eykst og lækningamáttur líkamans fer í gang. Súrefnisupptakan í líkamanum verður eðlilegri og andlegt og líkamlegt atgervi eykst.

Svæða – og viðbragðsmeðferð, öðru nafni svæðanudd, er ævagömul handiðn og er sögð eiga rætur sínar að rekja til margra fornra menningarsamfélaga, þar á meðal Egypta, Kínverja, Indverja, Grikkja og Indjána Norður Ameríku.

Á veggmyndum frá 2.300 f.Kr., sem fundust í grafhýsi egypska læknisins Ankhmahars í Sakkara, má sjá tvo lækna nudda fætur og hendur tveggja “sjúklinga”. Forn Kínverjar og Egyptar þróuðu svo þessa þrýstipunkta-aðferð og töldu hana vera gagnlega sjúkrameðferð. Þeir komust að því að fætur eru næmasti líkamsparturinn og hefur að geyma mikil orkugefandi svæði.

Ef farið er aðeins í sögu nútíma svæðameðferðar, þá verður ekki hjá því komist að nefna fyrstan  bandaríska háls-, nef-, og eyrnalæknirinn, Dr. William Fitzgerald, sem endurvakti svæðameðferð hér á vesturlöndum snemma á síðustu öld. Hann lagði grunnlínur að svæðameðferð eins og við þekkjum hana í dag. Hann hélt því fram að til væru tíu orkusvæði sem greindust um líkamann frá hvirfli til ylja. Dr. Fitzgerald komst að þeirri niðurstöðu að beinn þrýstingur á svæði fóta og handa gat haft bæði deyfandi og örvandi áhrif annarstaðar í líkamanum.  Hann studdist við gömlu fræðin og þróðaði nýja svæðameðferðartækni, hélt fyrirlestra, kenndi og prófaði sig áfram á fjölda manns og gaf út bókina Zone-therapy með þessum nýju aðferðum.

Það voru ekki margir læknar sem sýndu þessu “nýja” meðferðarformi áhuga. En það var þó einn, Dr. Joseph Riley og sjúkraþjálfari hans, Eunice Ingham (1879-1974) en hún ætti með réttu að vera nefnd móðir nútíma svæðameðferðar.  Það var árangur hennar, óþreytandi rannsóknir og vinnusemi sem hafa gert svæðameðferð að því sem hún er í dag. Það var Eunice Ingham sem vann það vandasama verk að kortleggja svæði fóta og handa. Hún þróðaði til þess sérstaka nuddtækni sem hefur verið nefnd eftir henni, Ingham aðferðin.  Allt frá 1930 fram til 1974 vann hún sleitulaust að  rannsóknum um svæðameðferð. Hún gaf út bækurnar “Frásagnir fóta I og II “ sem Örn og Örlygur þýddu og gáfu út árið 1976 og 1977.

Árið 1973 var svæðameðferðastofnun opnuð sem ber nafnið The International Institute of Reflexology til að útbreiða aðferðina sem var eins og áður sagði kölluð Ingham-aðferðin. Frá þeim tíma hefur svæðameðferðin orðið sú náttúrulækningaaðferð sem breiðst hefur hvað hraðast út.

Til Íslands barst svæðameðferðin um 1977, þegar til landsins  kom maður að nafni Harald Thiis og hélt fyrsta námskeiðið í svæðameðferð. Var strax mikil áhugi á þessu nýja meðferðarformi og um vorið 1978 voru stofnuð samtökin “Svæðameðferð og heilsuvernd”. Eru þau samtök forveri þeirra félaga sem eru starfrækt hér á landi í dag. Þau félög sem eru starfrækt í dag eru tvö, Svæðameðferðafélag Íslands og Samband svæða-og viðbragðsfræðinga á Íslandi.

Eins og áður  hefur komið fram er svæða- og viðbragðsnudd aðallega notað á hendur og fætur, og byggt á þeirri kenningu að ákveðin svæði eða viðbragðspunktar hafi áhrif á tiltekin líffæri, stoðkerfi, innkirtlakerfi og alla aðra starfsemi líkamans.  Svæðameðferð er sögð ” virkja lækningarmátt líkamans ” og er því meðferðin bæði gagnleg til að fyrirbyggja vanheilsu og til að viðhalda góðri heilsu. Líkaminn vinnur “viðgerðarstörf” sín best í þeirri djúpu slökun sem svæðameðferð veitir.

Þegar við erum hraust erum við orkumikil, en orkulítil þegar við erum of þreytt, undir of miklu álagi eða veik. Svæðameðferð eflir orkuflæðið um líkamann, súrefnisupptakan og blóðstreymið í líkamanum verður eðlilegra, andlegt og líkamlegt atgervi eykst. Þetta meðferðarform vinnur heildrænt að jafnvægi í líkamanum. En veigamesti þáttur svæðanudds er sú vellíðan og slökun sem það veitir. Með því að draga úr spennu örvast blóðrás og taugaboð, samræmi og jafnvægi kemst á líkamsstarfsemi. Þar sem rekja má marga kvilla nútímamannsins til streitu getur meðferð þjálfaðs svæðanuddara komið að miklu gagni í flestum tilvikum.

Það má segja að þegar svæðanudd er notað eru tærnar að “tala” við meðhöndlarann, hvar sé álag og hverju þiggjandinn þurfi að breyta til að að jafnvægi komist á hjá honum.

Svæðameðferð er flókin og sérstæð vísindagrein, og hafa verið gerðar margar rannsóknir á virki hennar hjá rannsóknarsetrum víða um heim. Meðal annars á Norðurlöndunum og í Evrópu. Svæðameðferð hentar fólki á öllum aldri.

Allir þeir sem hafa fullnægjandi menntun í svæðameðferð eru í Svæðameðferðafélagi Íslands eða Sambandi svæða-og viðbragðsfræðinga á Íslandi. Og eru bæði þessi félög aðilar að Bandalagi íslenskra græðara sem eru regnhlífasamtök allra  þeirra sem stunda heildrænar meðhöndlanir.

Sigrún Sól Sólmundsdóttir

Höfundur er Svæða-og viðbragðsfræðingur.     

Hún er jafnframt formaður Svæðameðferðafélags Íslands.

Previous post

Sjúkraþjálfun

Next post

Vöðva- og hreyfifræði

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *