Sykur og gosdrykkir
Sykurbættur matur og sætir drykkir auka áhættu á að þróa krabbamein í brisi. Gosdrykkir og sykur í kaffi eru algengustu orsakavaldarnir á þessari auknu áhættu. Fylgst var með matar- og drykkjarvenjum 80.000 einstaklinga yfir 7 ára tímabil, frá 1997 til 2005. Í lok þessa tímabils greindust 131 einstaklingur með krabbamein í brisi.
Þeir sem að voru í mesta áhættuhópnum, voru þeir sem að drukku gosdrykki. Þeir sem að drukku gosdrykk tvisvar á dag eða oftar, voru í 90% meiri áhættu en þeir sem að aldrei drukku gosdrykki. Fólk sem að bætti sykri í drykki sína, t.d. í kaffibollana, fimm bolla á dag, voru í 70% meiri áhættu en þeir sem að slepptu sykrinum.
Enn og aftur kemur það sterklega fram hve sykur getur haft slæm áhrif á líkamann. Mikil sykurneysla hefur gífurleg áhrif á insúlínframleiðslu brissins og gæti sú offramleiðsla einmitt verið ástæða þróunar krabbameins í brisi hjá þessum einstaklingum.
Fyrir rúmlega 75 árum fékk þjóðverjinn Dr Warburg Nóbelsverðlaunin fyrir uppgötvun sína á hvernig krabbamein þrífst á sykri. Því miður virðast uppgötvanir hans ekki hafa náð mikilli útbreiðslu. Fyrr en þá kannski nú og þá í tengslum við krabbamein í brisi. Mikil sykurneysla er alþjóðlegt vandamál og er offita orðið stórt vandamál í heilbrigðismálum á meðal margra þjóða.
Framundan er helsti sykurmánuður ársins. Reynum að hafa það í huga að ekki þarf allt að vera yfirfullt af sykri til að bragðast vel. Til eru margar góðar uppskriftir af smákökum án sykurs, gerum fleiri sortir af þeim og færri af hinum “venjulegu”. Einnig má oft helminga sykurmagnið í þeim uppskriftum og frekar að nota hrásykur en hvítan sykur. Notum líka gosdrykkina sparlega yfir hátíðarnar.
Sýnum skynsemi og verum góð við líkama okkar!
Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum 11. desember 2006
No Comment